— Ljósmynd/Harpa Hlín Þórðardóttir
Óhætt er að segja að aðstæður til stangaveiða hafi verið veiðimönnum víða um land mótdrægar þegar sjóbirtingsveiðin hófst 1. apríl, en rok og kuldi settu svip sinn á þennan opnunardag í stangaveiðinni þetta árið

Óhætt er að segja að aðstæður til stangaveiða hafi verið veiðimönnum víða um land mótdrægar þegar sjóbirtingsveiðin hófst 1. apríl, en rok og kuldi settu svip sinn á þennan opnunardag í stangaveiðinni þetta árið.

Meðfylgjandi mynd var tekin við Leirá í Leirársveit á opnunardaginn og þar háttaði svo til að áin var að mestu ísilögð og ómögulegt að koma agninu niður.

Það er Iceland Outfitters sem er með veiðiréttinn í Leirá á leigu og sagði Harpa Hlín Þórðardóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, í samtali við Morgunblaðið að hún og aðrir veiðimenn hefðu gefist upp fyrir hádegið, enda áin óveiðandi.

En gæðum lífsins er misskipt í þessum efnum eins og öðrum. Við annan tón kvað í Eldvatni í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu, en þar veiddust 20 sjóbirtingar á opnunardaginn. Segir Jón Hrafn Karlsson hjá Eldhrauni, sem hefur með veiðina þar að gera, að þetta sé besta byrjun í vorveiðinni sem hann muni eftir, þrátt fyrir að hífandi rok og kuldi hafi gert mönnum lífið leitt.