Hermann Nökkvi Gunnarsson
hng@mbl.is
Tjón vegna þjófnaðar í verslunum á Íslandi, sem tengist alþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi, hleypur á 6-8 milljörðum króna á ári. Á næstunni verður kynnt til leiks aukið samstarf verslana og lögreglunnar til að brjóta þennan þjófnað á bak aftur.
Þetta segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), í samtali við Morgunblaðið.
„Þetta er vandamál í öllum verslunum á Íslandi,“ segir Andrés.
Hann segir að SVÞ hafi unnið í mörg ár með lögreglunni í leit að leiðum til að bæta samskipti verslana og lögreglunnar. Nú sé í höfn nýtt kerfi sem ætti að bæta viðbragðstíma lögreglunnar.
„Þessa dagana er verið að setja í gang nýtt samskiptakerfi lögreglu við verslanirnar sem á að bæta mjög viðbragðstíma hjá lögreglunni. Þetta er fyrsta alvöruskrefið sem hefur verið stigið allan þann tíma sem ég hef verið hérna og mun gefa lögreglunni miklu meiri möguleika á að bregðast við. Þannig að ef það er framið afbrot í verslun fara skilaboðin með mjög hröðum hætti út í þá lögreglubifreið sem er næst vettvangi,“ segir Andrés.
Hann segir að í nágrannalöndum sé það nokkurn veginn á hreinu hversu mikið tjónið sé.
„Miðað við það sem við sjáum í nágrannalöndum okkar, þar sem þetta tjón er mælt allnákvæmlega sem hlutfall af veltu í smásölu, getum við sagt að þetta séu svona 6-8 milljarðar sem fara forgörðum með þessu árlega á Íslandi,“ segir hann.
Andrés segir að þessi þróun sé svipuð í verslun hér á Íslandi og í öðrum norrænum löndum og annars staðar í Evrópu. Skipulagðir hópar senda fólk í veikri stöðu til landsins í þeim tilgangi að fremja afbrot og flytja varninginn svo úr landi til endursölu. Þetta sé viðvarandi vandi sem hafi aukist samhliða auknum ferðamannastraumi.
„Langstærsti hluti þess tjóns sem verður með þessum hætti er unninn af fólki sem kemur hingað og er hérna í takmarkaðan tíma. Allt of oft – að því er virðist – er það sent hingað í þessum tilgangi og þegar það hefur verið handtekið tvisvar eða þrisvar þá hverfur það á braut og nýir eru sendir í staðinn,“ segir hann.
Upptökur úr öryggismyndavélum í verslunum og handtökur lögreglu sýni fram á að um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða. Hann segir þó að það sem renni mest stoðum undir það að þjófnaðurinn sé framinn af útlendingum sé að á tímum samkomutakmarkana stjórnvalda hafi þjófnaðurinn hrunið.
„Þetta datt mjög niður í covid, þegar enginn var að ferðast, og það er skýrasta vísbendingin um það.“