Potta og gufuböð er m.a. að finna á útisvæði þakíbúða á Orkureitnum.
Potta og gufuböð er m.a. að finna á útisvæði þakíbúða á Orkureitnum. — Tölvumyndir/Safír
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrsti áfangi af fjórum á Orkureitnum svokallaða, A-áfangi, á horni Suðurlandsbrautar og Grensásvegar, fer í sölu á næstu dögum. Um er að ræða 68 íbúðir í sjö hæða húsi við Suðurlandsbraut, vestan við Orkuhúsið

Fyrsti áfangi af fjórum á Orkureitnum svokallaða, A-áfangi, á horni Suðurlandsbrautar og Grensásvegar, fer í sölu á næstu dögum. Um er að ræða 68 íbúðir í sjö hæða húsi við Suðurlandsbraut, vestan við Orkuhúsið. Tíu íbúðir hafa þegar selst í forsölu, þar af öll efsta hæðin, að sögn Hilmars Ágústssonar framkvæmdastjóra byggingarfélagsins Safírs sem er eigandi og umsjónaraðili Orkureitsins. Íbúðirnar 68 verða allar afhentir samtímis næsta haust. Stærð þeirra er á bilinu 38-166 fermetrar.

Verði góður staður

Blaðamaður Morgunblaðsins fékk að skoða tölvuunnar myndir og myndbönd af framkvæmdinni. Hún er vægast sagt vönduð og aðlaðandi, enda er hugað að hverju smáatriði eins og Hilmar fer yfir.

„Það er mikið lagt upp úr því að Orkureiturinn verði góður staður til að búa á. Við leggjum áherslu á að íbúðir séu bjartar með góðum loftgæðum og vönduðum og umhverfisprófuðum byggingarefnum auk þess að lóðin sé falleg og þjónusti íbúana vel. Við byrjum með því að setja þessar fyrstu 68 íbúðir á markað. Síðan verður næsti áfangi líklega settur í sölu í haust. Verklok reitsins í heild verða í enda árs 2027. Við munum þannig bjóða upp á 100-140 nýjar íbúðir á hverju ári til ársins 2027.“

Samtals verða 436 íbúðir byggðar á reitnum. Þeim öllum fylgir aðgangur að stóru tveggja hæða bílastæðahúsi neðanjarðar sem verður að hluta til samnýtt.

„Það er einnig hægt að fá sérmerkt stæði. Þá fylgja séreignarbílskúrar með sumum íbúðum.“

Verð íbúða er frá rúmum 50 milljónum og upp í á annað hundrað m.kr.

„Á Orkureitnum leggjum við áherslu á að byggja hagstæðar en vel útbúnar íbúðir með gott skipulag og með lágmarksumhverfisáhrifum. Deiliskipulagið fyrir A-áfangann bauð upp á litlar tveggja og þriggja herbergja íbúðir fyrir fyrstu kaupendur eða minni fjölskyldur. Þorri íbúðanna í þessum fyrsta áfanga er því frá 57 fm að stærð og upp í rúma 80,“ útskýrir Hilmar.

Hann segir að húsin á Orkureitnum verði fjögur í allt og séu hönnuð til að mæta þörfum mismunandi markhópa. Til samanburðar nefnir Hilmar að næsti áfangi sem kallaður er áfangi D, átta hæða hús á horni Suðurlandsbrautar og Grensásvegar með 134 íbúðum sem koma í sölu í haust, sé hannaður fyrir annan markhóp en áfangi A.

„Í áfanga D eru íbúðir stærri og fyrir fólk með rýmri fjárráð. Baðherbergi eru víðast inn af svefnherbergjum, stofurými eru stór, gólfhiti er í öllum íbúðum og gluggar eru stórir og gólfsíðir. Þá er útsýni mikið frá nær öllum hæðum. Þar verða íbúðir með þaksvölum, pottum og gufuböðum og bílskúrum í bílastæðahúsi.“

Arkitektar Orkureitsins eru Nordic Office of Architecture, ein stærsta og fremsta arkitektastofa á Norðurlöndum, með starfsemi á Íslandi, í Noregi og Danmörku.

Allar með loftræstikerfi

Sjálfbærni er grunnstef í hönnuninni að sögn Hilmars.

