Það getur varla talist líklegt að laun undir lágmarkstaxta VR gefi rétta sýn á framtíðartekjur ungs námsmanns sem lendir í slæmu slysi.

Lögfræði

Arnar Vilhjálmur Arnarsson

Lögmaður og eigandi Bótamál.is.

Eitt meginmarkið skaðabótalaga er að tryggja að þeir sem verða fyrir líkamstjóni fái fullar bætur greiddar fyrir tjón sitt úr hendi þess sem ábyrgð ber á því. Erfitt er að færa líkamstjón í krónutölur enda eru aðstæður manna mismunandi. Því hefur löggjafinn fest í lög sérstakar reglur um það til að reyna að skapa heildstæðan og gegnsæjan ramma; skaðabótalög. Síðasta heildstæða endurskoðun skaðabótalaga átti sér stað fyrir rúmlega 30 árum en á þeim tíma þótti orðið nauðsynlegt að endurbæta reglurnar og færa til nútímahorfs. Frá þeim tíma hafa nokkrar breytingar orðið á einstaka ákvæðum laganna en önnur standa óbreytt. Færa má fyrir því rök að sum ákvæði laganna séu til ára sinna komin og eitt dæmi þess eru reglur um hámarks- og lágmarksárslaunaviðmið.

Þær reglur taka til ákvörðunar bóta fyrir varanlega örorku, þ.e. bætur vegna varanlegs starfsorkumissis, sem alla jafna er einn stærsti bótaþátturinn í líkamstjónamálum. Til að geta reiknað út bætur fyrir varanlega örorku samkvæmt skaðabótalögum þarf að reikna út hvaða laun sé sennilegast að tjónþolinn hefði haft út starfsævina miðað við aðstæður hans þegar slysið varð. Meginreglan er sú að reikna skuli meðaltal árslauna viðkomandi þrjú ár fyrir slysadag og uppreikna það meðaltal síðan með launavísitölu. Launavísitala er vísitala sem sýnir almenna launaþróun á vinnumarkaði og með þeim útreikningi er þannig hægt að færa til núvirðis laun manna út frá því hvernig laun á vinnumarkaði hafa þróast á sama tímabili. Löggjafinn ákvað hins vegar að nauðsynlegt væri að setja þessu árslaunaviðmiði ákveðinn ramma með hámarks- og lágmarksárslaunum. Við gildistöku skaðabótalaganna þann 1. júlí 1993 voru lágmarkslaun 1.200.000 kr. á ári og hámarkslaun 4.500.000 kr. á ári. Þannig skal miða við lágmarkslaun laganna í stað uppreiknaðra launa í tilviki þeirra sem reynast undir þeim lágmarkslaunum, sem á til dæmis oft við um þá sem hafa verið stopult á vinnumarkaði vegna náms eða fæðingarorlofs. Eins skal miða við hámarkslaun laganna í stað uppreiknaðra launa í tilviki þeirra sem hafa tekjur yfir settum hámarkslaunum.

Hængurinn er sá að ólíkt því sem á við um uppreikning launa í öðrum tilvikum, þá taka hámarks- og lágmarksárslaunin ekki breytingum í takt við launavísitölu heldur lánskjaravísitölu. Því hafa hámarks- og lágmarkslaunin ekki þróast í takt við launaþróun á íslenskum vinnumarkaði líkt og ætla mætti. En hvaða þýðingu hefur þetta í raun? Á þessu árabili, þ.e. frá því að lögin tóku gildi árið 1993 og til febrúar 2024, hefur lánskjaravísitalan hækkað um rúmlega 265%. Á sama tímabili hefur launavísitala hækkað um rúmlega 640%. Þetta þýðir að lágmarksárslaun í dag samkvæmt skaðabótalögum eru 4.390.000 kr. eða 365.800 kr. á mánuði og hámarksárslaun um 16.470.000 kr. eða 1.372.500 kr. á mánuði. Lágmarkslaunin eru þannig til dæmis talsvert undir lágmarkslaunum VR. Hámarkslaunin eru síðan að sama skapi talsvert lægri en tekjur margra tekjuhærri einstaklinga í samfélaginu. Hefðu hámarks- og lágmarksárslaunin verið bundin við launavísitölu í stað lánskjaravísitölu væru lágmarksárslaun samkvæmt skaðabótalögum m.v. febrúar 2024 um 8.890.000 kr. eða 740.800 kr. á mánuði og hámarksárslaun um 33.330.000 kr. eða 2.777.500 kr. á mánuði.

Það getur varla talist líklegt að laun undir lágmarkstaxta VR gefi rétta sýn á framtíðartekjur ungs námsmanns sem lendir í slæmu slysi. En er þá sanngjarnt að bætur sem slíkur námsmaður fær vegna slyss miðist við slík laun? Er síðan sanngjarnt að lögregluþjónn eða sjómaður sem vinnur myrkranna á milli og lendir í slæmu slysi þurfi að sætta sig við að bæturnar hans séu reiknaðar miðað við lægri laun en hann var raunverulega að afla sér fyrir slysið? Það finnst mér ekki. Vegna lánskjaravísitölubindingarinnar hefur þróunin frá lagasetningunni orðið tjónþolum sífellt óhagstæðari og nema gripið sé inn í af löggjafanum mun það ekki breytast. Benda má á að fyrir Alþingi liggur frumvarp sem tekur á þessu álitaefni, en það frumvarp er lagt fram í fjórða sinn án þess að hafa áður hlotið afgreiðslu.