Þórður Gunnar Valdimarsson fæddist á Akureyri 21. júní 1950. Hann lést á heimili sínu í Frankfurt í Þýskalandi 13. desember 2023.

Foreldrar hans voru Árnína Jónsdóttir verkstjóri, f. 24.11. 1923, d. 6.10. 2015, og Valdimar Jónsson skipstjóri, f. 11.1. 1921, d. 5.10. 2006.

Systkini Þórðar Gunnars eru Jón Kristinn, f. 1946, Margrét Lilja, f. 1949, og Erna Valdís, f. 1957.

Þórður Gunnar giftist Þórdísi Kristjánsdóttur 12.11. 1971. Börn þeirra eru fjögur: 1) Hildur Björk, f. 27.10. 1967, maki Tryggvi Tryggvason. Synir þeirra eru Stefán Þór, Tryggvi Snær og Davíð Orri. 2) María, f. 4.10. 1969, ættleidd, maki John Cochrane. Dóttir þeirra er Holly. 3) Gunnar Þór, f. 28.9. 1974, maki Zeljka Kristín Klobucar. 4) Tinna Karen, f. 13.1. 1980, maki Linda Person. Börn þeirra eru Hedvig og Hilding.

Þórður Gunnar og Þórdís skildu árið 1992. Síðari eiginkona Þórðar Gunnars var Jónína Tryggvadóttir sem lést árið 2001.

Þórður Gunnar fluttist ásamt foreldrum sínum til Keflavíkur árið 1962. Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum við Hamrahlíð lá leiðin fljótlega til Bonn í Þýskalandi þar sem hann stundaði nám í uppeldisfræðum. Við heimkomu vann Þórður Gunnar sem stundakennari í Háskóla Íslands en lengst af vann hann hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hann fluttist til Frankfurt í Þýskalandi árið 2001 og bjó þar alla tíð.

Minningarathöfn var í Grafarvogskirkju hinn 7. mars sl. og fór hún fram í kyrrþey.

Minn kæri bróðir Gunni er látinn. Hann fæddist hinn 21. júní 1950 á Oddeyrargötu 6a á Akureyri. Ég man sjálfur ekki mikið frá þessum árum en bastkarfa (vaggan) sem hann lá í er mér efst í huga. Árið 1952 fluttum við fjölskyldan í stærra húsnæði í Aðalstræti 21 og áttum við okkar bestu uppvaxtarár þar. Þegar gengið var út úr garðinum var komið í litla sandfjöru og var hún mikið notuð af okkur bræðrum. Gunni var duglegur að gera fjöruna að litlu bæjarfélagi með húsum og götum ásamt stórum skóla. Skólinn var hans besti staður en honum gekk ávallt vel í skólanum. Á veturna kom ís á sjóinn fyrir framan húsið og var Gunni ungur er hann varð góður á skautum og íshokkí varð hans íþrótt.

Árin liðu áfram við leik og störf en við bræður vorum sendir í sveit. Gunni fór til frændfólks sem á jörð við Dalvík. Þar var hann hjá frábæru fólki í þrjú sumur og mynduðust sterk vináttubönd milli bóndans Hafsteins og Gunna bróður.

Árið 1962 flutti Gunni með foreldrum okkar til Keflavíkur en ég varð áfram á Akureyri. Við flutninginn fækkaði samverustundum okkar á milli eins og gerist þegar fjarlægðin verður meiri.

Þegar Gunni lauk námi í Þýskalandi og kom aftur til landsins náðum við góðu sambandi aftur sem hélst ávallt síðan. Minnisstætt er þegar hann keypti íbúð við Bergstaðastræti og við komum henni í gott lag saman, það eru dýrmætar minningar.

Árin liðu svo áfram og Gunni flutti árið 2001 til Danmerkur þar sem hann bjó í eitt ár en hélt svo aftur til Þýskalands. Þar áttum við góð samtöl og samveru og fórum saman í minnisstæð ferðalög til margra borga, t.d. Madrid, Lissabon, Prag og Búdapest ásamt nokkrum borgum í Þýskalandi.

