Fallegur og spænskur er miðinn á þessu mjög svo spænska víni sem nú er fáanlegt á Íslandi. Guði sé lof.
Fallegur og spænskur er miðinn á þessu mjög svo spænska víni sem nú er fáanlegt á Íslandi. Guði sé lof.
López de Heredia Viña Tondonia er fyrirtæki sem er samofið sögu hins magnaða vínræktarhéraðs Rioja. Það er eins og lesendur ViðskiptaMoggans þekkja vel rómaðasta vínræktarhérað Spánar og þótt víðar væri leitað

Hið ljúfa líf

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

López de Heredia Viña Tondonia er fyrirtæki sem er samofið sögu hins magnaða vínræktarhéraðs Rioja. Það er eins og lesendur ViðskiptaMoggans þekkja vel rómaðasta vínræktarhérað Spánar og þótt víðar væri leitað. Norður af Madrid og nýtur góðs af norðanvindunum sem blása af Atlantshafinu og inn á meginlandið þar sem steikjandi sumarhitinn töfrar fram ávöxt vínviðarins með sérstæðum hætti. Fyrirtækið eða húsið var stofnað 1877 og er þekkt fyrir gæðavín sem það tekur sér góðan tíma í að búa á markað, raunar svo mjög að ýmsum þykir nóg um. Vínræktarhefðin á svæðinu nær raunar ekki mjög langt aftur, þ.e. ekki sú sem kennd er við hina miklu nákvæmnisíþrótt sem skilar af sér hágæðavínum í fremstu röð. Það var í raun fyrir tilstilli þekkingarmanna sem komu frá Frakklandi um svipað leyti og Tondonia varð til sem þessi menning hóf innreið sína á svæðið. Ástæðan fyrir komu þessara manna til Spánar var einföld. Rótarlúsin alræmda (phylloxera) hafði lagt stóran hluta vínræktarsvæða Frakklands í rúst og því voru menn á höttunum eftir öðrum álitlegum ræktarsvæðum. Það fundu þeir ekki síst í Rioja.

Og nú eru Íslendingar heppnir að til sé maður sem nefnist Hafliði. Ekki sá sem hefði reynst dýr ef hann hefði allur orðið. Heldur sá sem lagt hefur drjúgan skerf til þess að auka framboð á spennandi vínum síðasta aldarfjórðunginn eða svo. Það er auðvitað Hafliði Loftsson, verkfræðingur og eigandi Bers ehf. Hann hefur bætt Vina Tondonia í fjölskrúðugan hóp þeirra guðaveiga sem fyrirtæki hans dregur að ströndum Íslands.

Hann hefur leik með Reserva 2011 og mér sýnist á öllu að þetta góða vín sé meðal annars komið í reynslusölu í Vínbúðunum (kostar þar innan við 7.000 kr.). Ég smakkaði það reyndar á öðrum góðum stað, en nóg um það.

Þarna er á ferðinni frábær árgangur af þessu rauðvíni sem miðlar öllu því besta sem maður vill finna í spænsku víni. Dökkum ávexti, leðri og jafnvel léttsaltaðri hráskinku. Tannínin eru vel áberandi en fíngerð og halda lengi við upplifunina og þegar komið er að eftirbragðinu læðast að tónar kirsuberja og súkkulaðis í bland við fjóluangan.

Það sem gerir vínið spennandi er ekki síst sú staðreynd að þótt það sé tilbúið til neyslu nú (skárra væri það nú eftir 13 ára lífsferil) þá finnur maður skýrt og greinilega að það má geyma lengi enn. Skynsamlegast er að fjárfesta í einum kassa af svona veigum, drekka eina. Geyma tvær og gleyma þremur. Miklu skiptir að finna þær aftur. Þó ekki fyrr en 2030 en drekka þessar vel geymdu í kringum 2025 eða þar um bil. – Svona getur lífið verið skemmtilegt!