HS Orka er eina íslenska orkufyrirtækið sem er ekki í eigu opinberra aðila og liggur því vel við höggi á vettvangi stjórnmálaumræðu.
HS Orka er eina íslenska orkufyrirtækið sem er ekki í eigu opinberra aðila og liggur því vel við höggi á vettvangi stjórnmálaumræðu. — Morgunblaðið/Ómar
Innherji hefur áður fjallað um ummæli og orðræðu stjórnmálamanna um HS Orku eftir að reistir voru varnargarðar í kringum orkuver fyrirtækisins á Reykjanesi. HS Orka er sem kunnugt er eina íslenska orkufyrirtækið sem er ekki í eigu opinberra aðila og …

Innherji hefur áður fjallað um ummæli og orðræðu stjórnmálamanna um HS Orku eftir að reistir voru varnargarðar í kringum orkuver fyrirtækisins á Reykjanesi. HS Orka er sem kunnugt er eina íslenska orkufyrirtækið sem er ekki í eigu opinberra aðila og liggur því vel við höggi á vettvangi stjórnmálaumræðu. Orðræðan hefur helst snúið að því hvort rétt sé að verja slík fyrirtæki fyrir náttúruöflum og að óheppilegt sé að svo mikilvægt innviðafyrirtæki sé í eigu einkaaðila. Þá hafa tilteknir stjórnmálamenn velt því upp að mögulega væru arðgreiðslur fyrirtækinu ofar í huga en að tryggja örugga innviði. Þau ummæli, sem í raun fela í sér dylgjur, hafa ekki verið byggð á neinum gögnum heldur bara tilfinningu eða skoðun.

Það er auðvelt að kasta fram einhverri fullyrðingu, til dæmis þeirri að fyrirtæki hugsi meira um arðgreiðslur heldur en örugga innviði, og vona svo bara að allir taki undir. Reikningar orkufyrirtækjanna gefa aftur á móti aðra mynd af rekstri þeirra en þá sem stjórnmálamenn hafa reynt að teikna upp. Viðskiptablaðið fjallaði í síðustu viku um úttekt Arctica Finance á arðgreiðslum og fjárfestingum HS Orku annars vegar og Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hins vegar. Í ljós kemur að nettó greiðslur til hluthafa HS Orku námu 2,3 milljörðum króna á fimm ára tímabili (frá 2019-23) að teknu tilliti til hlutafjárlækkunar og hluthafalána. Á sama tíma námu arðgreiðslur Landsvirkjunar 60 milljörðum króna og OR um 18 milljörðum króna. Þá nema fjárfestingar HS Orku í orkuframleiðslu tæplega 30 milljörðum króna á tímabilinu, sem er hlutfallslega mun meira en hjá Landsvirkjun og OR.

Það var því í raun engin innistæða fyrir ummælum stjórnmálamanna um að HS Orka legði frekar áherslu á arðgreiðslur heldur en örugga innviði. Þvert á móti benda tölurnar til hins gagnstæða. Væntanlega eru til fjölmörg dæmi þess að stjórnmálamenn segi bara eitthvað um fyrirtækin í landinu og ali á tortryggni í garð atvinnulífsins. Það er svo undir atvinnulífinu komið hvort það þorir, nennir eða getur varið sig – jafnvel gegn hálfsögðum sögum og dylgjum eins og í þessu tilviki.

Fyrrnefnd úttekt Arctica Finance sýnir að fjárfestingar OR námu á sama tímabili um 32 milljörðum króna. Að stærstum hluta eru þær þó í dótturfélögum OR, Ljósleiðaranum og Carbfix, en ekki í aukinni orkuframleiðslu. Rekstur Ljósleiðarans er í járnum og félagið hyggur nú á hlutafjáraukningu (sem fáir hafa áhuga á að taka þátt í) til að leggja úrelt ljósleiðaranet á landsbyggðinni. Enn á eftir að koma í ljós hvort nokkurt vit sé í starfsemi Carbfix en þó liggur fyrir að verkefni félagsins hafa ekkert með kjarnastarfsemi OR að gera heldur er í því tilviki verið að nýta fjármuni opinbers félags í áhættusamt gæluverkefni. Þess utan sjá allir sem skoða bækur OR að það er engin innistæða fyrir þeim arðgreiðslum sem Reykjavíkurborg hefur pínt félagið til að greiða á undanförnum árum. Með hófsamari arðgreiðslum og minni fjárfestingu í áhættusömum gæluverkefnum hefði OR haft burði til að byggja upp öflugri orkuinnviði – sem er það sem viðskiptavinir félagsins nú og í framtíðinni þurfa. En auðvitað skiptir höfuðmáli að orkufyrirtækin séu í opinberri eigu. Vondu kapítalistarnir myndu líklega ekki sóa fjármagni í gæluverkefni eins og Ljósleiðarann eða Carbfix.