Meistarar Emma Hrönn Hákonardóttir fyrirliði Hamars/Þórs hampar bikarnum ofsakát í Laugardalshöllinni.
Meistarar Emma Hrönn Hákonardóttir fyrirliði Hamars/Þórs hampar bikarnum ofsakát í Laugardalshöllinni. — Ljósmynd/Guðmundur Karl
Sameiginlegt lið Hamars úr Hveragerði og Þórs úr Þorlákshöfn leikur í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik á næsta tímabili. Hamar/Þór tryggði sér sigur í 1. deild kvenna í gríðarlega spennandi lokaumferð í gærkvöld þar sem þrjú lið voru jöfn og slógust um úrvalsdeildarsætið fram á síðustu sekúndur

Körfuboltinn

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Sameiginlegt lið Hamars úr Hveragerði og Þórs úr Þorlákshöfn leikur í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik á næsta tímabili.

Hamar/Þór tryggði sér sigur í 1. deild kvenna í gríðarlega spennandi lokaumferð í gærkvöld þar sem þrjú lið voru jöfn og slógust um úrvalsdeildarsætið fram á síðustu sekúndur.

Aþena og KR, tvö liðanna sem voru jöfn, mættust í Austurbergi en þar gat KR tryggt sér úrvalsdeildarsætið með sigri og Aþena gat farið upp með sigri ef Hamar/Þór tapaði sínum leik.

Aþena þurfti að bíða

Aþena vann leikinn með góðum endaspretti, 61:57, og þurfti síðan að bíða eftir að hinum leiknum lyki.

Hamar/Þór sótti Ármann heim í Laugardalshöllina en fyrir lá að Ármenningar myndu enda í fimmta sæti og gætu ekki komist í umspil. Samt var um jafna og spennandi viðureign að ræða fram á lokamínútur.

Þá sigldu Sunnlendingar fram úr og tryggðu sér sigur, 82:72, og þar með sæti í úrvalsdeildinni.

Aniya Thomas skoraði 24 stig fyrir Hamar/Þór í leiknum og fyrirliðinn Emma Hrönn Hákonardóttir 20 og þá tók Kristrún Ríkey Ólafsdóttir 17 fráköst fyrir liðið.

Í Austurbergi skoraði Sianni Martin 21 stig fyrir Aþenu og Asa Wolfram 17 en Perla Jóhannsdóttir skoraði 15 stig fyrir KR-inga.

Aðeins tvö stig skildu að fjögur efstu lið deildarinnar því Hamar/Þór og Aþena fengu 32 stig hvort en KR og Tindastóll fengu 30 stig.

Nú tekur við umspil um eitt sæti í úrvalsdeildinni en í undanúrslitum þar leikur Snæfell, næstneðsta lið úrvalsdeildar, við Tindastól og Aþena mætir KR. Sigurliðin mætast síðan í einvígi um úrvalsdeildarsætið en þetta umspil hefst á sunnudaginn kemur.

Höf.: Víðir Sigurðsson