Aðalheiður Guðmundsdóttir, Heiða, fæddist 18. desember 1922 á Ketilvöllum í Laugardal. Hún lést 24. mars 2024 á Fossheimum Selfossi.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Ingimar Njálsson, f. 10.7. 1894, d. 18.11. 1971, bóndi og kona hans Karólína Árnadóttir, f. 20.11. 1897, d. 25.3. 1981, húsfreyja á Böðmóðsstöðum í Laugardal.

Systkini Heiðu eru 14 og eru tvö þeirra á lífi, þau Ragnheiður, f. 1931, og Hörður, f. 1936, en hin eru látin og eru: Guðbrandur, f. 1919, Guðbjörn, f. 1920, Ólafía, f. 1921, Kristrún, f. 1924, Jóna Sigríður, f. 1925, Valgerður, f. 1927, Fjóla, f. 1928, Lilja, f. 1928, Njáll, f. 1929, Árni, f. 1932, Guðrún, f. 1933, Herdís, f. 1934.

Eiginmaður Heiðu var Jón Þ. Einarsson, f. 18.1. 1916, d. 5.11. 1993, frá Neðri-Dal í Biskupstungum.

Synir þeirra eru: 1) Birgir Bjarndal, f. 1943, maki Elín Sigurðardóttir, f. 1941, d. 2014, börn Ari, f. 1965, og Jón Þór, f. 1969. Sambýliskona Birgis er Sigrún Ásta Bjarnadóttir, f. 1955. 2) Guðmundur Laugdal, f. 1944, maki Hólmfríður Halldórsdóttir, f. 1945, börn Árni Laugdal, f. 1967, og Aðalheiður, f. 1968. 3) Grímur Bjarndal, f. 1945, maki Sólveig Róbertsdóttir, f. 1948, börn Guðbjörg, f. 1968, Brynhildur, f. 1972, Hrafnhildur, f. 1973, og Bergrún, f. 1981. 4) Kristján Bjarndal, f. 1946, maki Sigrún Jensey Sigurðardóttir, f. 1955, börn Lena Björk, f. 1980, Heiða Ösp, f. 1981, Bjarki Rafn, f. 1983, Kristjana, f. 1990, og Ívar Örn, f. 1995. Barnsmóðir Kristjáns Ólöf Svana Samúelsdóttir, f. 1944, d. 2019, barn Samúel, f. 1981. 5) Einar Bjarndal, f. 1947, maki María Titia Ásgeirsdóttir, f. 1952, dóttir hennar og stjúpdóttir Einars Ragnheiður Titia Guðmundsdóttir, f. 1981. Fyrri maki Guðlaug Pálsdóttir, f. 1951, börn þeirra Hanna Björk Bjarndal, f. 1976, og Eva Lillý Bjarndal, f. 1981. 6) Heiðar Bjarndal, f. 1948, maki Kolbrún Svavarsdóttir, f. 1954, börn Brynjar Þór, f. 1972, Áslaug Dröfn, f. 1974, Anna Heiður, f. 1981, og Harpa Rut, f. 1983. 7) Þráinn Bjarndal, f. 1950, maki Anna Soffía Björnsdóttir, f. 1953, börn Elsa Fjóla, f. 1973, Óttar Bragi, f. 1975, og Elva Björg, f. 1979. 8) Björn Bjarndal, f. 1952, maki Jóhanna Fríða Róbertsdóttir, f. 1953, börn Jóhann Haukur, f. 1976, og Unnar Steinn, f. 1981.

Barnaskólaganga hennar var ekki löng, þrjú til fjögur ár, lauk hún fullnaðarprófi frá Laugarvatni við góðan orðstír og var þetta hennar eina skólaganga. Eftir fermingu fór hún tvo eða þrjá vetur í vist hjá frændfólki sínu á Grímsstaðaholtinu í Reykjavík og í Hafnarfirði.

Heiða og Jón tóku við búinu í Neðri-Dal af foreldrum Jóns þegar þau giftu sig á hvítasunnu 1942. Heimilið var stórt og mannmargt og mikill gestagangur. Fyrir utan venjuleg bústörf sá Jón um að girða m.a. varnargirðingar vegna sauðfjárveiki og enn fremur fyrir ýmsa aðila víða um land. Heiða fór gjarnan með í þessar ferðir og sá um matseld fyrir girðingarfólkið, sem voru synir þeirra hjóna og fleiri. Vinsælustu og skemmtilegustu girðingarferðirnar voru á Hveravelli í lok júní ár hvert, en þá var gert við girðingu er liggur milli Langjökuls og Hofsjökuls. Þessar ferðir voru alltaf mjög vinsælar og komust færri með en vildu.

Árið 1995 flutti Heiða í eigið húsnæði á Selfossi en síðustu 15 árin dvaldist hún á Fossheimum, Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Heiða verður jarðsungin frá Selfosskirkju í dag, 3. apríl 2024, klukkan 14.

