Pétur Valdimarsson fæddist á Eskifirði 22. júlí 1932. Hann lést á dvalarheimilinu Lögmannshlíð 18. mars 2024.

Foreldrar Péturs voru Indriði Valdimar Ásmundsson, f. 29. mars 1901, d. 24. maí 1970, og Eva Pétursdóttir, f. 22. október 1908, d. 21. mars 2009.

Pétur var næstelstur sjö systkina, hin eru: Aðalsteinn, f. 1931, d. 2012, Albert, f. 1934, d. 2021, Auður, f. 1936, d. 2023, Ástdís, f. 1941, d. 2022, Hildur, f. 1944, og Sólveig, f. 1949.

Hinn 10. maí 1954 giftist Pétur Fjólu Gunnarsdóttur, f. 14. maí 1935, d. 14. apríl 2020, frá Reyðarfirði. Foreldrar hennar voru Gunnar Bóasson og Margrét Stefanía Friðriksdóttir.

Pétur og Fjóla eignuðust sjö börn. Þau eru: 1) Pétur Már, f. 4.1. 1955, maki Arndís Bjarnadóttir. Börn: Pétur Bjarni, unnusta hans er Kristrós Erla Baldursdóttir, Eva María, maki hennar Smári D. Hallgrímsson. Börn þeirra Franz Logi og Júlía Logn. 2) Eva, f. 12.4. 1956, maki Mogens Andersen, f. 4.10. 1953, d. 26.5. 2022. Barn Fjóla, unnusti Mads Jensen. 3) Anna Margrét, f. 9.9. 1958, d. 1.2. 2000, maki Páll S. Kristjánsson. Börn: Kristján, barnsmóðir Birna Ingadóttir. Börn þeirra Ása Margrét og Símon. Ása, f. 16.8. 1983, d. 4.5. 1999. 4) Gunnar, f. 8.7. 1960, maki Margrét Ólafsdóttir. Börn: Pétur, maki Hjördís Guðrún Brynjarsdóttir. Börn þeirra Gunnar Atli, Bóas Óli og Andri Fannar. Ólafur, maki Maja Raabye Fuchsel. Börn þeirra Frans Magnus, Viktoria og Hugo Boas. Bóas, maki Camilla Bai. Börn þeirra Siva Viola og Silke Viola. Fjóla, unnusti Rene Tingholm. 5) Valdimar, f. 9.10. 1961, maki Ingibjörg Jóhannesdóttir. Börn: Fanndís Huld, maki Dagbjartur Ketilsson. Börn þeirra Hróar Indriði og Agnes Eva. Ásdís Dröfn, maki Skúli Pálsson. Börn þeirra Alex Örn og Sandra Ósk. Pétur Indriði, unnusta Ragnheiður Katrín Ingadóttir. Börn Særún Elsa og Rakel Hrund. 6) Jón Emil, f. 13.3. 1970, börn Loke og Sif. 7) Heiðdís, f. 3.5. 1972, maki Hreiðar Bjarni Hreiðarsson. Börn: Fanney Sól, maki Austin Scott Long, Hreiðar, unnusta Gerður Björg Vin Harðardóttir, Þórdís Anna, unnusti Andri Már Jóhannesson, Pétur Snær.

Pétur ólst upp á Eskifirði og lauk fullnaðarprófi frá Barnaskóla Eskifjarðar og vélavarðarnámskeiði frá Neskaupstað. Ungur fór hann í sveit og einnig starfaði hann bæði við fiskvinnslu og sjómennsku.

Fyrstu hjúskaparárin bjuggu Pétur og Fjóla á Akureyri. Pétur lauk vélvirkjanámi frá Iðnskólanum á Akureyri 1957 og eftir það fluttu þau til Reykjavíkur. 1960 hóf Pétur tæknifræðinám við Odense Teknikum og hann lauk véltæknifræði þaðan 1963. Að loknu námi í Óðinsvéum tók Pétur við forstjórastöðu í Vélsmiðjunni Odda á Akureyri. Árið 1967 sagði Pétur starfi sínu lausu til að stofna eigið fyrirtæki, Verktækni.

Pétur og Fjóla fluttu aftur til Danmerkur 1994 og dvöldu þar fram til 2000, þegar þau fluttu til Hafnarfjarðar.

Pétur verður jarðsunginn frá Akureyrarkirkju í dag, 3. apríl 2024, klukkan 13.

Takk Pétur! Takk fyrir allt sem þú kenndir mér og gerðir fyrir mig!

