Guðni Steinar Gústafsson, löggiltur endurskoðandi, fæddist í Reykjavík 1. mars 1940. Hann lést 13. mars 2024 á Hrafnistu DAS, Laugarási í Reykjavík.

Foreldrar hans voru hjónin Ólafía Sigurðardóttir, f. 4. október 1913, d. 20. september 2001, og Gústaf Adolf Gíslason, f. 20. júlí 1905, d. 23. október 1942. Systkini: Ingólfur, f. 1931, d. 2005, Sigurbjörg, f. 1933, d. 2021, Ólafur, f. 1934, d. 1988, Magnfríður Perla, f. 1936, d. 2016, Kristinn, f. 1939, Arnbjörg Sigríður, f. 1941. Hálfsystkin: Ólafía Guðnadóttir, f. 1944, d. 1996, og Gústav Adolf Guðnason, f. 1947.

Guðni Steinar kvæntist 14. nóvember 1959 Guðrúnu Snæbjörnsdóttur, f. 4. júní 1941. Foreldrar hennar voru Sigríður Jóakimsdóttir, f. 1906, d. 1986, og Snæbjörn Tryggvi Ólafsson skipstjóri, f. 1899, d. 1984. Börn þeirra: 1) Halldór Egill, f. 17.1. 1960, kvæntur Guðrúnu Erlu Sumarliðadóttur, f. 25.3. 1960. Börn: a) Steinunn Björk, f. 1977, gift Guðmundi Njáli Guðmundssyni, f. 1971. Börn: Arnór Egill, f. 2001, Guðni Steinar, f. 2005, og Guðmundur Breki, f. 2009. b) Sumarliði Gunnar, f. 1983. c) Erla Hrund, f. 1990, maki Unnsteinn Garðarsson, f. 1989. Börn: Áróra Björk, f. 2020, og Máni Hrafn, f. 2023. d) Halldór Hrannar, f. 1993. 2) Snæbjörn Tryggvi, f. 13.1. 1961, kvæntur Úlfhildi Elísdóttur, f. 8.2. 1962. Börn: a) Guðrún, f. 1980, móðir: Edith Alvarsdóttir, f. 1961. Maki Stefán S. Jónsson, f. 1975. Börn: Snædís Birna Brynjarsdóttir, f. 2006, og Brynja Karen Brynjarsdóttir, f. 2011. b) Guðni Steinar, f. 1982, móðir: Edith. c) Elísa, f. 1986. Börn: Úlfur Snær, f. 2016, og Elís Krummi, f. 2018. d) Hrafnhildur, f. 1991, maki Ísak Þórhallsson, f. 1991. Börn: Jökull Hrafn, f. 2019, og Þórhildur, f. 2022. e) Stefán Örn, f. 1993. 3) Oddný, f. 21.6. 1965, gift Ragnari Sverrissyni, f. 16.3. 1959. Börn: a) Sigríður Þyrí Pétursdóttir, f. 1983, faðir Pétur Ingason, f. 1964. Gift Baldvini Jóni Hallgrímssyni, f. 1977. Sonur hans er Birkir Örn, f. 2005. Börn: Oddný Ósk, f. 2004, faðir Jón Gústaf Magnússon, f. 1974, og Hrafntinna Baldvinsdóttir, f. 2012. b) Stefanía Ragnheiður, f. 1987. Maki Hlynur Þ. Sigurjónsson, f. 1988. Börn: Berglind Lóa, f. 2021, og óskírður drengur, f. 23.3. 2024. c) Hallgerður, f. 1990. Maki Sævar Eiríksson, f. 1990. Börn: Björt, f. 2019, og Sjöfn, f. 2020. d) Sverrir Arnar, f. 2000.

Guðni Steinar ólst upp í Reykjavík. Þegar hann var tveggja ára fórst faðir hans með togaranum Jóni Ólafssyni, sem var sökkt af þýskum kafbáti á leið til landsins úr söluferð til Bretlands. Við fráfall Gústafs 1942 stóð Ólafía uppi með sjö ung börn, aðeins 27 ára gömul. Guðni var tekinn í fóstur af afasystur sinni, Steinunni Gróu Bjarnadóttur, f. 1893, d. 1961, og eiginmanni hennar, Halldóri Agli Arnórssyni, f. 1889, d. 1951, og ólst upp hjá þeim hjónum í Reykjavík. Guðni gekk í Miðbæjarskólann og síðan í Verzlunarskóla Íslands og brautskráðist þaðan 1959. Á skólaárunum fór hann til sjós á togurum, en þegar skólagöngu lauk hóf hann störf hjá Sölufélagi garðyrkjumanna. Síðan tók sjómennskan við og var hann um tíma á síldveiðiskipum, þar til hann hóf nám í endurskoðun hjá Endurskoðunarstofu Björns Steffensen og Ara H. Thorlacius og lauk prófi með löggildingu árið 1970.

