Að morgni páskadags sönglaði þessi vísa séra Þorleifs Jónssonar á Skinnastað í höfðinu á mér og vildi ekki þagna: Sólin gyllir haf og hauður heldur svona myndarlega. Ekki er Drottinn alveg dauður, ekkert ferst honum kindarlega

Að morgni páskadags sönglaði þessi vísa séra Þorleifs Jónssonar á Skinnastað í höfðinu á mér og vildi ekki þagna:

Sólin gyllir haf og hauður

heldur svona myndarlega.

Ekki er Drottinn alveg dauður,

ekkert ferst honum kindarlega.

Páskadagur eftir Þorgeir Magnússon á Boðnarmiði:

Lést á krossi, lá í gröf,

lifir samt og boðar frið.

Dáir lífið, drottins gjöf,

dauðann ekki hræðist við.

Halldór Halldórsson skrifar: Ég veit að kristin trú segir að aðeins einn hafi risið upp frá dauðum; okkur öllum hinum til heilla! Á páskum er mér nú samt hugsað til nokkurra látinna vina og vandamanna, sem ég vildi gjarnan hitta yfir kaffibolla!

Þegar vinur frá mér fer

á Fróni hrauns og ísa;

einatt maður óskar sér,

að aftur mætti rísa!

Gunnar J. Straumland óskar öllum lýð gleðilegra páska:

Einhvers staðar er nú log-

andi sól að rísa.

Hér er komin hógvær og

heimspekileg vísa.

Helgi R Einarsson sendi mér póst á annan í páskum og bað mig njóta sólarinnar: Sæll, Halldór! Alltaf bætast forsetaframbjóðendur í pottinn:

Metnaður?

Ýmislegt ég ekki skil

og mér finnst ei „meika“ sans

hve margir nú sér treysta til

að tækla skyldur forsetans.

Steindór Tómasson yrkir á Boðnarmjöð:

Freista lendur forsetans,

framboðs glýjan margan fipar.

Sextíu í djöfla dans

dæsir sá er þetta hripar.

Eru góð með geislabaug,

gaspra meir en tala.

Eins og hanarnir á haug,

hæst þau um sig gala

Ingólfur Ómar Ármannsson yrkir Við Gróttu:

Ýfir kári ægissvið

ógnar þrár sig grettir.

Kvikleg báran klappir við

hvítum tárum skvettir

Fannfergi mikið og fegurðin tær,¶foldin er hvít eins og lín.¶Senn kemur vorið og blíðasti blær¶af blundi þig vekur¶og sólin svo skær skín inn um glugga til þín.¶Margir geta ekki slitið sig frá enska boltanum. Liverpool vann og Bjarni Jónsson kvað:¶Byrjum á þjóri og þambi¶þvoglumælt kyrjum lag¶Slátrum svo líka lambi¶því Liverpool vann í dag.¶Öfugmælavísan:

Blindir dæma best um lit,

bárur í vindi þegja,

í kálfunum er kóngavit,

kýrnar frá mörgu segja