Fjölskyldan Kjartan og Valdís með börnum, tengdabörnum og barnabörnum.
Fjölskyldan Kjartan og Valdís með börnum, tengdabörnum og barnabörnum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kjartan Jónsson er fæddur 3. apríl 1954 í Reykjavík. „Ég ólst upp á Njálsgötunni í Reykjavík við mikið frjálsræði og útileiki, gekk í Ísaksskóla og síðan Æfingaskóla Kennaraskólans. Flutti í Kópavog 14 ára að aldri, gekk í Hagaskóla og lauk stúdentsprófi frá MR 1974

Kjartan Jónsson er fæddur 3. apríl 1954 í Reykjavík. „Ég ólst upp á Njálsgötunni í Reykjavík við mikið frjálsræði og útileiki, gekk í Ísaksskóla og síðan Æfingaskóla Kennaraskólans. Flutti í Kópavog 14 ára að aldri, gekk í Hagaskóla og lauk stúdentsprófi frá MR 1974. Þátttaka í starfi KFUM í æsku, Kristilegum skólasamtökum á unglingsárum og síðar Kristilegu stúdentafélagi mótaði mig og starf sem foringi í Vatnaskógi í fjögur sumur var gott veganesti fyrir prestsþjónustu mína.“

Eftir árs námsdvöl í Ósló lá leiðin í guðfræðideild Háskóla Íslands þar sem Kjartan lauk guðfræðiprófi 1980. „Í janúar árið eftir vígði Sigurbjörn Einarsson biskup mig til prestsþjónustu í Chepareria-prestakalli í Pókot-héraði í NV-Keníu í lúthersku kirkjunni þar. Konan mín var einnig vígð í sömu athöfn til kristniboðsstarfa. Átta dögum síðar vorum við sest á skólabekk í Naíróbí sem námsmenn í svahílí. Það var Kristniboðssambandið sem sendi okkur út og fjármagnaði starf okkar. Við þjónuðum Pókot-mönnum í 11 ár og Dígó-mönnum, sem búa syðst í landinu, í eitt ár. Þarna vorum við í samstarfi við Norðmenn frá stærsta lútherska kristniboðsfélagi í heimi á þeim tíma. Nokkrir aðrir Íslendingar þjónuðu einnig á meðal Pókot-manna.

Þetta var tími mikilla áskorana en mjög gefandi og mótaði okkur til lífstíðar. Til að styrkja mig í starfi fórum við fjölskyldan til Kaliforníu í Bandaríkjunum þegar öðru fjögurra ára tímabili okkar lauk þar sem ég tók meistaragráðu í kristniboðsfræðum frá Fuller Theological Seminary, School of Intercultural Studies. Eftir að við snerum aftur til starfa úti hófst ég handa við að safna efni fyrir doktorsverkefni með styrk frá Rannís. Rannsóknarefnið var líf karlmanna frá vöggu til grafar og lauk ég doktorsprófi frá félagsvísindadeild Háskóla Íslands sumarið 2006, fyrsti doktor í mannfræði til að útskrifast frá deildinni.

Starfið í Pókot var mjög fjölbreytt. Við tókum þátt í að mynda söfnuði, stóðum fyrir margs konar þróunarstarfi, t.d. byggingu skóla, verkefnum til að bæta hag og stöðu kvenna, og mörgu fleira. Frá upphafi lögðum við mikla áherslu á menntun leiðtoga í öllum greinum safnaðarstarfs og reistum fræðslusetur. Síðustu árin var ég prófastur kirkjunnar. Valdís naut sín í kennslu fullorðinna og þjálfun leiðtoga kvennahópa á fræðslusetri kirkjunnar. Við hjónin stóðum alltaf saman í öllum verkefnum.

Nokkur undanfarin ár hef ég farið með hópa á mínar fornu slóðir í Keníu, orðið eftir þegar hóparnir hafa farið heim og kennt á fræðslusetri kirkjunnar. Það hefur verið mjög gefandi. Kirkjan hefur vaxið og dafnað frá því við fórum heim árið 1995 og söfnuðir hennar eru nú orðnir um 400, grunnskólar á ábyrgð kirkjunnar nálgast tvö hundruð og menntaskólar 40, auk kennaraskóla og tveggja munaðarleysingjaheimila.“

Næstu árin eftir heimkomuna starfaði Kjartan hjá Kristniboðssambandinu og síðan sem framkvæmdastjóri KFUM og KFUK í Reykjavík. „Í lok þess tíma varð til hópurinn Salt kristið samfélag sem er hluti af Kristniboðssambandinu og hefur m.a. boðið upp á samkomur og staðið fyrir fjölbreyttu námskeiðahaldi. Það hefur verið gefandi að taka þátt í starfi þess.“