Guðni Steinar fór til frekara náms á endurskoðunarstofu í Bandaríkjunum og öðlaðist þar dýrmæta reynslu og var í samstarfi við Grant Thornton International. Hann opnaði fljótlega endurskoðunarstofu í eigin nafni og rak hana þar til Ólafur Nilsson og Helgi V. Jónsson, löggiltir endurskoðendur, gengu til liðs við hann og saman stofnuðu þeir Endurskoðun hf., árið 1975, sem síðar varð KPMG á Íslandi.

Guðni Steinar var áhugamaður um íþróttir. Hann var Valsari og á unglingsárum átti fótboltinn hug hans allan, en síðar tók laxveiði og snóker við ásamt keilu og golfi sem hann stundaði af kappi ásamt konu sinni.

Guðni var virkur félagi í Oddfellow-reglunni frá 1973 og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum. Hann hlaut 40 ára fornliðamerki og þjónustumerki Oddfellow. Hann var einnig félagi í AKOGES frá árinu 1983 og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum og var kjörinn heiðursfélagi árið 2017.

Útför Guðna Steinars fer fram frá Lindakirkju í dag, 3. apríl 2024, klukkan 13.

Það er með sorg í hjarta en mikilli lotningu, þakklæti og virðingu sem ég kveð þig, elsku pabbi minn, stoð mína og styttu í lífinu.

Ég naut þeirra forréttinda að eiga þig sem föður, traustan vin og félaga, sem tengdapabba konunnar minnar, afa og langafa barna og barnabarna okkar Úllu. Þín er og verður sárt saknað alla tíð. Yndislegar og hlýjar minningar um þig og allt sem þú varst okkur munu ylja í sorg okkar og söknuði.

Takk fyrir allar stundirnar okkar saman, stuðninginn, föðurlegu ráðleggingarnar, endalausa þolinmæði og skilning, húmorinn þinn og skilyrðislausa væntumþykju ykkar mömmu frá því ég man eftir mér. Það segir ansi mikið um þig og mömmu sem foreldra að aldrei hefur borið skugga á í samskiptum okkar og það er óendanlega dýrmætt.

Að missa föður sinn aðeins tveggja ára gamall í miðri seinni heimsstyrjöldinni hefur ekki verið auðvelt. Í kjölfarið er þér og yngri systur þinni komið í fóstur hvoru hjá sinni fjölskyldunni og naust þú ástar og umhyggju fósturforeldra þinna og góðs sambands við móðurfjölskyldu þína. Ég veit að endurnýjað samband þitt við yngri systur þína á fullorðinsárum var ykkur báðum mjög dýrmætt.

Þrátt fyrir mótlæti æsku- og unglingsáranna og missi stjúpföður þíns þegar þú varst aðeins 11 ára tókst þér með ósérhlífni og dugnaði að stunda ýmis störf til sjós og lands og ljúka námi í Verslunarskóla Íslands með glæsibrag. Þar hittir þú líka ástina í lífi þínu, Gullu Snæ, og giftist henni 1959. Við systkinin nutum þeirrar gæfu að alast upp á ástríku og fallegu heimili alla tíð. Ég og systkini mín unnum öll fyrsta vinning í foreldra-lottóinu.

Þú varst ósérhlífinn, samviskusamur, nákvæmur og duglegur í öllu sem þú tók þér fyrir hendur, vannst langa vinnudaga og féll aldrei verk úr hendi. Áttir glæstan starfsferil sem löggiltur endurskoðandi og naust mikillar virðingar fyrir störf þín. Ávallt tilbúinn að aðstoða fjölskyldu og vini þegar eftir því var leitað.

Þú naust þeirrar gæfu að eiga 65 ára gæfuríkt hjónaband með ástinni í lífi þínu, njóta lífsins saman í starfi og leik með fjölskyldu og vinum, m.a. í sælureitnum í Skorradal, sjá börn, afabörn- og langafabörn þín vaxa og dafna, enda mikill fjölskyldumaður alla tíð.

