Óli Björn Kárason
Óli Björn Kárason
Þótt tekist hafi að byggja upp glæsileg fyrirtæki í sjávarútvegi sem standast risafyrirtækjum snúning eru fyrirtækin lítil á alþjóðlegan mælikvarða.

Óli Björn Kárason

Með kvótakerfinu og framseljanlegum aflaheimildum tókst okkur hægt en örugglega að snúa baki við kerfi sem var fjármagnað með lakari lífskjörum almennings. Kerfi sem var ætlað að halda lífi í óhagkvæmum og ósjálfbærum sjávarútvegi með millifærslum, gengisfellingum og pólitískum afskiptum. Við lögðum niður opinbera verðlagsnefnd fiskverðs og hættum að niðurgreiða olíu á fiskiskip, hentum úreldingarsjóði fiskiskipa sem ætlað var að bæta upp offjárfestingu sem miðstýring og sóknarkerfi leiddu af sér. Veikburða sveitarsjóðir hættu að reka og halda gjaldþrota bæjarútgerðum á lífi. Við hættum að sóa auðlindum hafsins.

Stöðugar gengisfellingar á kostnað launafólks eru, kannski sem betur fer, óljósar minningar okkar sem eldri erum. Það hefur fennt yfir martröðina þegar systurnar Ofstjórn og Óstjórn réðu ríkjum. Öll viljum við gleyma því þegar kaldur veruleiki launafólks var gengisfelling, gengissig, gengisaðlögun og óðaverðbólga. Á sex árum frá 1980 féll krónan um nær 600% gagnvart dollar. Árin 1980, 1981 og 1982 var verðbólga alltaf yfir 50% og árið 1983 hækkaði verðlag um 84% og fór upp fyrir 100% á tímabili. Á fimm árum áttfaldaðist verð á mjólkurlítranum. Á níunda áratug síðustu aldar 18-faldaðist verðlag á Íslandi. Það þótti vart fréttnæmt að gjaldeyrisdeildir bankanna væru lokaðar í marga daga. Að fella niður með bráðabirgðalögum umsamdar verðbætur á laun var hluti af „eðlilegri“ stjórn efnahagsmála með svipuðum hætti og takmörkun lána til vörukaupa og kaupa á vélum og tækjum.

Arðbær sjávarútvegur

Við rífumst ekki lengur um gengisfellingar. Sjávarútvegur er ekki lengur í súrefnisvélum millifærslna, neikvæðra vaxta, niðurgreiðslna og styrkja til að leggja fiskiskipum. Við höfum gert dugnaðarforkum kleift að njóta útsjónarsemi í útgerð og fiskvinnslu. Okkur hefur tekist betur en flestum öðrum þjóðum að byggja upp arðbæran sjávarútveg með fiskveiðistjórnunarkerfi sem stuðlar að hagkvæmri og sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins. Þjóðir sem hafa sjávarútveg í súrefnisvélum skattgreiðenda líta öfundaraugum til Íslands. Sjávarútvegurinn er ein helsta uppspretta tækniframfara og nýsköpunar.

Nú þegar þurfalingurinn hefur komist í álnir er tekist á um hversu þungar byrðar skuli setja á sjávarútveginn. Í huga stjórnmálamanna stórra loforða er sjávarútvegurinn eins og óþrjótandi uppspretta til að fjármagna aukin umsvif ríkisins og stórauknar millifærslur, jafnvel til þeirra sem ekki þurfa á þeim að halda. Slíkir stjórnmálamenn hafa litlar áhyggjur af stöðu sjávarútvegs í harðri alþjóðlegri samkeppni. Sáð er fræjum tortryggni yfir velgengni og alið á ranghugmyndum um stærð íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.

Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar, hélt því fram í ræðu á aðalfundi fyrirtækisins 21. mars síðastliðinn, að umræðan um stærð íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja væri á villugötum: „Staðreyndin er sú að íslenskur sjávarútvegur í heild sinni er agnarsmár í samanburði við þau risavöxnu erlendu sjávarútvegsfyrirtæki sem við erum í samkeppni við á erlendum mörkuðum. Munurinn hefur farið vaxandi. Í því samhengi má nefna að velta Mowi, sem er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Evrópu, var jafnvirði 820 milljarða króna á síðasta ári og nálgast fyrirtækið að vera þrefalt stærra en sjávarútvegurinn á Íslandi eins og hann leggur sig.“

Velta Síldarvinnslunnar var aðeins 6% af veltu Mowi í fyrra. Samherji er enn minni hlutfallslega. Og Þorsteinn Már benti á annað dæmi. Mowi er 400 sinnum stærra en G. Run í Grundarfirði. „Það má því segja að Mowi nái ársveltu G. Run um hádegisbil á hverjum einasta virka degi ársins.“

Ekki leggja steina í götur

Þrátt fyrir að tekist hafi að byggja upp mörg glæsileg fyrirtæki í sjávarútvegi, sem standast risafyrirtækjum snúning á alþjóðlegum mörkuðum, eru fyrirtækin öll lítil á alþjóðlegan mælikvarða, eins og Þorsteinn Már benti réttilega á í aðalfundarræðunni.

Sú spurning hlýtur að vera áleitin hvaða hagsmuni verið er að verja þegar samkeppnisyfirvöld telja nauðsynlegt að rannsaka sérstaklega kaup Síldarvinnslunnar á helmingshlut í sölufyrirtækinu Ice Fresh Seafood af Samherja á síðasta ári. Fjárfestingin hefur engin áhrif á íslenskan markað enda selur sölufyrirtækið allar afurðir á erlendan markað. Er nema von að spurt sé hvort verið sé að gæta hagsmuna kaupenda sjávarafurða í Evrópu eða Asíu? Sölufyrirtækið á viðskipti við nokkrar af stærstu verslunarkeðjum Evrópu sem velta þúsundum milljarða króna á ári. Viðskipti Ice Fresh Seafood við þessar keðjur ná hvergi 0,05% af veltu þeirra.

Auðvitað er fiskveiðistjórnunarkerfið ekki gallalaust. Við eigum að keppa að því að sníða vankantana af eftir bestu getu. En um leið getum við verið stolt af því að hafa komið á fót arðbæru og sjálfbæru fiskveiðistjórnunarkerfi sem er fyrirmynd annarra landa. Á grunni þess höfum við, sem þjóð, náð að hverfa frá gjaldþrotastefnu opinberra afskipta, gengisfellinga og óðaverðbólgu og mótað samfélag velmegunar.

Verkefni stjórnvalda, stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna ættu fremur að miða að því að leita leiða til að styrkja stoðir íslensks sjávarútvegs í harðri alþjóðlegri samkeppni. Lagfæra regluverkið og styðja betur við arðsemi fyrirtækjanna og auka þannig tekjur í sameiginlega sjóði. Og eftirlitsstofnanir eiga að styðja við bakið á fyrirtækjum um leið og þeim er veitt nauðsynlegt aðhald. Ekki leggja steina í götur þeirra í viðleitni til að hámarka útflutningsverðmæti. Með því er ekki aðeins gengið gegn hagsmunum eigenda og starfsmanna fyrirtækjanna heldur alls almennings. Þetta á við um sjávarútveg eins og allar aðrar starfsgreinar.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.