„Allar íbúðirnar eru vel búnar og hafa sitt eigið loftræstikerfi sem bætir mikið loftgæði íbúða. Ég er ekki viss um að kaupendur geri sér grein fyrir mikilvægi góðrar loftræstingar almennt þegar þeir kaupa sér nýja íbúð. Með kerfinu minnkar lekahætta og öll hætta á myglu er svo gott sem úr sögunni. Svo endurnýtum við hitann að 80% sem sparar orku. Orkunotkun er því 50% minni en ella.“

Til viðbótar við aðalhönnuði verkefnisins fékk Safír til liðs við sig innanhússarkitektinn Rut Káradóttur til að skapa sígilt en um leið hlýlegt yfirbragð.

„Það er dásamlega skemmtilegt að vinna með henni. Hún er einn af okkar fremstu innanhússhönnuðum og hefur reynst ómetanleg við að gera þetta að fallegu verkefni,“ útskýrir Hilmar og bætir við að ekkert sé til sparað í búnaði og frágangi. „Eldhústæki fylgja öllum íbúðum. Þau eru innbyggð til að allt líti vel út. Það eru engir hagnandi háfar heldur mun helluborðið draga gufuna niður. Það er hluti af þeim flottu lausnum sem við bjóðum upp á. Í hluta íbúðanna eru Siemens-tæki en í þakíbúðum er Miele-búnaður.“

Hilmar segir að þeir sem bregðast fljótt við og kaupa íbúð snemma geti sjálfir valið úr mismunandi samsetningum af innréttingaefni sem Rut hefur valið.

BREEAM- og Svansvottað

Annars vegar er skipulag Orkureitar BREEAM-vottað í heild sinni og hins vegar vottað með Svaninum, norræna umhverfismerkinu.

Hilmar segir, spurður um ástæður þess að farið var út í BREEAM- og Svansvottanir, að hann telji að það sé framtíðin á íbúðamarkaði.

„Við höldum að fólk muni með tímanum kunna betur og betur að meta það og skilja þau auknu lífsgæði sem felast í því að búa í slíku húsnæði. Við erum að skapa umgjörð fyrir notalegt og heilsusamlegt mannlíf fyrir fólkið sem kýs að búa á Orkureitnum.“

Hann segir að vottanir kalli á aukinn kostnað og vinnu en íbúðirnar verði mun betri fyrir vikið.

„Þetta er í raun prinsippákvörðun. Í Skandinavíu eru vottaðar íbúðir dýrari en aðrar og kaupendur geta þar að mér skilst fengið hagstæðari íbúðafjármögnun hjá bönkum. Spurningin var hvort við ætluðum að vera framsækið byggingarfélag eða ekki. Þetta tengist þeirri grunnhugsun.“

BREEAM er, eins og Hilmar útskýrir, alþjóðlega viðurkenndur, breskur vistvottunarstaðall þar sem þriðji aðili vottar skipulag með tilliti til umhverfislegra, félagslegra og efnahagslegra gæða. Svansvottunin tengist meira vali á umhverfisvottuðum byggingarefnum inni í íbúðunum, sérstökum orkuútreikningum sem þarf að standast svo og rakaprófunum og ýmsum öðrum gæðaeftirlitsþáttum.

Á jarðhæðum húsanna er 1.600 fm atvinnuhúsnæði, sem fasteignafyrirtækið Reitir hefur fest kaup á. Þar verður lögð áhersla á þjónustu við íbúa, eins og hárgreiðslustofur, veitingahús og kaffihús. Þá nýtur fólk nálægðar við Laugardalinn og Skeifuna.

Ekki augljóst að fara af stað

Spurður um helstu áskoranir frá því að verkefnið fór í gang segir Hilmar að faraldurinn og stríðsátök erlendis hafi vissulega sett strik í reikninginn og það hafi ekki endilega verið augljóst að fara af stað með uppbyggingu Orkureitsins.

Spurður nánar um fjármögnun verkefnisins á þessum krefjandi tímum segir Hilmar að framleiðslukostnaður og vextir hafi hækkað gríðarlega.

„Verkefnið bindur mikið fjármagn og vaxtakjör eru mjög óhagstæð á markaði. Miðað við eðlilegt árferði er vaxtakostnaður kannski orðinn tæplega þrefaldur. Við skulum vona að nýir samningar á vinnumarkaði og ábyrg ríkisfjármál leggi grunninn að lækkandi vöxtum og við náum aftur jafnvægi og stöðugleika í efnahagskerfinu,“ segir Hilmar að lokum.