Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Lögum Elínar Halldórsdóttur hefur verið streymt nær milljón sinnum á Spotify í 100 löndum víða um heim, oftast í Bandaríkjunum. „Vegna sífellt vaxandi fjölda fyrirspurna frá öðrum löndum kem ég nú fram með hljómsveit og annarri söngkonu og flyt 15 af mínum vinsælustu lögum fyrir íslenska áheyrendur,“ segir hún um Multiverse, tónleika sína fyrir alla aldurshópa í Kaldalóni í Hörpu laugardaginn 6. apríl.
Elín hefur starfað sem tónmenntakennari í mörg ár. Þegar spjaldtölvuinnleiðingin hófst vann hún í Kópavogi. „Þá samdi ég mörg barnalög, setti upp tvo söngleiki á ári, fyrst þekkta söngleiki en síðan langaði mig til að fara nær börnunum og skapa efnið sjálf,“ segir hún um byrjun lagasmíðanna. Hún hafi samið fimm um tíu laga söngleiki, þar á meðal Ævintýri Sædísar skjaldböku, sem Menntamálastofnun gaf út, og sett allt efni sitt inn á streymisveituna Soundcloud. Mikil spilun á efninu hafi vakið athygli stjórnenda veitunnar og hún hafi gert við þá dreifingarsamning. „Allt í einu var tónlist minni dreift á 30 miðla úti um allan heim og síðan hef ég gert fjögur albúm til að fylga fyrra efni eftir.“
Mikill meðbyr
Til nánari skýringar segir Elín að á covid-tímanum hafi hún búið hjá móður sinni í Noregi í eitt ár og þá hafi opnast á spilun laga hennar erlendis. Hún hafi verið dugleg að setja inn efni og eftir því sem spilunin hafi aukist hafi hún fengið aukinn meðbyr. „Lögin mín fengu meiri hlustun og með tónleikunum er ég að svara þessu kalli að kynna tónlistina mína, en ég er með um 150 frumsamin lög á Soundcloud-síðunni minni og hátt í 100 lög á Spotify.“
Elín segist yfirleitt semja textana fyrst og síðan hljóma við þá á píanóinu, en grunnur hennar sé í óperutónlist. Hún noti einfalt tónlistarforrit sem sé mikið notað í kennslu og bjóði upp á marga möguleika. „Tónlistin mín er því í þessum rafræna stíl og sköpun mín sprettur í gegnum þetta ferli.“ Hún bætir við að hún hafi alist upp við tónlist níunda áratugarins þegar raftónlistin hafi byrjað. Fleiri stílar hafi verið í gangi eins og sveitatónlist, diskó og rokk og ról. „Þegar við byrjuðum að æfa lögin fyrir tónleikana kom í ljós að ég er í nokkrum stílum.“ Tvö lög séu til dæmis í þungarokksstíl, nokkur falli undir sveitatónlist og svo framvegis. „Ég rappa til dæmis í einu laginu sem heitir Stay Healthy og er með diskótakti.“ Það fjalli um mikilvægi þess að ekki megi hlusta of mikið á alla síbyljuna heldur þurfi að finna þekkinguna og viskuna hjá sjálfum sér. „Það er mikilvægt til að viðhalda heilbrigði í þessum válynda heimi.“
Vinsælasta lag Elínar um þessar mundir er My Dragon eða Drekinn minn. „Það kemur kannski ekki á óvart á ári viðardrekans samkvæmt kínverskri stjörnuspá,“ vekur hún athygli á. Bætir við að lagið Multiverse sé langmest streymda lagið með um 150 þúsund streymi á Spotify og Soundcloud. „Lagið fjallar um fjölheiminn og ólíkar víddir og tíðnir og um mátt og megin mannsins sjálfs, um það hvernig við getum virkjað erfðaefni okkar til þess að vera sterkari, virkjað dulda hæfileika okkar til að vera manneskjur í þessum breytta heimi.“
Tónleikarnir hefjast klukkan 18.00 og er miðasala á netinu (tix.is). Ólöf Sigríður Valsdóttir syngur með Elínu í Hörpu og í hljómsveitinni eru Vilhjálmur Guðjónsson gítarleikari, Haraldur Þorsteinsson bassaleikari, Ásgeir Óskarsson trommuleikari og Logi Kjartansson hljómborðsleikari. Elín leggur áherslu á að tónleikarnir séu fyrir alla. „Ég hef unnið mikið með börnum og samið mikið fyrir börn rétt eins og aðra. Þetta eru fjölskyldutónleikar.“