Rappari Kristmundur Axel heldur fyrstu tónleika sína í vikulok.
Rappari Kristmundur Axel heldur fyrstu tónleika sína í vikulok.
Rapparinn Kristmundur Axel Kristmundsson heldur fyrstu tónleika sína nk. föstudagskvöld og var uppselt fyrir nokkru. „Ég var að hugsa um að halda tónleikana í stærri sal en þorði ekki að taka áhættuna, var ekki viss um hvar ég hefði fólk eftir …

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Rapparinn Kristmundur Axel Kristmundsson heldur fyrstu tónleika sína nk. föstudagskvöld og var uppselt fyrir nokkru. „Ég var að hugsa um að halda tónleikana í stærri sal en þorði ekki að taka áhættuna, var ekki viss um hvar ég hefði fólk eftir að hafa verið lengi fjarri sviðsljósinu,“ segir hann. Þegar viðtökurnar hafi farið fram úr björtustu vonum hafi hann hugleitt að vera með aukatónleika en ákveðið að bíða með þá um sinn. „Þakklæti er mér efst í huga og það er glæsilegt að vera með fullt hús.“ Hann bætir við að sama dag, 5. apríl, gefi hann út nýtt lag og þá megi nálgast það á Spotify. „Himinninn er algjört sumarlag.“

Snemma efnilegur

Kristmundur Axel þekkir það að vera í sviðsljósinu. Hann sigraði í Söngvakeppni Grafarvogs 2009 og í kjölfarið tók hann þátt í Söngkeppni Samfés í troðfullri Laugardalshöll. Hann, Júlí Heiðar og Guðni Matthíasson, þá í Borgarholtsskóla, sigruðu í Söngkeppni framhaldsskólanna 2010 og tveimur árum síðar rappaði hann með bandinu Bláum Opal og varð í 2. sæti í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Síðan tók við erfitt tímabil, hann fór út af sporinu en fyrir nokkrum árum sneri hann baki við óreglunni og ruglinu og hefur haldið sig á beinu brautinni síðan.

„Núna fannst mér kominn tími til að halda tónleika,“ segir Kristmundur Axel um komandi viðburð í Iðnó í Reykjavík. Hann segist hafa litið um öxl og þá áttað sig á því að hann hefði aldrei haldið tónleika. „Ég byrjaði snemma að rappa fyrir skvísurnar í Grafarvoginum og byrjaði að troða upp á árshátíðum í skólanum tveimur árum áður en ég sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna.“

Rappið hefur fylgt Kristmundi Axel þrítugum frá barnsaldri. „Ég heyrði snemma í rapparanum Eminem og féll strax fyrir rappinu. Það er líka „kúl“ leið til þess að tjá sig.“ Hann hafi því tekið upp þessa iðju og sé sjálflærður í faginu.

Kristmundur Axel hefur greint frá erfiðri æsku á brotnu heimili. Faðir hans, sem lést 2017, var alkóhólisti og féll þegar sonurinn var í grunnskóla. „Þá samdi ég og skrifaði frægasta lagið mitt, Komdu til baka, aðeins 14 ára gamall og tveimur árum seinna flutti ég lagið í Söngkeppni framhaldsskólanna og sigraði.“

Á unglingsárunum vakti hann athygli sem MC Krizz. „Ég var með stóra drauma en var alltaf með alkóhólisma í bakpokanum og hann minnti rækilega á sig upp úr 2012, átti líf mitt í mörg ár. Það er líka kannski ástæðan fyrir því að ég hef aldrei haldið tónleika. Ég var aldrei með þennan stöðugleika sem ég er með núna. Ruglið var ráðandi, þegar ég var að reyna að finna út úr lífinu.“

Tónlistin á allan hug Kristmundar Axels, en hann hefur verið í íhlaupavinnu á FM 957 að undanförnu. „Tónlistin er vinnan mín og ég einbeiti mér að henni. Eftir tónleikana tekur við stórt sumar og ég sé fram á að hafa mikið að gera og græja í þessu.“