Þú varst mín stoð og stytta lengi vel. Þú varst mér góður tengdapabbi en einnig samferðamaður og lærimeistari eftir að ég fór að vinna með þér eftir námslok úr Vélskólanum.

Þín sýn á tækninýjungar var einstök upplifun fyrir ungan mann með stóra drauma og mikil áskorun fyrir mig að vera þátttakandi í uppbyggingu margra þeirra verkefna sem þú tókst þér fyrir hendur.

Það var svo mikið af spennandi verkefnum sem við unnum að, þú hannaðir og ég verkstýrði. Ég nefni sem dæmi fyrsta varmadæluverkefnið fyrir Skagstrending á Skagaströnd og fyrstu vélrænu hausþurrkunina fyrir Þormóð ramma á Siglufirði. Þetta voru mikil ævintýraverkefni.

Það var líka svo gaman að spjalla við þig um heimsmálin alla tíð og alltaf skein réttsýni þín og góðmennska í gegnum samtölin sem voru svo fræðandi.

Árin liðu með alls konar áskorunum og lífið lagði á okkur báða alls konar verkefni, miserfið. Það mótaði mig mikið og kenndi mér margt í viðskiptum að vera í kringum þig, fylgjast með og sitja marga fundina með þér, bæði hér heima og úti í Þýskalandi þegar þú bjóst hjá okkur Önnu í Danmörku. Það var ljúfur tími að hafa þig hjá okkur og geta borgað til baka hluta þeirra greiða sem þú veittir okkur Önnu á sínum tíma og ég mun aldrei gleyma.

Það sýndi vel styrk ykkar hjóna og hvað fjölskylduböndin voru sterk þegar ósköpin dundu yfir okkur og mæðgurnar kvöddu þennan heim. Þið Fjóla fluttuð frá Danmörku til okkar feðga í Einihlíðina og hélduð sérstaklega vel utan um okkur, ekki síst Kristján, fyrsta árið til að komast yfir mesta áfallið. Fyrir það verð ég ævinlega þakklátur!

Pétur minn, þú kveður þennan heim með sóma og gerðir hann betri með þinni nærveru og ég veit að nú ert þú kominn í góðan hóp með Fjólu þinni, Önnu Möggu og Ásu minni.

Elsku fjölskylda. Við Gogga vottum ykkur okkar innilegustu samúð.

Takk aftur!

Páll (Palli).

Pétur var maðurinn hennar Fjólu föðursystur og Fjóla og Pétur eru eitt í okkar huga og minningum. Heimili þeirra á Akureyri stóð okkur alltaf opið og oft þurfti að nýta það um lengri og skemmri tíma. Í þá daga varð fólk veðurteppt og svo þegar einhver þurfti á sjúkrahúsvist að halda var opið hús og faðmur hjá þeim fyrir bæði dvöl og umhyggju. Sum okkar systkinanna minnast þess að Pétur söng þau börnin í svefn, að alltaf mátti leika sér og jafnvel sofa úti í dúkkuhúsi, matartíminn var ekki heilög tímasetning því það var svo margt að spjalla, og maturinn var dásamlegur. Pétur talaði við börn eins og jafningja sína og alla tíð sagði hann „elskan mín“ og „ástin mín“ margoft í samtölum og símtölum. Hann var nefnilega langt á undan sinni samtíð í því að tjá tilfinningar sínar og hlýju í viðurvist annarra.

Síðar á ævinni reyndust þau Pétur og Fjóla pabba einstaklega vel bæði með heimsóknum og boði í Spánarferðir þar sem Pétur vissi upp á hár hvað gladdi pabba og hvað hægt var að gera skemmtilegt innan þeirra marka sem hann treysti sér til.

Pétur og Fjóla fóru ekki án sorgar gegnum lífið, en viðbrögð þeirra við missi og áföllum voru aðdáunarverð; þau voru eitt og saman í því að finna lausnir og styðja sína nánustu og æðruleysi var sannarlega það sem einkenndi þau bæði. Það var okkur systkinunum heiður að Fjóla óskaði eftir því að við Stuðlabörnin og makar syngjum við útför hennar á Reyðarfirði í maí 2020.

Pétur bar sig alltaf vel, glettinn, hlýr og elskulegur í viðmóti og áhugasamur um velferð okkar, en hann var vissulega ekki nema hálfur maður eftir andlát Fjólu. Nú hafa þau sameinast á ný og við þökkum fyrir samfylgd og ástúð alla tíð og biðjum Guð að styrkja börnin þeirra og stórfjölskylduna alla.

Margrét Bóasdóttir og Stuðlasystkinin.