Ráðuneyti Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir utan við Ráðherrabústaðinn með sumarsól í hádegisstað.
Ráðuneyti Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir utan við Ráðherrabústaðinn með sumarsól í hádegisstað. — Morgunblaðið/Unnur Karen
Ákvörðunar Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um hvort hún hyggist gefa kost á sér í forsetakjöri er nú beðið í ofvæni, enda myndi framboð hennar hafa víðtæk áhrif. Þingmenn í bæði stjórnarliði og stjórnarandstöðu bollaleggja nú hvaða…

Baksvið

Andrés Magnússon

Hermann Nökkvi Gunnarsson

Ákvörðunar Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um hvort hún hyggist gefa kost á sér í forsetakjöri er nú beðið í ofvæni, enda myndi framboð hennar hafa víðtæk áhrif.

Þingmenn í bæði stjórnarliði og stjórnarandstöðu bollaleggja nú hvaða afleiðingar mögulegt forsetaframboð hennar kunni að hafa á landsstjórnina og pólitíska framvindu út kjörtímabilið. Ljóst er að hverfi Katrín úr stjórnarráðinu kallar það á mikla uppstokkun í ríkisstjórn.

Gengið út frá framboði

Meðal þingmanna sem Morgunblaðið ræddi við telja menn að fátt geti komið í veg fyrir forsetaframboð Katrínar úr því sem komið er. Hún hafi ekki mikinn tíma, þing kemur saman á ný 8. apríl, og hún þurfi að segja af eða á fyrir það.

Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður sjálfstæðismanna sagði í samtali við mbl.is í gær að hún teldi meiri líkur en minni á framboði Katrínar, en hún boðaði til þingflokksfundar í dag til þess að ræða stöðuna.

„Þó að ekkert liggi fyrir enn sem komið er finnst mér eðlilegt að við ræðum okkar á milli hvað mögulegt framboð forsætisráðherra gæti haft í för með sér,“ segir Hildur.

Orri Páll Jóhannsson þingflokksformaður Vinstri-grænna var afdráttarlausari í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi og kvaðst vita að Katrín væri að hugsa málið og myndi senn greina frá niðurstöðu sinni.

„Ég veit það líka að Katrín yrði frábær forseti.“

Ráðherrakapall fram undan

Eftir því sem næst verður komist ræddi Katrín í gær við hina oddvita ríkisstjórnarinnar, þá Bjarna Benediktsson, utanríkisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, og Sigurð Inga Jóhannsson, innviðaráðherra og formann Framsóknarflokksins, og þar hefur ríkisstjórnarsamstarfið ugglaust borið á góma.

Víki Katrín verður forsætisráðherrastóllinn laus, en hann var við stjórnarmyndun bundinn persónu hennar, ekki Vinstri-grænum. Við svo búið myndi Bjarni eiga tilkall til hans í nafni þingstyrks, en heimildir Morgunblaðsins herma að Sigurður Ingi muni einnig sækja það fast að embættið komi í sinn hlut.

Fyrir sitt leyti eru Vinstri-grænir sagðir vilja halda þremur ráðherrastólum, svo við blasir að flókinn ráðherrakapall er í uppsiglingu, jafnvel þó svo hann verði lagður í sátt og samlyndi.

Ekkert er hins vegar gefið um það. Jafnvel þótt Bjarni og Sigurður Ingi næðu saman um verkstjórnina þyrfti að ná nýju jafnvægi við ríkisstjórnarborðið og finna til stól fyrir nýjan ráðherra Vinstri-grænna. Þar er ekkert útilokað, ráðuneyti gætu færst milli flokka eða skipan ráðherra eða ráðuneyta breyst.

Svandís snýr aftur

Aðrir hafa áhyggjur af því að ríkisstjórnin lifi einfaldlega ekki brotthvarf Katrínar af, hún hafi haldið stjórninni saman af mikilli lagni, en óvíst sé að öðrum heppnist það.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra greindi í gær frá því að hún snúi aftur úr veikindaleyfi í dag, en hennar bíður vantrauststillaga á þingi. Öðruvísi kynni að horfa við biðji Katrín lausnar og nýtt ráðuneyti sé myndað, þar sem Svandís fengi annað embætti.

Flestir telja einboðið að Svandís verði nýr leiðtogi Vinstri-grænna, hvað sem líður varaformennsku Guðmundar Inga Guðbrandssonar. Margir spyrja hins vegar hvort hún hafi áhuga á því að framlengja ríkisstjórnarsamstarfið; henni og flokki hennar kunni að koma vel að vera í stjórnarandstöðu fram að næstu kosningum, sem fram fara ekki síðar en haustið 2025.