Reykjanesbær Íbúafjölgun er óvíða meiri en hér. Því fylgja áskoranir.
Reykjanesbær Íbúafjölgun er óvíða meiri en hér. Því fylgja áskoranir. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Innviðir Reykjanesbæjar eru sprungnir. Af því leiðir að fjárfesta þarf í innviðum til að mæta þörf nýrra íbúa úr Grindavík. Að sama skapi setur þessi staða vexti ferðaþjónustunnar vissar skorður. Gunnar Kristinn Ottósson, skipulagsfulltrúi í…

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Innviðir Reykjanesbæjar eru sprungnir. Af því leiðir að fjárfesta þarf í innviðum til að mæta þörf nýrra íbúa úr Grindavík. Að sama skapi setur þessi staða vexti ferðaþjónustunnar vissar skorður.

Gunnar Kristinn Ottósson, skipulagsfulltrúi í Reykjanesbæ, bendir á þetta en tilefnið er umræða um framboð og eftirspurn eftir byggingarlóðum. Ekki sé nóg að finna Grindvíkingum húsaskjól í Reykjanesbæ heldur þurfi að byggja upp innviði samhliða aðflutningi þeirra til sveitarfélagsins.

Fram kom í Morgunblaðinu nýverið að lóðir í fyrsta áfanga Grænubyggðar í Vogum á Vatnsleysuströnd séu að seljast upp. Hafa Grindvíkingar meðal annars sýnt hverfinu áhuga.

Urðu helmingi færri

Gunnar Kristinn segir hafa verið áætlað að 250-300 íbúðir kæmu á markað í Reykjanesbæ í fyrra. Hins vegar hafi aðeins 100-150 íbúðir komið á markað eða um helmingi færri en ráðgert var.

Skýringin sé meðal annars sú að verktakar hafi haldið að sér höndum vegna samdráttar og hás vaxtastigs.

„Rætt er um mikla íbúafjölgun hér suður frá en skýringin er meðal annars aðflutningur barnafólks frá höfuðborgarsvæðinu sem leitar í hagkvæmara húsnæði. Við viljum að þetta sé almennilegt samfélag með allri þjónustu og að það sé pláss fyrir börn í skólunum. Svo gerist það að heilt sveitarfélag leysist upp [vegna jarðhræringanna í Grindavík] með öllum þeim innviðum sem því fylgja. Það er ekki nóg að byggja íbúðir heldur þarf líka að byggja leikskóla og grunnskóla og stækka bókasöfn, íþróttahús og öll hin mannvirkin, sem þessi miklu vaxtarsvæði eru alls ekki í færum að gera. Þetta eru svo miklar fjárfestingar.“

Einfaldlega strand

Þannig að Reykjanesbær er að óbreyttu ekki í stakk búinn til að taka við þó ekki væri nema helmingnum af þessum fjölda úr Grindavík?

„Við erum einfaldlega strand með innviði. Sveitarfélög eru almennt svo bundin á tekjuhliðinni. Að fá svona marga nýja íbúa er einfaldlega mjög framhlaðið verkefni.“

Þarf þá að koma til fjárstuðningur til Reykjanesbæjar til þess að bærinn geti brugðist við þessari óvæntu íbúafjölgun?

„Algjörlega. Þetta er svo krefjandi verkefni. Því er haldið fram að 30% af innflutningstekjum landsins komi í gegnum ferðaþjónustuna. Þetta fer allt í gegnum bæinn okkar. Hér er fólkið sem er að skapa þessi verðmæti. Og ferðaþjónustan vex svo ofboðslega hratt. Það er ekki nóg að fjárfesta í flugbrautum og hliðum. Það þarf að horfa á stærri mynd.“

Eru innviðirnir komnir að þolmörkum eins og er?

„Þeir eru sprungnir.“

Hefur breyst hratt

Hvernig birtist það?

„Það birtist þannig að það er heill grunnskóli í færanlegum kennslustofum hér og þar í bænum og allir skólar yfirsetnir. Það eru biðlistar á leikskólum. Þetta er ástand sem hefur breyst mjög hratt eftir hin miklu vaxtarár í ferðaþjónustunni og mikla hækkun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Gunnar Kristinn að lokum.

Nálgast 24 þúsund

Samkvæmt gagnatorgi Reykjanesbæjar var 23.391 íbúi í bænum í febrúar síðastliðnum en það var 4,5% fjölgun frá fyrra ári.

Hlutfall íbúa með erlent ríkisfang var komið upp í 33,25%.

Hlutfallið var til samanburðar 10,67% í mars 2015.