Helga á sýningunni „Það er áhugavert fyrir okkur að fá innsýn í hvað Pólverjum finnst og hvernig þeim líður hér.“
Helga á sýningunni „Það er áhugavert fyrir okkur að fá innsýn í hvað Pólverjum finnst og hvernig þeim líður hér.“ — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Á Íslandi búa rúmlega tuttugu þúsund Pólverjar, en þá erum við aðeins að tala um þau sem eru með pólskt ríkisfang. Þar fyrir utan hafa mjög mörg hlotið íslenskt ríkisfang og svo eru þau sem eiga eitt pólskt foreldri og annað íslenskt, þessi tala segir því ekki alla söguna

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Á Íslandi búa rúmlega tuttugu þúsund Pólverjar, en þá erum við aðeins að tala um þau sem eru með pólskt ríkisfang. Þar fyrir utan hafa mjög mörg hlotið íslenskt ríkisfang og svo eru þau sem eiga eitt pólskt foreldri og annað íslenskt, þessi tala segir því ekki alla söguna. Pólverjar hér voru aðeins nokkur hundruð manns fyrir 25 árum, en nú er þetta heilt samfélag innan okkar samfélags og við reynum að grípa ýmislegt úr því með þessari sýningu,“ segir Helga Vollertsen, sérfræðingur við þjóðháttasafn Þjóðminjasafns Íslands, um sýninguna Pólskar rætur og daglegt líf á Íslandi, sem nú stendur yfir í Þjóðminjasafninu. Sýningin byggist á rannsókn þjóðháttasafnsins á reynslu pólsks fólks sem flust hefur til Íslands og varpar ljósi á verkefni undir stjórn Helgu sem byggir á frásögnum pólskra Íslendinga sem hafa fyllt út spurningaskrá frá safninu.

„Þannig verður til þekking á upplifun fólks sem á rætur að rekja til Póllands, af veru þeirra hér á landi. Bæði mótlæti og sigrum sem fylgja því að vera af erlendu bergi brotin og ekki síst daglegu lífi þeirra í samfélagi okkar. Á sýningunni má sjá brot af þeim svörum og ljósmyndum sem borist hafa í þessu verkefni,“ segir Helga og bætir við að Anna Wojtynska hafi unnið með henni spurningaskrána.

„Anna er pólsk, með doktorspróf í mannfræði frá HÍ og starfar þar sem rannsóknasérfræðingur. Við Anna unnum þetta verkefni í samvinnu við borgarsögusafnið í Varsjá og fengum styrk frá Uppbyggingarsjóði EES og Noregs. Við sendum út spurningar um daglegt líf Pólverja á Íslandi núna í janúar sem hægt er að svara út árið, svo við eigum eftir að fá miklu fleiri svör. Spurningarnar eru á pólsku, íslensku og ensku og flest svör sem við höfum fengið eru frá konum, en tilgangurinn með sýningunni er m.a. að vekja athygli á að við erum að gera þetta, því við viljum að þetta spyrjist út í pólska samfélaginu. Auk þess er áhugavert fyrir okkur að fá smá innsýn í hvað Pólverjum finnst og hvernig þeim líður hér. Mér finnst gaman hversu heiðarleg svörin eru og að sum opna sig mikið. Pólska letrið er líka svo fallegt þegar við sjáum það skrifað svona stórt uppi á vegg.“

Söknuður til heimalandsins

Helga segir að í spurningalistanum sé m.a. spurt um hvað hafi orðið til þess að fólk flutti hingað, hverjar aðstæður voru heima fyrir, hvernig fólki leið þegar það ákvað að flytja hingað og fleira.

„Við erum með annan kafla fyrir þá Pólverja sem ólust upp hérna, hvort það hafi skipt máli í þeirra sjálfsvitund að vera af pólsku bergi brotin. Við spyrjum líka hvort fólk haldi upp á íslenska hátíðisdaga og/eða pólska hátíðisdaga, hvort pólska fjölskyldan komi hingað í heimsókn eða hvort fólk fari í heimsóknir til Póllands, hvort fólk hafi upplifað mismunun hér á landi, hvort fólk eigi íslenska vini og hvað það geri í sínu daglega lífi og fleira,“ segir Helga og bætir við að allar þessar upplýsingar sem safnast með svörunum séu aðgengilegar fyrir rannsakendur.