Þau naust góðrar aðhlynningar á Hrafnistu síðasta árið, en þið hjónin voruð líka dugleg að heimsækja Skorradalinn og fara í heimsóknir til barna og barnabarna.

Við áttum dýrmæta stund saman daginn áður en þú kvaddir og ég fékk síðasta símtalið frá þér eftir kvöldmatinn, aðeins örfáum mínútum áður en þú kvaddir. Sagðist hafa átt yndislegan dag með Gullu þína hjá þér ásamt Oddnýju, Halldóri og fleirum, og hringt í mömmu nokkrum mínútum áður og þakkað henni fyrir yndislegan dag saman og sagt að þér liði vel.

Heimsóknin til þín daginn eftir verður víst að bíða betri tíma.

Ég kveð þig með söknuði, elsku pabbi, og þakklæti í hjarta. Takk fyrir að vera pabbi minn og ég mun ávallt sakna þess að horfast í augu við þig og ræða það sem okkur liggur á hjarta og þiggja ráðin þín. Ég mun ávallt geyma þig í hjarta mínu.

Þinn sonur,

Snæbjörn Tr. Guðnason.

Elsku pabbi minn, þessi orð komu fyrst upp í hugann þegar hann kvaddi.

Það er svo margt fallegt og gott sem rifjast upp og svo margt að vera þakklát fyrir.

Að hafa haft pabba og getað rætt við hann um allt milli himins og jarðar. Sama hvert tilefnið var tók hann á móti mér með ást og hlýju og sínu jafnaðargeði.

Það er svo dýrmætt núna að eiga minningarnar um öll samtölin, sögurnar, samverustundirnar, ferðalögin, jólin og áramótin sem við vörðum saman til hins síðasta.

Englar Guðs þér yfir vaki og verndi
pabba minn

vegir okkar skiljast núna, við sjáumst
ekki um sinn.

En minning þín hún lifir í hjörtum hér

því hamingjuna áttum við með þér.

Þökkum kærleika og elsku, þökkum
virðingu og trú

þökkum allt sem af þér gafstu, okkar
ástir áttir þú.

Því viðmót þitt svo glaðlegt var og
góðleg var þín lund

og gaman var að koma á þinn fund.

Með englum Guðs nú leikur þú og
lítur okkar til

nú laus úr viðjum þjáninga, að fara
það ég skil.

Og þegar geislar sólar um gluggann
skína inn

þá gleður okkar minning þín, elsku
pabbi minn.

Vertu góðum Guði falinn er hverfur
þú á braut

gleði og gæfa okkur fylgdi með þig
sem förunaut.

Og ferðirnar sem förum við um landið
út og inn

er fjársjóðurinn okkar pabbi minn.

(Denver/Guðrún Sigurbjörnsdóttir)

Oddný Guðnadóttir.

Faðir minn fagur kvatt hefur fold. Fyrirmynd mín frá fyrsta degi. Að ætla sér að þakka samfylgd hans með örfáum orðum er ógjörningur.

Hann kærði sig hvorki um prjál né príl og í drengskap sínum og heiðarleika sönnum fyrirmynd fögur, öllum sem honum unnu.

Ég kveð þig í Guði, faðir kær.

Þó sorgin skeri að hjartans rótum mun þakklætið sigra að lokum og vegferð þín verða mitt lífsins leiðarljós.

Hafðu þökk, fyrir allt og allt.

Guð almáttugur geymi minningu þína og arfleifð alla.

Halldór Egill Guðnason.

Elsku afi.

Þegar ég hugsa til þín sé ég þig fyrir mér að að taka á móti mér með hlýju brosi, opnum faðmi og alltaf tókstu í hendurnar á manni og hélst í þær í smá stund. Ég sé þig líka fyrir mér elda kartöflur í stórum potti af mikilli natni á jólunum eða á sólríkum sumardegi í Brekku, sumarbústaðnum ykkar ömmu. Birkið umlykur húsið, sólin speglast á Skorradalsvatninu og þú ert eitthvað að brasa. Ég man þegar ég fékk að fara með ykkur þegar húsið var flutt á sinn stað, keyra Hvalfjörðinn um nóttina og horfa á húsið lyftast, fyrst yfir pípuhliðið og amma tók andköf og svo á sinn stað í skóginum. Það var mikið ævintýri fyrir mig sem barn að fá að upplifa þennan sólarhring með ykkur.