Í dag kveðjum við tengdamóður mína til 50 ára, Aðalheiði Guðmundsdóttur. Ég hef reyndar þekkt hana miklu lengur, enda kom hún í ferminguna mína og þá var nú ekkert sem benti til þessara löngu tengsla okkar. Ekki man ég hvað hún gaf mér í fermingargjöf, en síðar átti hún eftir að gefa mér margar gjafir sem ég hef notið í gegnum lífið. Gjafir eins og nýtni og hagsýni, þolinmæði, umburðarlyndi og æðruleysi, þætti sem ég hef reynt að tileinka mér í gegnum lífið. En hún kenndi mér líka fleira, til dæmis að búa til bjúgu, slátur og að kalóna vambir, nokkuð sem allar sveitakonur þurftu að kunna.

Hún Heiða var ótrúleg kona, vinnudagurinn lengst af mjög langur, en hún vann öll sín störf svo átakalaust að maður tók eiginlega ekki eftir því að hún væri að vinna, þó verkin væru mörg hvern dag. Og þetta gerði hún um leið og hún ól upp átta syni og oft voru líka aukabörn á heimilinu. Já, störfin voru mörg og hefði hún varla komist yfir helming þeirra ef hún hefði ekki verið eins mikill skipuleggjandi og stjórnandi og raun bar vitni, og gleymum því ekki að á þessum tíma var ekki komið rafmagn í Neðra-Dal og hún hafði því ekki þau sjálfsögðu heimilistæki sem nútímakonur búa við

Heiða var smekkleg kona og alltaf fín og tilhöfð þegar hún fór af bæ. Ekki man ég eftir að hún málaði sig, átti kannski púðurdós í veskinu en varalit átti hún alltaf og notaði spari. Heiða var líka hannyrðakona og mörg listaverkin urðu til í gegnum árin, sérstaklega eftir að hægjast fór um í heimilishaldi. Þá voru það gjarnan barnabörnin sem fengu að njóta þess sem hún skapaði í höndunum, sokkar og vettlingar, gammósíur og bolir að ógleymdum prjónuðu dúkkunum sem hún útbjó og gaf barnabörnum. Já barnabörnin, þau fengu svo sannarlega að njóta þess að eiga ömmu sem alltaf hafði tíma fyrir þau. Mínir synir urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að alast upp í sama húsi og amma og afi og voru ófáar stundirnar þegar hún las fyrir þá eða sagði þeim sögur og kenndi þeim að spila á spil.

Heiða var alltaf hraust og vil ég þakka það hófsemi hennar í mat og drykk auk þess sem í marga áratugi synti hún daglega í sundlauginni sinni í garðinum við húsið. Hún var ekkert að flækjast af bæ að óþörfu, en á kvenfélagsfundi mætti hún alltaf, enda Kvenfélag Biskupstungna félagið hennar og þótti henni vænt um það. Hún flutti í nýbyggt hjúkrunarheimilið Fossheima þegar það opnaði dyr sínar og var fljót að tengjast fólkinu þar. Á Fossheimum leið henni vel, fannst maturinn góður, en aldrei vildi hún borða „pútulæri“ eins og hún kallaði kjúklingakjöt og fékk eitthvað annað í staðinn.

Það er hægt að skrifa endalaust eitthvað um Heiðu tengdamóður mína, svo litrík og gæfusöm kona sem hún var í lífinu og við sem gengum samferða henni fengum að njóta svo ríkulega. En einhvers staðar þarf að setja punkt og það geri ég nú með þakklæti fyrir samfylgdina í gegnum öll árin okkar saman.

Jóhanna Róbertsdóttir.

Elsku amma kvaddi okkur sunnudaginn 24. mars, þá 101 árs. Þótt amma hafi verið fyrir löngu flutt úr sveitinni þá var hún samt alltaf amma í sveitinni. Amma sem var alltaf með fínt hár, amma sem prjónaði endalaust á allan krakkahópinn svo engum yrði kalt, amma sem gaukaði að okkur kandís hvenær sem var, amma sem gaf okkur kökur áður en við fórum að bursta tennurnar fyrir háttinn, amma sem gat alltaf fundið eitthvað skemmtilegt fyrir okkur að gera og amma sem leyfði okkur að vera frjáls í sveitinni. Þar lærðum við flest að synda í lauginni, lékum okkur í stóra húsinu með dúkkurnar sem hún prjónaði sjálf í prjónavélinni og flest kvöld enduðu svo í kvöldkaffi með húsið fullt af fólki. Sveitin var sannkölluð ævintýraveröld lítilla barna og alltaf notalegt þar að dvelja. Hún amma var sko besta amma sem hægt var að hugsa sér.

Minningarnar eru óteljandi en þær eru allar góðar og við hugsum með hlýju til þessarar ótrúlegu konu sem bauð alltaf öll velkomin og átti alltaf nóg til af ást og hlýju.

Elsku amma, við þökkum fyrir allt sem þú gafst okkur.