Frá 2006 og til starfsloka þjónaði Kjartan sem prestur í þjóðkirkjunni, lengst af sem sóknarprestur í Tjarnaprestakalli sem í eru tvær kirkjusóknir, Kálfatjarnarsókn og Ástjarnarsókn í Hafnarfirði. „Aðstæður í Ástjarnarsókn minntu mig á fyrstu árin í Afríku þar sem kirkjustarf hófst oftast undir tré. Starfsaðstaðan var í tveimur uppgerðum kennslustofum, kirkjan í annarri en safnaðarheimili og skrifstofur í hinni. Þarna leið okkur vel og nándin var mikil. Boðið var upp á ýmiss konar hefðbundið safnaðarstarf, m.a. starf fyrir eldri borgara, það fyrsta innan þjóðkirkjusafnaðanna í Hafnarfirði, og íslenskunámskeið fyrir útlendinga. Mánaðarlega voru vel sóttar kvöldguðsþjónustur í Haukaheimilinu. Þar reyndum við fyrir okkur með ýmis messuform og tónlistarstefnur og buðum t.d. upp á U2-messur, blúsmessur o.fl. Rokkmessur voru haldnar í Víðistaðakirkju og var góður rómur gerður að þeim.

Þar kom að ráðist var í byggingu safnaðarheimilis sem var hannað sem margnota hús. Biskup Íslands vígði safnaðarsalinn sem kirkju 8. október 2017. Húsið er nútímalegt og hljóðvistin góð. Vegna mikillar fjölgunar í söfnuðinum átti hann rétt á að fá annan prest. Það tókst að lokum og við fengum sr. Arnór Bjarka Blomsterberg til starfa sem gladdi okkur mjög.“

Helstu áhugamál Kjartans eru ferðalög, lestur góðra bóka og samvistir við fjölskyldu og vini. „Það er dásamlegt að vera afi. Þegar ég lít til baka er ég stoltur og Guði þakklátur.“

Fjölskylda

Eiginkona Kjartans er Valdís Magnúsdóttir, f. 28.10. 1949, kennari og kristniboði og kenndi m.a. í Breiðagerðisskóla. Þau gengu í hjónaband 28.8. 1976 og búa í Hafnarfirði. Foreldrar Valdísar voru hjónin Magnús Björnsson, f. 24.6. 1914, d. 9.5. 1990, búfræðingur og starfsmaður Landsímans, og Inger Ester Nikulásdóttir, f. 8.6. 1924, d. 11.8. 1999, húsfreyja.

Börn Kjartans og Valdísar eru 1) Heiðrún Kjartansdóttir, f. 4.7. 1978, BA í sálfræði, diplóma í fjölskyldumeðferð, býr í Reykjavík; 2) Ólöf Inger Kjartansdóttir, f. 10.12. 1980, BA í ensku og með framhaldsnám til kennsluréttinda, framhaldsskólakennari og prestur í Danmörku þar sem hún og fjölskylda hennar búa. Maki: Kristinn Óðinsson, f. 9. 4. 1981, „Executive MBA“ og fjármálastjóri. Börn þeirra eru Gunnar Jakob, f. 2007, Lilja María, f. 2010, og Viktoría Eva, f. 2017; 3) Jón Magnús, f. 13. 9. 1984, fjármálaverkfræðingur í sjóðsstýringarfélaginu Black Rock í Kaliforníu þar sem hann býr ásamt fjölskyldu sinni. Maki: Marisa Maria, f. 31.5. 1986, grafískur hönnuður og samskiptastjóri. Börn þeirra eru Mary Sóley, f. 2020, og Emilía Una, f. 2023.

Systkin Kjartans eru Guðný, f. 31.1. 1957, myndlistarkennari, býr í Kópavogi; Lárus Þór, f. 31.10. 1960, heimilislæknir, býr í Reykjavík; Guðrún Elísabet, f. 14.2. 1962, hjúkrunarfræðingur, býr í Reykjavík; Andrés, f. 10.10. 1964, byggingatæknifræðingur, býr í Kópavogi. Hálfbróðir samfeðra er Gísli, f. 16.3. 1951, smiður, býr í Reykjavík.

Foreldrar Kjartans: Hjónin Guðríður Ólöf Kjartansdóttir, f. 14.8. 1926, sjúkraliði, lengst af búsett í Kópavogi, og Jón Andrésson, f. 26.3. 1931, d. 15.1. 2018, rennismiður í álverinu í Straumsvík.