Ævintýri er einmitt það sem ég hugsa um þegar ég hugsa til þín og þinnar ævi, þar sem seigla og smá heppni hér og þar fleyttu þér áfram. Efst í huga mér er hversu einstakt viðhorf þitt til lífsins var og hvernig þakklæti og lífsgleði einkenndu þig. Alltaf svo stoltur og montinn með hana ömmu. Alltaf gleði og tími þegar maður kom í heimsókn. Ég mun ávallt hugsa til þín og reyna að rækta þetta sama viðhorf. Þrátt fyrir þitt mikla hæglæti má ekki gleyma því að þú varst með keppnisskap og oft var spilað eða teflt fram á nótt í bústaðnum og þér fannst sko alls ekki leiðinlegt að vinna barnabörnin! Einnig man ég eftir snjókasti þar sem ég var virkilega fegin að vera með þér í liði þar sem þú gafst sko ekkert eftir. En þér þótti einmitt innilega gaman að leika og spila við okkur barnabörnin og það skein í gegn.

Þann 13. mars kvaddir þú okkur og tíu dögum seinna, þann 23. mars á slaginu 13.00, fæddi ég nýjasta langafabarnið þitt og þar með eru afkomendur ykkar ömmu 33 talsins. Þú spáðir mikið í tölur og einmitt svona setningar áttir þú til með að segja manni, oftar en einu sinni. Það er erfitt en fallegt að kveðja þig og á sama tíma fagna nýju lífi.

Á áttatíu ára afmælinu þínu var ég veðurteppt úti á landi svo ég skellti í eina vísu handa þér í staðinn sem ég læt fylgja hér að lokum:

Þann fyrsta mars fyrir áttatíu árum,

mætti í heiminn drengur á stríðsárum.

Með dugnaði og seiglu þessi drengur
áfram gekk,

alla leið á Verlzunarskólabekk.

Þar hitti hann elsku ástina sína,

bláeygða, fallega, snjalla og fína.

Með forsetaleyfi þau giftust fljótt,

enda var sambandið alveg sérstaklega
frjótt.

Þann fyrsta mars fyrir áttatíu árum,

mætti í heiminn drengur á stríðsárum.

Sjómennskan var honum í blóð borin,

Öldugangurinn reyndi þó á danssporin.

Tölurnar kölluðu hann í land,

þar var hann nefnilega aldrei strand.

Ársreikningar, afstemming og skattur,

Þarna var hann ansi brattur.

Þann fyrsta mars fyrir áttatíu árum,

mætti í heiminn drengur á stríðsárum.

Hann fæddist með gullhjarta

sem hefur þó eitthvað verið að kvarta.

Þvílík heppni að geta kallað þennan
mann afa,

að þekkja hann er hin ótrúlegasta saga.

Stundum grunar mig reyndar að hann
sannleikann teygi,

og hann hafi í raun fæðst á
hlaupársdegi.

Þín

Stefanía Ragnheiður Ragnarsdóttir.

Elsku Guðni afi.

Það er með miklum söknuði og sorg í hjarta að ég kveð þig nú í hinsta sinn en þótt söknuðurinn sé sár þá er ég líka full þakklætis fyrir allar þær góðu stundir sem við fengum saman og fyrir hve margar minningarnar eru.