Blessuð sé minning þín kæri Gunni. Ég sendi börnum og öðrum ættingjum mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Þinn bróðir,

Jón.

Gunni Vald kom inn í hóp okkar félaganna haustið 1962 þegar hann fluttist til Keflavíkur frá Akureyri með foreldrum sínum. Lágvaxinn en knálegur, ljóshærður og broshýr. Og þótt hann talaði með norðlenskum hreim, þá var hann líka dálítið hjólbeinóttur eins og Rúnni Júll. Svo var hann liðtækur í fótbolta og átti trommusett Þetta þurfti því ekki endilega að klikka. Enda féll Gunni vel inn í hópinn og varð vinsæll. Það leyndi sér heldur ekki að hann var hörkunámsmaður og mikill pælari. Hann lauk landsprófi frá gagnfræðaskólanum og var einn vetur í Menntaskólanum á Laugarvatni áður en hann skipti yfir í Menntaskólann við Hamrahlíð haustið 1967 og settist í 2. bekk. Það sama haust hófu nokkrir Keflvíkingar nám í 1. bekk og fyrsta Keflavíkurklíka skólans tók á sig mynd. Samskiptin voru mikil og náin næstu árin en ekki alltaf átakalaus. Gunni átti það til að vera mislyndur og stríður í samskiptum og það gat reynt á þolrifin. Rökræður um pólitík og hvað annað gátu endað í hávaðaþrasi og stælum. En svo varð allt gott aftur.

Eftir háskólaárin hélt hver sinn veg með fjölskyldu og börn og samskiptin urðu minni og slitróttari og stundum engin mánuðum og árum saman. Vináttuböndin trosnuðu en slitnuðu ekki. Ef eitthvað bjátaði á var leitað í gamla hópinn eftir stuðningi eða greiða ef svo bar undir og ekki var komið að tómum kofum.

Með árunum gerðist Gunnar okkur fjarlægari og hvarf um langa hríð nær alveg út af sjónardeildarhringnum. Svo fréttist af honum í Þýskalandi. Þangað hafði hann flust fljótlega eftir andlát seinni konu sinnar og þar bjó hann einn upp frá því.

Ég hitti Gunnar í Heidelberg haustið 2007, gamla Gunna Vald, fróðan og víðlesinn, skemmtilegan og glaðlyndan. Upp frá því fór hann að hringja í mig af og til og spjallaði þá yfirleitt lengi. Seinna varð þetta myndspjall þar sem hann sat glaðbeittur við tölvuna með rautt í glasi. Umræðuefnið var oftast það sem þá var efst á baugi, pólitíkin eða ástandið í heimsmálunum og stundum heimspekilegar pælingar. Oftast vildi hann bara fá fréttir af gamla vinahópnum, af Átthagafélaginu. Hvað voru menn að stússa og spá? Og heilsan, sérstaklega þegar vinir gengu í gegnum erfið veikindi og kvöddu hver af öðrum. Fyrst Helgi Jó, síðan Logi og svo Baldur. Þá hringdi hann oftar og vildi fylgjast með. Iðulega lét hann í ljós löngun til að koma á fund hjá Átthagafélaginu og eiga með okkur góða stund en var svo snöggur að draga í land þegar ég hvatti hann að koma „upp á Klakann“. Í þessum löngu samtölum varðist hann ávallt allra fregna um eigin hagi, eyddi því tali eða sleit samtalinu snögglega. Það var ljóst að hann vildi ekki koma heim þótt þar stæðu allar dyr opnar. Hann kaus einveru. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu í Frankfurt og fór einn í sína hinstu ferð. Ætli Helgi Jó hafi tekið fagnandi á móti honum? Það kæmi mér ekki á óvart.

Þórði Gunnari þakka ég samfylgdina og vináttuna og mun minnast hans með hlýju. Ég votta fjölskyldu hans mína dýpstu samúð. Blessuð sé minning Þórðar Gunnars.

Eiríkur Hermannsson.