Lena Björk, Samúel,
Heiða Ösp, Bjarki Rafn, Kristjana og Ívar Örn Kristjánsbörn og
fjölskyldur.

Heiða amma, eða amma í sveitinni eins og við kölluðum hana líka, var höfðingi heim að sækja. Það var alltaf gaman að fara í heimsókn til hennar og afa í Neðri-Dal en að sama skapi lærðum við ýmislegt í þessum heimsóknum og allir fengu sitt hlutverk. Amma var mjög gestrisin og lumaði alltaf á pönnukökum og ýmsu öðru í frystinum en það kom sér vel á stóru heimili þar sem var líka mikill gestagangur. Hún amma var einstaklega falleg og brosmild og við hugsum til hennar með hlýju.

Við kveðjum hana með erindi úr ljóðinu Undir Bjarnarfelli sem tengdapabbi hennar orti:

Ég fór um tinda fjallsins há

við fagran sólarloga

og sá þar út á sundin blá

og silfurtæra voga.

Eva Lillý Bjarndal,

Hanna Björk Bjarndal

og Ragnheiður Titia.

Árin fyrir fæðingu Heiðu ömmu, seint á aðventunni 1922, einkenndust af flestu því sem er ekki til þess fallið að lengja líf fólks, svo sem vetrarhörkum, spænsku veikinni og annarri óáran. En líf ömmu varð nú samt bæði langt og stórt, hvernig sem á það er litið.

Þó að veraldlegur auður hafi eflaust verið af skornum skammti á uppvaxtarárum Heiðu ömmu á Böðmóðsstöðum, þá var það bætt upp með hyggjuviti, dugnaði og mannkærleik. Á fjölskyldumyndum úr hennar æsku má sjá kynslóðirnar standa þétt saman með bros á vör, eldri systkinin halda utan um þau yngri og stundum stilla kálfar, lömb og hundar sér upp við hlið fólksins.

Gott atlæti á uppvaxtarárum á Böðmóðsstöðum var dýrmætt veganesti út í lífið. Þegar Heiða amma stóð nítján ára og nýgift á heimreiðinni í Neðri-Dal, íklædd bláum sparikjól og með aleiguna í litlum trékistli, hlýtur hún samt að hafa velt fyrir sér hvað framtíðin bæri í skauti sér. Líklega óraði hana sjálfa ekki fyrir því að tíu árum seinna yrðu hún og Jón afi búin að eignast átta efnilega syni, gerbreyta búskaparháttum og reisa glæsilegt steinhús í stað torfbæjar þar sem eldað var á hlóðum. Það breytti þó ekki því, að í tvo og hálfan áratug vann amma öll heimilisverk í Neðri-Dal án þess að hafa aðgang að heitu vatni og rafmagni. Þegar sá munaður kom á bæinn voru fyrstu barnabörnin hennar um það bil að koma í heiminn.

Og barnabörnunum fjölgaði, síðan fæddust barnabarnabörn og á endanum barnabarnabarnabörn. Nú telur stórfjölskyldan um 150 manns. Það er ekki tilviljun, því allt óx og dafnaði í kringum ömmu. Þar gilti einu hvort um var að ræða fólk, ferfætlinga, húsplöntur eða skógræktina í hlíðum Bjarnarfells.

Vinnufólk, fjölskyldur tengdadætra, vinir afkomenda og fjöldi annarra sóttu líka í að verja tíma í Neðri-Dal og úr varð líflegt og fjölbreytt samfélag fólks sem undi sér vel við leik og störf. Í stafninum stóð Heiða amma og tengdi allt saman á sinn áreynslulausa og einstaka hátt.

Það var gæfa fyrir okkur bræður að alast upp í sama húsi, og síðar í næsta húsi, og Heiða amma og Jón afi. Skilin á milli heimilanna voru óljós og við völsuðum óhindrað á milli þeirra án þess að nokkur amaðist við því. Heiða amma tók því virkan þátt í uppeldi okkar og kenndi okkur meðal annars að lesa, skrifa og synda. Það gilti einu hvaða erindi við bárum á borð fyrir hana, alltaf kunni hún að leysa úr hlutunum og notaði tækifærið til að kenna okkur sitthvað um lífsgátuna í leiðinni. Það sem situr þó fastast í minni eru sögur sem hún sagði á meðan hún prjónaði eða sinnti öðrum heimilisverkum. Það var ævintýra- og dýrðarljómi yfir sögunum sem oft voru hafðar beint eftir eldra fólki sem var samtíða henni í æsku, fætt um og upp úr árinu 1850 eða fyrir 170 árum.

Það er líka fallegur ljómi yfir Heiðu ömmu og hennar lífshlaupi sem lauk þegar tæp klukkustund var liðin af dymbilviku. Við þökkum henni samfylgdina og munum gera okkar besta til halda lífsgildum hennar á lofti, og segja okkar afkomendum sögurnar þannig að þær lifi að minnsta kosti í önnur 170 ár.

Haukur og
Unnar Steinn.