Ég man varla eftir þeim jólum, áramótum, afmælum, útskriftum, skautasýningum, fríum eða öðrum stórum stundum í mínu lífi þar sem þú og Gulla amma voruð ekki á staðnum. Einstök góðmennska, hlýja, jafnaðargeð og þakklæti eru orð sem mér þykja lýsa þér vel og sem afi gafstu þína einstöku hlýju og ást og sem barn man ég eftir því að sitja í fangi þínu í Arnartanganum að lesa saman bók og hlusta á ljúfu rólegu röddina þína þar sem þú gafst manni allan heimsins tíma að manni fannst þar sem þú varst aldrei að drífa þig og það var ljóst hve mikið þú kunnir að meta stundirnar og hvað það var sem mestu máli skipti. Ég minnist allra góðu stundanna með þér úti í garði í sólinni í Arnartanganum þar sem þú varst að slá blettinn og að klippa alla runnanna og sýna manni berin eða rabarbarann í garðinum sem við tíndum fyrir sultuna hennar ömmu, þegar við bjuggum til risasnjóhús úti í garði og settum kerti þangað inn, að kveikja saman stjörnuljós á þrettándanum, að leika í snjókasti í Brekku, að leika í skrifstofuherberginu þínu í Arnartanga, að vinna eins og afi og reikna tölur fram og aftur á reiknivélina þína, að spila saman mastermind, lúdó eða trivial uppi í sumarbústað þar sem þið amma kunnuð öll svörin, að fá fallegu jólakjólana sem þú komst með heim frá New York eftir að hafa þrætt alla Manhattan í leit að jólafötum fyrir barnaskarann þinn, að fylgjast með þér passa að hræra svo vel í sósunni og kartöflunum fyrir jólamatinn sem þú lagðir alla alúð í að gera svo vel en það var einmitt svo einkennandi fyrir þig að vanda alltaf allt svo vel. Dugnaður og metnaður einkenndu líka þig og ég vona að þú hafir vitað hve stolt ég var alltaf að eiga þig sem afa minn en þú varst ekki aðeins ein dásamlegasta manneskjan í mínu lífi heldur einnig ein mín helsta fyrirmynd. Ég mun ávallt halda áfram að líta upp til þín og reyna að tileinka mér alla þá góðu kosti sem þú alltaf svo vel sýndir. Ég minnist þín vel sólbrúns og glæsilegs uppi í Brekku á fallegum sumardegi þar sem þú ert nýkominn úr gólfi og byrjaður að grilla og sestur á pallinn þar sem við horfum út á vatnið saman og þú segir mér sögurnar þínar. Ég mun sakna þinnar einstöku hlýju og faðmlaganna en mest hve blítt þú hélst alltaf í höndina á mér og hvernig það var eins og þú vildir aldrei sleppa því þú vissir vel hve dýrmætar stundirnar voru. Ég er svo þakklát fyrir að stelpurnar mínar fengu að kynnast þér og ég mun halda áfram að segja þeim sögurnar um öll þín ævintýri sem gætu sannarlega fyllt heila metsölubók. Ég mun halda áfram að lifa eftir þér og minning þín verður áfram ljós í okkar hjörtum. Takk fyrir allar dýrmætu stundirnar okkar saman og fyrir að hafa verið besti afi í heimi.

Þín afastelpa,

Hallgerður Ragnarsdóttir.

Elsku fallegi Guðnafi minn, þvílíkan mann sem þú hafðir að geyma. Ég tengdi alltaf fjölskylduna okkar við Guðföðurinn sem krakki og þú sast þar á toppnum sem Don Corleone nema heiðarleg, einlæg og góð útgáfa af honum þar sem réttsýnni mann var varla hægt að finna. Þið amma deilduð reyndar skipstjórasætinu enda með eindæmum farsæl tvenna þið tvö, ótrúlegar fyrirmyndir.

Ég man svo vel hvað mér þótti þú mikill töffari þegar ég hitti þig með vinum mínum í keiluhöllinni þar sem þú æfðir. „Æfir afi þinn keilu?“ spurðu þau af aðdáun og undrun. Ég man líka mætavel hvað það var erfitt að hafa þolinmæði þegar þú aðstoðaðir mig við bókfærsluna og allt var unnið á pappír. Nei, við notuðum sko ekki tölvu og allt var unnið frá grunni, tvisvar ef ekki þrisvar í röð til þess að vera viss. Ó, hvað það tók á en ó, hvað það var árangursríkt!

Þeir sem þig þekktu vita hversu frábær, klár, duglegur, heiðarlegur, þrautseigur og góður maður þú varst, orð geta ekki lýst því nægilega vel. Ég er svo stolt af því að hafa kallað þig afa minn og þakklát fyrir að börnin mín hafi fengið að kynnast þér. Áróra Björk spyr reglulega um þig og passar upp á afa stól. Hún sagði við mig um daginn í óspurðum fréttum „Guðni afi er mjög góður“, einfalt og lýsandi.

Elsku afi minn, takk fyrir allar sögurnar þínar, takk fyrir að kenna mér reglurnar í tennis og golfi yfir beinni útsendingu, takk fyrir Trivial-leikina uppi í Brekku, takk fyrir samfylgdina og takk fyrir að vera svona frábær fyrirmynd.

Við sjáumst seinna, ég elska þig.

Þitt barnabarn,

Erla Hrund.