Öxnadalur Moksturstæki í Öxnadalnum í gærmorgun þegar verið var að opna heiðina eftir páskana.
Öxnadalur Moksturstæki í Öxnadalnum í gærmorgun þegar verið var að opna heiðina eftir páskana. — Morgunblaðið/Sonja Sif Þórólfsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við höfum um margra ára skeið vakið athygli á því að það þurfi að koma hér göng,“ segir Björn Ingimarsson sveitarstjóri Múlaþings um lokun Fjarðarheiðarinnar yfir alla páskana, en mikil snjókoma var um páskana og lokaðist heiðin á…

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Við höfum um margra ára skeið vakið athygli á því að það þurfi að koma hér göng,“ segir Björn Ingimarsson sveitarstjóri Múlaþings um lokun Fjarðarheiðarinnar yfir alla páskana, en mikil snjókoma var um páskana og lokaðist heiðin á laugardaginn og því hvorki hægt að komast til Seyðisfjarðar né frá fyrr en seinnipartinn í gær.

Eins og fram hefur komið var ekki gott ferðaveður sem beið ferðalanga á suðurleið frá Norðurlandi í lok páska og þeir sem hættu sér af stað á annan í páskum voru lungann úr deginum að keyra suður, og löng bílalest var á leiðinni í snjókomu og erfiðu færi. Öxnadalsheiði var ekki opnuð fyrr en í gærmorgun og víða voru fjallvegir lokaðir vegna veðurs, bæði fyrir norðan, austan og eins á Vestfjörðum.

Björn segir stöðuna mjög erfiða fyrir íbúa Seyðisfjarðar. Þá þurfi einnig að hafa í huga að Norræna komi þar til Íslands og að miklir fraktflutningar þurfi að fara þarna í gegn. „Svo þetta er stórmál fyrir Austfirði að hafa tryggar samgöngur milli staða og annarra landshluta,“ segir Björn.

Bíða fundar með ráðherra

Björn segir að heimamenn á Austfjörðum hafi lagt mikla áherslu á að það verði brugðist við þessari þörf á göngum og segir að óskað hafi verið eftir fundi með Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra um málefni Fjarðarheiðarganga. Átti sá fundur að fara fram í dag, en því miður þurfti að aflýsa honum. Býst Björn við að önnur tímasetning verði sett fljótlega.

„Þetta er ekki að gerast í fyrsta skipti, en sýnir berlega hvers vegna við höfum í langan tíma lagt svona mikla áherslu á mikilvægi Fjarðarheiðarganga. Við höfum líka talað um að það sé mikilvægt að síðan verði haldið áfram og að í næsta skrefi yrðu lögð göng frá Seyðisfirði í Mjóafjörð og síðan úr Mjóafirði í Norðfjörð. Þá væri komin almennileg hringtenging um Austurland allt. Það er mjög mikilvægt varðandi þá þjónustu sem íbúar þurfa að sækja,“ segir Björn og nefnir í því sambandi flugvöllinn á Egilsstöðum og sjúkrahúsið á Norðfirði.

„Það hefur verið algjör samhugur hjá fulltrúum sambands sveitarfélaga á Austurlandi um Fjarðarheiðargöng,“ segir Björn og að ítrekað hafi verið ályktað á þeim vettvangi. „Þetta er ekki bara málefni sem snýr að okkur hér í Múlaþingi,“ segir hann. „Við vorum með fund með fulltrúum allra sveitarfélaganna hér fyrir austan, auk fulltrúa samtaka sveitarfélaganna og samgöngunefnd Alþingis í vetur, þar sem við fórum mjög ítarlega yfir þessi mál og það var mikilvægt að það myndi heyrast hvað við erum samstiga í málinu. Það töluðu allir einum rómi.“

Björn segir mikilvægt að vinna geti hafist sem fyrst við göngin, því þetta sé tímafrek framkvæmd og geti tekið allt að sjö árum. „Við gerum engar athugasemdir um gjaldtöku fyrir ferðir um göngin og þótt þetta sé dýr framkvæmd þá held ég að hún muni borga sig fljótt, því rekstur og viðhald á fjallvegum er gríðarlega dýrt, og mikið mál að geta haldið vegunum opnum yfir veturinn.“

Tveggja metra háir snjóveggir

Björgvin Ómar Hrafnkelsson var að sinna snjómokstri á Fjarðarheiði í morgun. „Það var ekki fyrr en um hádegið sem við gátum farið að athafna okkur,“ segir Ómar og segir að snjórinn hafi náð yfir tveggja metra hæð. „Það var minni ofankoma Héraðsmegin, en við gátum opnað einbreiðan veg um þrjúleytið og svo lukum við vinnunni rétt fyrir kvöldmat.“