Mark Símon Michael Guðjónsson skorar eitt af fimm mörkum sínum fyrir deildarmeistara FH gegn Gróttu á Seltjarnarnesi.
Mark Símon Michael Guðjónsson skorar eitt af fimm mörkum sínum fyrir deildarmeistara FH gegn Gróttu á Seltjarnarnesi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FH er deildarmeistari karla í handknattleik og Víkingur og Selfoss eru fallin niður í 1. deild. Þetta eru lykilniðurstöðurnar úr 21. umferð úrvalsdeildarinnar sem leikin var í heilu lagi í gærkvöld. FH gat orðið meistari með sigri á Gróttu á Seltjarnarnesi ef Valur myndi ekki vinna KA á Akureyri

Handboltinn

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

FH er deildarmeistari karla í handknattleik og Víkingur og Selfoss eru fallin niður í 1. deild.

Þetta eru lykilniðurstöðurnar úr 21. umferð úrvalsdeildarinnar sem leikin var í heilu lagi í gærkvöld.

FH gat orðið meistari með sigri á Gróttu á Seltjarnarnesi ef Valur myndi ekki vinna KA á Akureyri. FH-ingar unnu öruggan sigur, 29:22, en Valsmenn töpuðu óvænt fyrir KA, 34:29.

HK í örugga höfn

HK-ingar tryggðu sér áframhaldandi sæti í deildinni með óvæntum en sannfærandi sigri gegn Stjörnunni í Garðabæ, 34:28. Þar með sendu þeir Víkinga niður í 1. deild ásamt Selfyssingum. Víkingar urðu að vinna Aftureldingu í Mosfellsbæ til að eiga möguleika en töpuðu þar, 27:25.

Selfyssingar urðu að vinna Hauka og vonast eftir tapi hjá HK en hvorugt gekk eftir. Haukar unnu mjög öruggan sigur, 33:24, og Selfoss var þar með fallinn.

ÍBV er í baráttu við Hauka um fjórða sætið og vann Framara örugglega í Eyjum, 34:25.

Afturelding getur nú náð öðru sætinu af Val en eitt stig skilur liðin að og þau mætast á Hlíðarenda í lokaumferðinni.

FH mun mæta annaðhvort Stjörnunni eða KA í átta liða úrslitum

Liðið í öðru sæti, Valur eða Afturelding, mætir líka annaðhvort Stjörnunni eða KA.

Liðið í þriðja sæti, Valur eða Afturelding, mætir Fram sem endar í sjötta sæti.

ÍBV og Haukar mætast

ÍBV og Haukar munu mætast í átta liða úrslitum en útkljá heimaleikjaréttinn í lokaumferðinni. Þar nægir ÍBV jafntefli við HK í Kópavogi en tapi Eyjamenn leiknum ná Haukar fjórða sætinu og heimaleikjaréttinum ef þeir sigra Framara í Úlfarsárdal.

Fjögur neðstu liðin hafa ekki að neinu að keppa í lokaumferðinni á föstudagskvöldið en þar skýrist hvort Grótta eða HK endar í níunda sæti.

 Birgir Már Birgisson, Jóhannes Berg Andrason og Símon Michael Guðjónsson skoruðu 5 mörk hver fyrir FH en Jón Ómar Gíslason 4 fyrir Gróttu í leiknum á Seltjarnarnesi.

 Einar Rafn Eiðsson skoraði 7 mörk fyrir KA en Magnús Óli Magnússon 5 fyrir Val í leiknum á Akureyri.

 Júlíus Flosason skoraði 8 mörk fyrir HK í Garðabæ en Daníel Karl Gunnarsson skoraði 6 mörk fyrir Stjörnuna.

 Elmar Erlingsson skoraði 10 mörk fyrir ÍBV og Bjartur Már Guðmundsson 9 fyrir Fram í leiknum í Vestmannaeyjum.

 Birgir Steinn Jónsson skoraði 8 mörk fyrir Aftureldingu og Halldór Ingi Jónasson 9 fyrir Víking í leiknum í Mosfellsbæ.

 Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði 8 mörk fyrir Hauka og Hans Jörgen Ólafsson 6 fyrir Selfoss í leiknum á Ásvöllum.