Erla við eitt af málverkunum á sýningunni.
Erla við eitt af málverkunum á sýningunni. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Draumur móður minnar er titill á sýningu Erlu S. Haraldsdóttur í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Þar sýnir Erla málverk, blýantsteikningar og málaða skúlptúra úr náttúruefnum. Verkin eru unnin á árunum 2021 til 2024

Draumur móður minnar er titill á sýningu Erlu S. Haraldsdóttur í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Þar sýnir Erla málverk, blýantsteikningar og málaða skúlptúra úr náttúruefnum. Verkin eru unnin á árunum 2021 til 2024.

Verkin eru byggð á fjórum draumum Svanhildar, langömmu Erlu, sem hana dreymdi árið 1863. Dóttir Svanhildar skrifaði seinna draumana niður í dagbók sem komst seinna í eigu Erlu.

Erla rekur draumana: „Þegar Svanhildur átti að fermast dreymdi hana að til hennar kæmi maður sem vildi að hún aðstoðaði konu hans í barnsnauð. Svanhildur gekk með manninum að kletti sem opnaðist og þar var konan, mjög veik. Svanhildur hjálpaði henni að fæða barnið. Þegar Svanhildur var nýbúin að þvo barninu strauk hún á sér augað og sá dásemd og fegurð sem hún hafði aldrei áður séð. Svo strauk hún hitt augað og þá hvarf fegurðin.

Huldukonan kom seinna til hennar í draumi og sagðist myndu færa henni þjóðbúning, gullbelti og skart en tók fram að hún mætti engum segja frá því. Morguninn eftir sagði Svanhildur móður sinni frá gjöfinni sem hún átti að fá. Huldukonan kom þá aftur til hennar í draumi, mjög reið, sagði að hún hefði verið ótrú og myndi ekki fá búninginn. Svanhildur vaknaði og varð svo veik að fresta varð fermingunni. Læknar og prestar komu til hennar en fengu ekkert að gert. Nokkru seinna kom huldukonan enn til hennar í draumi og hvíslaði einhverju að henni meðan hún strauk henni um kinnina. Svanhildur varð skyndilega alheil. Hún sagði aldrei frá því hvað huldukonan hafði sagt við hana.“

Erla segist hafa heillast af þessari sögu og viljað túlka hana sem forskrift að myndverkasýningu. Á sýningu hennar eru sex stór olíumálverk sem umlykjast veggverkunum þar sem málverkið heldur áfram út á veggi rýmisins, fimm minni málverk, níu gvassverk, skúlptúr með 200 gylltum smásteinum sem hanga frá loftinu, og átján teikningar, sem vísa í draumana. Einnig vídeóverk þar sem tveir Jung-sálgreinar, Deborah Stewart og Liza Marchiano, frá bandaríska hlaðvarpinu This Jungian Life, lesa draumana úr dagbókinni á ensku og leitast við að ráða þá.

Þetta er þriðja sýningin á verkunum, sem hafa verið sýnd í Svíþjóð í Norrtälje Konsthall og í Gallery Gudmundsdottir í Berlín, en eru nú sýnd í fyrsta sinn á Íslandi. Erla hefur bætt við nýjum verkum á sýninguna í Hveragerði.

„Þetta er mín leið til að nýta ferlið sjálft til að kanna myndmálið og tengingar sem skutu upp kollinum á meðan ég velti fyrir mér draumunum. Teikningarnar eru ekki myndlýsing á draumunum, heldur hliðstætt ferli ætlað til að skapa myndir og nálgast efni draumanna á áleitinn hátt,“ segir Erla. „Ég er að reyna að nálgast þá og þreifa mig áfram með því að kynnast þeim og þessari konu, ættmóður minni,“ segir Erla. „Þrjú málverkanna sýna stúlkuna sem er með annað augað lokað og sér fegurðina í kringum sig. Það er mikil hreyfing í þeim málverkum. Svo eru tvö málverk af huldukonunni, annað þar sem hún heldur á kistli sem hún ætlar að gefa stúlkunni og hitt málverkið sýnir hana mjög reiða. Himinn, haf og vatn sjást á myndunum og tengjast undirmeðvitundinni og hinu loftkennda og dramatíska.

Ég sýni líka litlar blýantsteikningar sem eru einhvers konar senur úr þessum draumum eins og ég ímynda mér þá. Teikningarnar sýna til dæmis steina á strönd og lítið barn sem er nýfætt. Skúlptúrarnir á sýningunni eru gerðir úr steinum sem ég hef tínt á morgungöngum með hundinum mínum uppi á fjalli í Jóhannesarborg þar sem ég bý. Ég gylli þessa steina, þannig að þeir minna á gersemar í sögum og ævintýrum sem einhver fær að gjöf en verða um morguninn að mold.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir