Heimaey VE, eitt af skipum Ísfélagsins.
Heimaey VE, eitt af skipum Ísfélagsins.
Hagnaður Ísfélagsins nam í fyrra um 38,6 milljónum bandaríkjadala (um 5,3 mö.kr. á meðalgengi síðasta árs) samanborið við 61,3 milljóna dala hagnað árið áður. Í ársreikningi félagsins kemur fram að minni hagnað megi rekja til vaxtaskiptasamninga og hlutabréfaafleiðna

Hagnaður Ísfélagsins nam í fyrra um 38,6 milljónum bandaríkjadala (um 5,3 mö.kr. á meðalgengi síðasta árs) samanborið við 61,3 milljóna dala hagnað árið áður. Í ársreikningi félagsins kemur fram að minni hagnað megi rekja til vaxtaskiptasamninga og hlutabréfaafleiðna. Rekstrarhagnaður (EBITDA) nam 71 milljón dala (um 9,8 mö.kr.) á árinu en var 70 milljónir árið 2022.

Tekjur Ísfélagsins námu um 194 milljónum dala á árinu og jukust um rúmlega 30 milljónir. Þá nam framlegð félagsins um 69 milljónum dala og jókst um tvær milljónir. Hækkun tekna má fyrst og fremst rekja til sameiningar Ísfélagsins við Ramma, sem gekk í gegn um mitt ár 2023, en rekstur Ramma fyrstu sex mánuði síðasta árs er ekki talinn með í ársuppgjöri Ísfélagsins. Ef rekstur félaganna tveggja fyrir árið í heild er tekinn saman nemur sameiginlegur hagnaður um 45 milljónum dala.

Eigið fé Ísfélagsins var í árslok 2023 um 554 milljónir dala (um 75,5 ma.kr.) og eiginfjárhlutfallið var um 69%.

Ísfélagið var skráð á markað í byrjun desember sl. en gengi félagsins hefur síðan þá lækkað um tæp 5%. Markaðsvirði félagsins er í dag um 128 ma.kr.