„Þessi hópur samanstendur af allskonar fólki og frá þeim koma ólíkustu svör. Sum vissu til dæmis mikið um land og þjóð áður en þau fluttu hingað, á meðan önnur vissu mjög lítið. Ein manneskja sagðist hafa haldið að Íslendingar litu út eins og Grænlendingar. Sum eru hámenntuð, önnur ómenntuð, en Pólverjum fjölgar hér sem ekki eru í láglaunastörfum. Nú er farið að kenna íslensku við þrjá háskóla í Póllandi og pólska er kennd við Háskóla Íslands. Flest þeirra sem svara spurningum eru sátt, en auðvitað er alltaf einhver söknuður til heimalandsins. Sum deila mjög persónulegum sögum og sumar er sárt að lesa, til dæmis kona sem flutti hingað með eins árs barn til eiginmanns síns, en þegar hún kom þá yfirgaf hann þau. Hún var því alls óvænt ein á Íslandi með lítið barn, en hún er hér enn, mörgum áratugum síðar. Aðrar sögur eru fyndnar, til dæmis unga konan sem sagði að sér hefði liðið eins og hún væri lent á tunglinu þegar hún kom hingað og sá hraunið á leiðinni frá Keflavík til Reykjavíkur. Hún velti fyrir sér hvernig hún ætti að geta gengið á háum hælum í þessu grjóti. Í einu svari segir kona að hún finni þegar hún heimsæki gamla heimalandið hversu mikið hún sakni hversdagslegra hluta, að fara í sumarkjól og finna bragðið af pólskum tómötum og brauði. Menning og matur koma mikið við sögu í svörum fólks, mörg tala um að þau sakni meiri fjölbreytileika í grænmeti og að geta ekki keypt beint af bónda árstíðabundnar ferskvörur á mörkuðum. Pólska samfélaginu hér á landi fylgir ýmislegt sem við þekkjum vel, til dæmis pólskar verslanir. Pabbi minn er frá Þýskalandi og hann varð mjög glaður með tilkomu pólskra verslana, því þá gat hann fengið pylsur og fleira sem hann þekkir frá sínum æskuárum.“

Löng bið eftir læknistíma

Helga segir að á sýningunni hafi verið tekin saman nokkur svör um það sem pólsku fólki, sem býr á Íslandi, finnst best og verst við að búa hér.

„Að hér sé stresslaus nálgun á lífið, nefnir ein manneskja sem kost. Önnur segir að hér sé allt önnur og betri nálgun á málefni kvenna en í Póllandi, og ein telur kost að hér séu nánast engin skordýr. Verst finnst fólki t.d. nístandi kuldinn og norðurskautsvindur í andlit, þriggja vikna bið eftir læknistíma og að fólk noti ekki stefnuljós. Kannski er þetta smá þerapía, að geta tjáð sig um skoðanir og líðan. Sum segjast sleppa því að tala móðurmálið, pólskuna, af því þau mæti fordómum ef þau geri það. Önnur segja að Íslendingar ætlist til að þau tali og skilji strax íslensku. Í einu svari segir að Ísland sé land margra tækifæra og fórna, að hvert þeirra hafi grætt eitthvað á því að koma hingað en hafi um leið tapað einhverju. Að Ísland sé eins og hafið sem umlykur okkur, fallegt úr fjarlægð en á sama tíma dimmt, kalt og mjög djúpt. Að djúpið feli í sér leyndarmál sem eru óaðgengileg öllum.“

Helga segir að frá árinu 1960 hafi þjóðháttasafnið safnað þjóðháttum og frásögnum fólks af daglegu lífi.

„Við sendum reglulega út spurningaskrár og öll svör sem okkur hafa borist í sextíu ár eru aðgengileg á sarpur.is. Upphaflega var mikið spurt um gamla sveitasamfélagið, um verklag og fleira sem er horfið, en þegar leið á fór safnið að spyrja meira um daglegt líf hverju sinni, því það er sagnfræði framtíðar. Þar má nefna Eurovision-hefðir og sundhefðir. Stærsta skráin okkar frá samtímanum er covid-skráin sem fór út árið 2020, en við fengum um sjö hundruð svör sem eru dýrmæt heimild.“