Vindmyllur Tilraunavindmyllur Landsvirkjunar við Búrfell.
Vindmyllur Tilraunavindmyllur Landsvirkjunar við Búrfell. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur samþykkt samhljóða skipulagslýsingu fyrir breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029. Með breytingunni verður mörkuð stefna um áhrifasvæði fyrirhugaðs Búrfellslundar innan Skeiða- og …

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur samþykkt samhljóða skipulagslýsingu fyrir breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029. Með breytingunni verður mörkuð stefna um áhrifasvæði fyrirhugaðs Búrfellslundar innan Skeiða- og Gnúpverjahrepps og sett inn nýtt afþreyingar- og ferðamannasvæði austan við Sultartangastöð og skammt vestan Þjórsár.

Segir í lýsingunni, að sveitarfélagið meti stefnu gildandi aðalskipulags þannig að hún komi ekki í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif innan sveitarfélagsins sem verða vegna framkvæmda eða landnotkunar í nágrannasveitarfélögum. Því sé þörf á breyttri stefnu. Stefna vegna áhrifasvæðis Búfells­lundar verði á þá leið að öll neikvæð umhverfisáhrif, sem kunni að verða vegna fyrirhugaðs Búrfellslundar og geti skert möguleika til landnýtingar innan Skeiða- og Gnúpverjahrepps séu óheimil innan marka sveitarfélagsins. Þetta eigi til dæmis við um skuggavarp frá vindmyllum, ískast vegna ísingar á spöðum, skerðingu á víðernum, sýnileika og ásýnd vindmylla ásamt hljóðvist.

Setja takmarkanir

Haraldur Þór Jónsson, oddviti og sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, segir Búrfellslund hafa verið undirbúinn í 10 ár og skýrt komið fram bæði í mati á umhverfisáhrifum og mati Umhverfisstofnunar, að framkvæmd þessa lundar sé bæði í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Rangárþingi ytra. Samt túlka menn það þannig að mannvirkin sem þarf að reisa séu einungis í Rangárþingi ytra og því þurfi ekki að sækja um leyfi fyrir framkvæmdinni hér. Við erum ósammála því og fórum í fyrra fram á frestun á innleiðingu á skipulaginu,“ segir Haraldur.

Hann segir að ekkert samráð hafi síðan verið haft við Skeiða- og Gnúpverjahrepp og ekki verið sóst eftir því við sveitarfélagið að setja Búrfells­lund inn á skipulag þar. Að mörgu leyti lítum við á þetta eins og virkjun, t.d. Urriðafossvirkjun, þar sem öll mannvirkin eru ekki í Skeiða- og Gnúpverjahreppi en uppistöðulónið fer í hreppinn. Þar af leiðandi þarf að setja virkjunina inn á skipulag hjá okkur. Við teljum að á sama hátt þurfi Landsvirkjun að sækja um að koma vindmyllunum inn á okkar skipulag.

Haraldur segir, að það sé alveg á hreinu að áhrifasvæði vindlundarins sé í báðum sveitarfélögum. Við teljum mikilvægt að fá úr því skorið hvort það megi reisa vindorkugarða á mörkum sveitarfélaga án samþykkis hins sveitarfélagsins. Við teljum raunar, að sá Búrfellslundur, sem var samþykktur í rammaáætlun, sé í báðum sveitarfélögum. Ef hann er það ekki þá er okkur heimilt að skipuleggja hvað sem er í okkar sveitarfélagi og við erum þarna að setja þær takmarkanir gagnvart Búrfellslundi sem þurfa að eiga sér stað við byggingu hans.

Allt í kross

Haraldur segir, að nú sé til afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun skipulagsbreyting í Rangárþingi ytra vegna lundarins. „Og við teljum að það sé erfitt fyrir Skipulagsstofnun að samþykkja þá skipulagsbreytingu þegar við erum að setja takmarkanir á þá framkvæmd sem sannarlega er í báðum sveitarfélögunum. Að sama skapi teljum við, að sá Búrfellslundur, sem heimilaður var í rammaáætlun, sé ekki sami Búrfellslundur lengur af því að það er ekki sótt um hann í skipulagi hjá okkur. Þá er þetta nýr vindorkugarður, þá er hann ekki í nýtingarflokki rammaáætlunar og þá hefur Orkustofnun ekki heimild til að gefa út virkjunarleyfi. Telji Skipulagsstofnun að Rangárþing ytra megi heimila Búrfellslund og Orkustofnun megi gefa út virkjunarleyfi þá verður erfitt fyrir stofnunina að segja við okkur: Þið megið ekki skipuleggja ferðaþjónustusvæði því það er á helgunarsvæði vindmyllanna sem nær yfir sveitarfélagamörkin. Þetta er allt í kross og það er okkar mat að þetta sé fordæmisgefandi varðandi uppbyggingu á vindorku. Að það sé ekki hægt að skipuleggja þetta á sveitarfélagamörkum gegn vilja annars sveitarfélagsins.

Í skipulagslýsingunni, sem sveitarfélagið samþykkti, kemur fram að heimilt verði á afþreyingar- og ferðamannasvæði að vera með skálasvæði, áningarstað, gistingu og veitingar í tengslum við útivist. Gert sé ráð fyrir að starfsemi verði rekin allt árið. Stærð svæðis sé um 2 hektarar.