Karphúsið Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari heldur marga fundi í Karphúsinu þessa dagana.
Karphúsið Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari heldur marga fundi í Karphúsinu þessa dagana. — Morgunblaðið/Eggert
BSRB og Læknafélag Íslands funduðu með viðsemjendum sínum í húsakynnum ríkissáttasemjara í Karphúsinu í gær en kjarasamningar þeirra runnu út nú um mánaðamótin sem og hjá BHM. 19 aðildarfélög BSRB taka þátt í kjaraviðræðunum og telja félagsmenn um 24 þúsund en 18 þúsund félagsmenn eru í BHM

BSRB og Læknafélag Íslands funduðu með viðsemjendum sínum í húsakynnum ríkissáttasemjara í Karphúsinu í gær en kjarasamningar þeirra runnu út nú um mánaðamótin sem og hjá BHM. 19 aðildarfélög BSRB taka þátt í kjaraviðræðunum og telja félagsmenn um 24 þúsund en 18 þúsund félagsmenn eru í BHM.

„Við funduðum með opinberum starfsmönnum og læknum og munum halda þeim viðræðum áfram í vikunni,“ sagði Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari við Morgunblaðið. Hann segir að aðildarfélög innan BHM tengist sumum þeirra verkefna sem eru í gangi. „Það á svolítið eftir að koma í ljós hvernig BHM vill koma að kjaraviðræðunum.“

„Það sem flækist fyrir okkur og okkar félögum er þessi samningur sem gerður var á almenna markaðnum. Hann þvælist fyrir okkar félögum. Það eru öll búin að skoða hann og við höfum fengið góða kynningu á því hvernig er verið innleiða hann í launatöflu hjá Eflingu og ASÍ-félögunum. Það er ekki búið að taka ákvörðun um það með hvaða hætti félögin ætli sér að ganga til samningaborðs. Þetta er snúið verkefni því okkar launamyndunarkerfi er svo ólíkt almenna markaðnum,“ segir Kolbrún Halldórsdóttir formaður BHM við Morgunblaðið.

Fleiri verkefni bíða sáttasemjara en Ljósmæðrafélag Íslands vísaði kjaradeilu sinni til sáttasemjara í gær. gummih@mbl.is