[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Markaðsverðmæti skráðra fyrirtækja lækkaði um rúma 111 milljarða króna á Aðallista Kauphallarinnar á fyrsta fjórðungi þessa árs. Segja má að stór hluti þeirrar hækkunar sem átti sér stað á síðustu sex vikum síðasta árs, eftir að tilkynnt var um…

Markaðsverðmæti skráðra fyrirtækja lækkaði um rúma 111 milljarða króna á Aðallista Kauphallarinnar á fyrsta fjórðungi þessa árs. Segja má að stór hluti þeirrar hækkunar sem átti sér stað á síðustu sex vikum síðasta árs, eftir að tilkynnt var um fyrirhugaða yfirtöku á Marel, hafi gengið til baka á fyrsta fjórðungi þessa árs.

Eins og sjá má á töflunni hér til hliðar eru það helst fimm félög sem bera meginþungann af lækkandi markaðsvirði; Kvika, Eimskip, Síldarvinnslan, Íslandsbanki og Arion – en markaðsvirði þessara félaga lækkaði um tæpa 100 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi. Þá hefur markaðsvirði Brims lækkað um tæpa 13 milljarða króna og virði Icelandair um rúma 11 milljarða frá áramótum. Það sem af er ári hefur markaðsvirði bankanna þriggja sem skráðir eru á markað lækkað um rúma 56 milljarða króna, og sjávarútvegsfyrirtækjanna þriggja lækkað um rúma 36 milljarða króna.

Ölgerðin x2

Gengi bréfa í Ölgerðinni hefur hækkað mest það sem af er ári, eða um 16,1%. Félagið fylgir þannig eftir rúmlega 46% hækkun í fyrra en frá því að félagið var skráð á markað sumarið 2022 hefur gengi bréfa hækkað um 99%, og þannig nær tvöfaldast.

Þegar horft er til gengis bréfa koma fyrirtækin sem allra augu eru á þessa dagana, Alvotech og Amaroq Minerals. Gengi bréfa í Amaroq hefur hækkað um 12,5% á árinu og markaðsvirði félagsins hefur aukist um tæpa fimm milljarða (en 12,5 ma.kr. ef tekið er tillit til hlutafjáraukningar á árinu). Markaðsvirði félagsins er í dag um 44 milljarðar króna. Amaroq hækkaði um 53% í fyrra, en mesta hækkunin kom til eftir að félagið flutti sig af First North-markaðinum yfir á Aðalmarkað.

Frá því að Amaroq var skráð á First North-markaðinn undir lok árs 2022 hefur gengi bréfa í félaginu hækkað um 112%.

Enn beðið eftir Alvotech

Alvotech er annað félag sem hefur verið áberandi í þessum gleðskap en gengi bréfa í félaginu hefur hækkað um 10,4% á árinu. Gengið náði hámarki undir lok febrúar sl. – rétt eftir að Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) veitti langþráð leyf til sölu og markaðssetningar í Bandaríkjunum á Simlandi, líftæknilyfjahliðstæðu við frumlyfið Humira, sem notað er við gigt og bólgusjúkdómum – en hefur síðan þá lækkað um 34%.

Það eru nokkrir þættir sem skýra þá lækkun að mati viðmælenda ViðskiptaMoggans af markaði. Í fyrsta lagi hefur félagið, þrátt fyrir að hafa gefið út bjartsýnar tekjuáætlanir, ekki enn tilkynnt um neina fasta sölusamninga við bandarísk stórfyrirtæki eða keðjur en nokkur eftirvænting hefur verið eftir slíkri tilkynningu á markaði. Í öðru lagi má segja með einföldum hætti að íslenskir fjárfestar hafi svo gott sem tæmt sig með fjárfestingu í félaginu til þessa og eftir atvikum í hlutafjáraukningum. Með öðrum orðum eru fáir á kaupendahliðinni um þessar mundir. Að öllum líkindum eru fleiri sem bíða eftir því að selja hluta af eignum sínum í félaginu, í heild eða að hluta til, og innleysa þannig hagnað. Þó ber að hafa í huga að enn eru lífeyrissjóðir sem ekki hafa fjárfest í Alvotech og þess má vænta að fleiri erlendir aðilar sýni því áhuga að fjárfesta í félaginu þegar útlit er fyrir að tekjuáætlanir félagsins gangi eftir.

Alvotech er eftir sem áður langstærsta félagið í Kauphöllinni þegar horft er til markaðsvirðis, en það er í dag um 507 milljarðar króna. Rétt er að taka fram að hlutafé félagsins var aukið um 23 milljarða í febrúar sl.

Eimskip og Icelandair í brekku

Icelandair og Eimskip eiga aftur á móti erfiða byrjun á markaði á árinu. Gengi bréfa í Eimskip hefur lækkað um 25% og Icelandair um 20%. Gengi bréfa í Eimskip hefur ekki verið lægra í tæp þrjú ár. Viðmælendur ViðskiptaMoggans skrifa lækkun félaganna tveggja helst á áhugaleysi á markaði, þar sem lítil virkni hefur verið á undanförnum mánuðum og margir halda að sér höndum. Sem dæmi má nefna að velta með hlutabréf dróst saman um 35% á milli mánaða í mars og hefur nú dregist saman um 7% á milli ára. Þá urðu uppgjör félaganna fyrir síðasta ár ekki til þess fallin að fá hjörtu fjárfesta til að slá hraðar en vonir eru þó bundnar við að bæði félögin rétti úr kútnum á þessu ári.