Hugsið ykkur! Menn bara orðnir fertugir og hvorki séð né hitt draug. Þvílíkt og annað eins brot á mannréttindum.

Pistill

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Hér í Sunnudagsblaðinu birtist fyrir réttri viku mergjuð frásögn af reimleikum á bænum Saurum norður á Skaga í aðdraganda páska 1964. Ég vona innilega ykkar vegna að þið hafið lesið hana. Ef ekki þá vona ég líka innilega ykkar vegna að þið hafið geymt blaðið. Það er ágæt regla að geyma Sunnudagsblaðið í að minnsta kosti þrjár vikur. Ef þið iðið nú í skinninu og viljið gera hlé á lestri þessa pistils til að kynna ykkur þessa reimleika betur þá er það velkomið. Ég skal hinkra.

Jæja, velkomin aftur! Var þetta ekki mergjað? Sannarlega dularfullir atburðir sem Morgunblaðið stíffjallaði um svo dögum skipti og Þórður Jónsson, fréttaritari blaðsins á Skagaströnd, var eins og grár köttur heima hjá hjónunum og börnum þeirra á Saurum. Á þessum árum voru miðlar landsþekkt fólk og bæði Hafsteinn miðill og Lára miðill drifu sig á staðinn. Þá bjallaði Þórbergur Þórðarson, helsti reimleikafræðingur landsins, í Morgunblaðið til að staðfesta að um reimleika væri að ræða. Enda þótt hann væri staddur í Reykjavík.

Í ítarlegri fréttaskýringu Morgunblaðsins af þessu tilefni kom fram að draugum hafði fækkað nokkuð árið 1964 frá velmektardögum þeirra þegar þeir voru í hverju horni og á hverjum fjósbita. Jafnvel mátti á þessum tíma finna menn innan við miðjan aldur sem höfðu bara hreint ekkert haft saman við drauga að sælda. Hugsið ykkur! Menn bara orðnir fertugir og hvorki séð né hitt draug. Þvílíkt og annað eins brot á mannréttindum. Var þetta seinheppna fólk eindregið hvatt til að kynna sér drauga og draugagang með lestri fræðibóka.

Á þessari sviplegu fækkun drauga gaf Morgunblaðið eftirfarandi skýringu: „Flestum ber saman um, að draugum hafi fækkað mikið í seinni tíð. Hins vegar eru ekki allir á eitt sáttir um orsök þeirrar fækkunar. Sumir kenna hana raflýsingunni, aðrir hlýrra veðurfari en áður fyrr, enn aðrir geislunum frá kjarnorkusprengjum og telja að draugar þoli hana mun verr en menskir menn, þar sem þeir séu ekki gæddir jafnþéttum efnishjúpi.“

Þabblaða. Ætli Oppenheimer hafi gert sér grein fyrir því á sinni tíð að hann væri mögulega helsti draugabani heims? Var það ef til vill alltaf meginmarkmiðið með stóru bombunni? Var ekki langur kafli um þetta í bíómyndinni um kappann? Ég missti því miður af henni.

Eigi ég að vera alveg hreinskilinn við ykkur þá botna ég hvorki upp né niður í því hvernig við, þessi víðsýna þjóð, nennum að tala, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, um styrjaldir, kjaramál, enn eitt eldgosið og forsetakosningar – þegar við gætum verið að tala um drauga!