Björn Bjarnason
Björn Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Bjarnason fjallar um málfrelsi á vef sínum þar sem hann segir frá því að J.K. Rowling rithöfundur, sem meðal annars samdi bækurnar um galdradrenginn Harry Potter, hafi skorað á skosku lögregluna að „handtaka sig í samræmi við ný lög Skoska þjóðarflokksins (SNP) um hatursorðræðu

Björn Bjarnason fjallar um málfrelsi á vef sínum þar sem hann segir frá því að J.K. Rowling rithöfundur, sem meðal annars samdi bækurnar um galdradrenginn Harry Potter, hafi skorað á skosku lögregluna að „handtaka sig í samræmi við ný lög Skoska þjóðarflokksins (SNP) um hatursorðræðu. Hún er sökuð um að brjóta lögin með því að segja margar þjóðkunnar transkonur vera karlmenn.“

Björn segir að skosku lögin um hatursorðræðu hafi tekið gildi 1. apríl sl.: „Rowling segir að þau opni leið fyrir aðgerðarsinna sem vilji þagga niður í þeim sem vari við hættunni af því að svipta konur og stúlkur sérstöku rými fyrir konur, veki athygli á ruglinu í afbrotatölfræði ef ofbeldi og kynferðisbrot karla eru talin afbrot kvenna, bendi á ósanngirnina sem birtist í því að karlar keppi í kvennaíþróttum, veki máls á óréttlætinu sem felist í því að karlar skilgreindir sem konur krefjist kvennastarfa eða viðurkenninga fyrir konur og haldi fast í þá skoðun að líffræðilegt kyn sé óumbreytanlegt.“

Hann segir enn fremur að málið veki „eðlilega miklar umræður í Bretlandi og um heim allan. Þykir talsmönnum málfrelsis mikils virði að heimsfrægi höfundurinn J.K. Rowling taki þennan slag.“

Málfrelsi er grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi. Án málfrelsis er tæpast hægt að tala um frjálst samfélag og af þeim sökum er nauðsynlegt að verja rétt fólks til að tjá skoðanir sínar.