Hrollvekjandi Tilda Swinton og John C. Reilly í kvikmynd Lynn Ramsay, We Need to Talk About Kevin, frá 2011.
Hrollvekjandi Tilda Swinton og John C. Reilly í kvikmynd Lynn Ramsay, We Need to Talk About Kevin, frá 2011.
Kvikmynda- og bransahátíðin Stockfish fagnar 10 ára afmæli í ár og af því tilefni verður aðgangur að henni ókeypis. Hátíðin fer fram í Bíó Paradís 4.-14. apríl og verður boðið upp á fjölbreytt úrval kvikmynda auk kvikmyndatengdra viðburða

Kvikmynda- og bransahátíðin Stockfish fagnar 10 ára afmæli í ár og af því tilefni verður aðgangur að henni ókeypis. Hátíðin fer fram í Bíó Paradís 4.-14. apríl og verður boðið upp á fjölbreytt úrval kvikmynda auk kvikmyndatengdra viðburða.

Heiðursverðlaun Stockfish verða afhent að vanda og að þessu sinni hljóta þau tvær konur fyrir framúrskarandi framlag til kvikmynda, hin skoska Lynne Ramsay og Laufey Guðjónsdóttir. Ramsay hlýtur verðlaunin fyrir framlag sitt til kvikmyndagerðar á alþjóðavettvangi og Laufey fyrir framlag sitt til íslensks kvikmyndaiðnaðar, að því er fram kemur í tilkynningu.

„Við viljum fylla bíósalina af forvitnu fólki, ungu, miðaldra og gömlu, af öllum kynjum og alls staðar frá. Fólki sem kann að meta góðar, vel sagðar sögur, stórbrotna myndræna söguleysu, rómantík, angist eða bara hversdagslegan harmleik eða gleði,“ er haft eftir Hrönn Kristinsdóttur, listrænum stjórnanda hátíðarinnar, í tilkynningu. Þar segir einnig að mikill metnaður hafi verið lagður í að gera hátíðina sem aðgengilegasta áhorfendum og um leið bjóða upp á fjölbreytta dagskrá fyrir fagfólk í kvikmyndagerð.

Nýsköpun og frumlegheit

Verðlaunamyndir frá ólíkum og mörgum löndum verða sýndar og áhorfendum einnig boðið að taka þátt í opnum umræðum við fólk sem kom að gerð þeirra, málstofum og kynningum. Carolina Salas framkvæmdastjóri hátíðarinnar segir mikils metið það samstarf, nýsköpun og frumlegheit sem Stockfish hafi tekist að skapa.

Dönsk kvikmyndagerð verður í kastljósinu á hátíðinni og fjöldi danskra kvikmynda á dagskrá og opnunarmynd hátíðarinnar, Eternal eftir Ulaa Salim, er dönsk-íslensk framleiðsla.

Sem fyrr sagði er hin skoska Lynne Ramsay heiðursgestur hátíðarinnar en hún er skoskur leikstjóri, handritshöfundur, framleiðandi og kvikmyndatökukona. Segir í tilkynningu að kvikmyndir hennar kafi djúpt í líf barna og ungs fólks og áberandi þemu í þeim m.a. sorg, sektarkennd og dauði. „Lítið er um samtöl eða frásagnir í myndunum en í staðinn er lögð áhersla á sjónræna framsetningu, tónlist og hljóðheim til að skapa söguna,“ segir í tilkynningu um kvikmyndir Ramsay. Þrjár kvikmyndir eftir Ramsay verða sýndar á Stockfish og mun hún taka þátt í opnu spjalli á hátíðinni og svara spurningum gesta.

Evu Maríu Daniels-verðlaunin verða veitt fyrir framúrskarandi kvikmyndagerð á hátíðinni. Þau eru ný af nálinni og veitt kvikmyndagerðarfólki í minningu íslensku kvikmyndagerðarkonunnar Evu Maríu Daniels sem lést í júní í fyrra af völdum krabbameins. Verðlaunin hlýtur frameiðandi eða leikstjóri í stuttmyndakeppninni Sprettfiski sem nær yfir fjóra keppnisflokka; leikið efni, heimildarverk, tilraunaverk og tónlistarmyndbönd.

Markmið keppninnar er að vekja athygli á upprennandi kvikmyndagerðarfólki og hvetja til góðra verka með verðlaunum sem geta lagt grunninn að næsta verkefni, eins og segir í tilkynningu. Kemur þar einnig fram að markmið Stockfish sé að þjóna samfélaginu sem hátíðin spretti úr, efla og auðga kvikmyndamenningu á Íslandi árið um kring og vera íslenskum kvikmyndaiðnaði lyftistöng, bæði á erlendri grundu sem og hér á landi. helgisnaer@mbl.is