Uppboð Vísnabókin sem prentuð var á Hólum árið 1748.
Uppboð Vísnabókin sem prentuð var á Hólum árið 1748.
Bókauppboð Bókarinnar á Klapparstíg og Gallerís Foldar er hafið og stendur til 7. apríl. 99 bækur eru á uppboðinu og kennir þar ýmissa grasa. Elstu ritin eru frá árinu 1591. Þetta segir Ari Gísli Bragason fornbókasali í samtali við Morgunblaðið

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Bókauppboð Bókarinnar á Klapparstíg og Gallerís Foldar er hafið og stendur til 7. apríl. 99 bækur eru á uppboðinu og kennir þar ýmissa grasa. Elstu ritin eru frá árinu 1591.

Þetta segir Ari Gísli Bragason fornbókasali í samtali við Morgunblaðið.

Upphafsverðið á ritunum er byggt á verðmati. Samkvæmt því er dýrasta ritið Vísnabókin sem var prentuð á Hólum árið 1748. Verðmatið á henni er 85.000 krónur.

„Það myndi vera 250-400 þúsund ef hún væri heil, sem hún er ekki. Mér finnst dálítið magnað að titilsíðan er heil og þó nokkuð af síðunum er heilt. En að öðru leyti er þetta ræfill,“ segir Ari.

Uppboðinu lýkur sunnudaginn 7. apríl, eins og áður sagði. Fyrsta bókin verður þá slegin kl. 14 og svo á tveggja mínútna fresti þar til yfir lýkur. Bækurnar eru til sýnis hjá uppboðshúsinu Fold við Rauðarárstíg en til þess að taka þátt í uppboðinu þarf að fara inn á vefsíðuna uppbod.is.

Ari gerir ráð fyrir ágætri eftirspurn enda úrvalið gott.

Nokkuð er um gamla prentgripi á uppboðinu og má nefna prent frá Hólum í Hjaltadal, Viðeyjarklaustri og Kaupmannahöfn. Þá verða boðnar upp mjög gamlar bækur prentaðar í Evrópu, þar sem sú elsta var prentuð fyrir árið 1600. Það er bókin Panegyrici Veteres sem prentuð var árið 1591 í Genf í Sviss. Íslendingasagnaútgáfan af Njálu í tveimur bindum, sem Dasent stóð að og prentuð var í Lundúnum árið 1861, er einnig á uppboðinu og í upprunalegu bandi.

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson