Erla Waage fæddist í Reykjavík 3. mars 1933. Hún andaðist í faðmi dætra sinna á Landspítalanum við Hringbraut 22. mars 2024.

Foreldrar Erlu voru Hólmfríður Erlendsdóttir, f. 1907, d. 1963 og Ölver Waage, f. 1907, d. 1986. Uppeldisfaðir hennar var Gunnar Jónsson, f. 1901, d. 1986. Erla var elst systkina sammæðra sem auk hennar eru Ragnar Gunnarsson, f. 1938, d. 2020, og Þórir Erlendur Gunnarsson, f. 1939. Erla var elst systkina samfeðra sem auk hennar eru Loiuse Ö. Waage Landry, f. 1933, Viðar Ölversson Waage, f. 1939, d. 1940, og Valur Waage, f. 1937, d. 2015.

Erla eignaðist sex börn, þar af fimm börn með fyrrverandi eiginmanni sínum Karli F. Hafberg, f. 1927, d. 2009. 1) Hólmfríður Hafberg, f. 1953, eiginmaður hennar er Jón Bjarnason og eiga þau tvær dætur, Heiðrúnu Ólöfu og Elínu Björk. Fyrir átti Hólmfríður dótturina Sigríði Erlu með Hjálmari Jónssyni. Hólmfríður á samtals fimm barnabörn og eitt barnabarnabarn. 2) Guðrún Ragnhildur Hafberg, f. 1955, sambýlismaður hennar er Björn Bergsson. Fyrir átti Guðrún börnin Bryndísi Hrönn með Sveini Leóssyni og Guðmundu Guðlaugu, Valdimar Jón og Þröst Jarl með Sveini Jóni Valdimarssyni. Guðrún á samtals 15 barnabörn og eitt barnabarnabarn. 3) Drengur Hafberg, f. 1957, d. 1957. 4) Katla Gunnhildur Hafberg. Hún á soninn Ómar Karl Þórarinsson með Þórarni Einarssyni. 5) Hlynur Guðjón Hafberg, f. 1963, d. 1966. Erla eignaðist auk þess eina dóttur með barnsföður sínum Garðari Andréssyni, f. 1935, d. 2001. 6) Edda Ruth Hlín Waage, f. 1969, sambýlismaður hennar er Andrés Róbertsson og eiga þau tvö börn, Davíð Smára og Katrínu Tinnu. Erla var síðast í sambúð með Valgeiri Gunnarssyni, f. 1944, d. 2012, en þau áttu engin börn. Eftirlifandi afkomendur Erlu eru 35 talsins.

Erla ólst upp á Ölvaldsstöðum í Borgarhreppi. Hún útskrifaðist frá Héraðsskólanum í Reykholti árið 1949. 18 ára gömul fluttist hún til Reykjavíkur og bjó þar alla tíð síðan, seinni helming ævi sinnar á Hrísateigi í Laugarneshverfi. Erla vann við verslunarstörf í ýmsum verslunum borgarinnar auk þess að vinna við ræstingar. Síðasti vinnustaður hennar var Ráðhús Reykjavíkurborgar en þar lauk hún starfsævi sinni 79 ára gömul. Erla var listræn, hún málaði myndir, saumaði, prjónaði og sinnti garðrækt af miklum metnaði og alúð.

Útför Erlu fer fram frá Laugarneskirkju í dag, 3. apríl 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Mamma lifði tímana tvenna. Ung var hún sveitastúlka í Borgarfirðinum sem stóð við vegkantinn þegar bandarískir hermenn fóru hjá. Skólastúlka í Reykholti þar sem hún dvaldi ásamt vinkonum sínum og fór í andaglas á dimmum kvöldum með tilheyrandi æsingi. Átján ára fluttist hún til höfuðborgarinnar, kynntist þar ástinni, gekk í hjónaband og eignaðist fimm börn. Sá tími var ekki sársaukalaus fyrir mömmu. Hún missti tvö barnanna, dreng í fæðingu og annan dreng þriggja ára, en þrjár stúlkur lifðu. Hjónabandið þoldi ekki þá ágjöf sem fjölskyldan varð fyrir. Þegar ég fæddist var mamma 36 ára, búin að öðlast persónulegan þroska og komin í annars konar aðstæður en hún hafði áður búið við, orðin einstæð móðir og farin að vinna úti. Samband hennar við pabba var skammvinnt og þróaðist ekki með þeim hætti sem hún hafði óskað sér. Mamma keypti íbúð á Laugaveginum þegar ég var þriggja ára og þar ólst ég upp til tíu ára aldurs. Áttundi áratugurinn var tími mikilla breytinga. Smátt og smátt vænkaðist hagur hennar. Hún fór í sína fyrstu utanlandsferð til Þýskalands um miðjan áttunda áratuginn. Árið 1980 fluttum við á Hrísateiginn ásamt Valla, sambýlismanni mömmu. Og stuttu síðar tóku sólarlandaferðirnar við, oftast til Ítalíu og stundum til Spánar. Mamma elskaði þessi ferðalög og eyddi löngum stundum í undirbúning, t.d. við að sauma sér alls kyns dress sem hún klæddist á kvöldin. Árið 1991 fluttum við yfir götuna á Hrísateignum, mamma og Valli keyptu neðri hæðina en ég og Enzo, minn fyrrverandi, keyptum efri hæðina, og næstu sautján árin bjuggum við þannig í nábýli. Á þessum tímamótum fékk mamma umráð yfir stórum garði og þarna, rétt að verða sextug, fékk hún mikinn áhuga á garðrækt. Garðurinn varð henni efniviður til sköpunar og sinnti hún honum af mikilli alúð alla tíð. Mamma elskaði hvert tré í garðinum og barðist fyrir tilveru þeirra ef á þurfti að halda. Hún var líka mikill dýravinur og margir tengja hana líklega við þá ketti sem áttu ævidaga sína í faðmi hennar: Danna, Bellus, Safír, Kóral, Jaspis, Lilla, Salómon, Alexander, Sesar, Ágústu Peysu, Júlíu, Grímu, Bimbó, Óliver, Rómeó, Óríon og Regúlus. Nú þegar hún er farin sé ég hana fyrir mér eins og Freyju, í vagni sem dreginn er af köttum, þó ekki tveimur heldur fjórum, á vit nýrra heima.

Ég ólst upp við gott atlæti og mikla ástúð. Mamma var kletturinn minn alla tíð. Ég á henni svo margt að þakka, ekki bara lífið sjálft, heldur líka það líf sem ég hef búið mér. Ég man aldrei eftir að hún hafi dregið úr mér á nokkurn hátt, þótt stundum hafi hún þurft að hafa vit fyrir mér. Þvert á móti hvatti hún mig alltaf til dáða og átti sér stærri drauma um mína framtíð en ég sjálf. Hún kenndi mér að vera þrautseig en líka að taka því sem að höndum ber með æðruleysi. Hún dvaldi ekki við það neikvæða með orðum sínum heldur reyndi ávallt að sjá björtu hliðarnar á lífinu. Mamma var litrík persóna og missirinn er mikill nú þegar hún er farin.

Elsku besta mamma mín, góða ferð.

Edda.

Elsku hjartans amma mín, ég minnist þín með hlýju í hjarta og söknuði. Þú hefur síðan ég fæddist alltaf verið til staðar og alltaf verið elsku besta kisuamman mín. Mikið óskaplega hefur mér alltaf þótt vænt um þig, notið ástúðar þinnar og umhyggju í nú að nálgast hálfa öld. Tilhugsunin um að þú af öllum sért ekki lengur meðal okkar, hjá okkur eða á heimili þínu á Hrísateignum með ástkæru kisunum þínum, aldrei lengra en símtal í burtu, er nánast óbærileg.

Efst í huga mér er þakklæti, þakklæti fyrir þann kærleika sem hefur alltaf verið á milli okkar. Þakklæti fyrir þær stundir sem við höfum átt, þar sem mér hefur oft liðið eins og þú þekktir mig betur en ég sjálf geri. Þakklæti fyrir að geta speglað mig í konu jafn sterkri, skarpri og duglegri og þér. Ég mun að eilífu minnast hlýjunnar í röddinni þinni og hrynjandinnar í nafninu mínu eins og þú sagðir það. Það er og verður aldrei neinn annar eins og þú.

Ástríðufyllri bókaunnanda er vart að finna. En líka litlu hlutirnir í lífinu sem gáfu þér gleði, sólargeislar, gróður, steinar og sólskinssúpan, rauðrófusafi og ekki síst kisurnar þínar sem sýndu mér endalausa þolinmæði í æsku. Til dæmis við þjálfun fyrir hindrunarhlaup sem var æft stíft á ganginum með tilheyrandi hjálpartækjum sem ég sankaði að mér víðsvegar af heimilinu.

Þú hefur svo sannarlega upplifað tímana tvenna elsku amma mín; fylgt uppbyggingu lands og þjóðar, málum og menningu, frá torfbæjum til gler- og stuðlabergs hjúpaðra bygginga og séð óteljandi manna- og dýrabörn verða að fullorðnum og jafnvel eldri borgurum.

Ég hugsa til þín sitjandi í sófanum, með prjónana í höndunum, umvafin kisunum þínum, kaffibollar og kræsingar á borðum.

Fallega brosið þitt, glettin augun og góðar samræður. Orion sperrtur sitjandi á sófaarminum vinstra megin, Romeo hringaður saman kúrandi hægra megin og Regulus uppi á sófabaki fyrir aftan þig. Þú ert og verður alltaf í hjarta mínu elsku amma mín. Bless i bili – þangað til við hittumst næst, hvar sem það verður.

Kæri Guð

Megir þú blessa okkur og gera ríki
okkar stór!

Megir þú halda hendi þinni yfir
okkur og veita okkur frið.

Megir þú frelsa okkur frá sársauka.

Takk fyrir allt, sem hefur verið gefið.

Takk fyrir orðið. Takk fyrir lífið.

Takk til þeirra sem komu mér …

Í heiminn – til móts við „sjálfið“.

Takk fyrir ættir mínar, fólkið mitt og
frændur

– þeirra sem ég mun kynnast í
framtíðinni.

Þeirra sem ég elska af öllu hjarta.

Þeirra sem ollu mér sársauka.

Án þeirra þá væri ég

eins og nemandi án kennara.

Takk fyrir ætíð að fá að skilja

– fegurðina í öllu því smáa.

Fyrir gjafir náttúru og jarðar

Fyrir þrautseigju og kraft

Til að geta sagt með vissu:

Þetta líf ER engu líkt …

Amen!

(Pernille Aalund – lauslega þýtt)

Þín

Sigríður (Sirrý).

Elsku amma, það er skrýtið og sárt að hugsa til þess að fyrir örfáum dögum sátum við og ræddum um Róm. Þú sagðir mér frá ferðalögum þínum í gegnum árin og við bæði hlógum og höfðum gaman af. Ég trúi því að þú hafir komið við hjá mér þar á leið þinni inn í framhaldið. Síðustu daga hafa rifjast upp margar minningar. Mínar fyrstu eru þegar við systur komum í heimsókn og byrjuðum á að teygja okkur undir arininn og ná í kassa með legókubbum og skoða hvað þú fannst síðast í Kolaportinu og seinna meir ræddum við um prjón, garn og uppskriftir en þú prjónaðir bestu vettlingana og bílateppi bæði fyrir mig og Polly.

Við áttum okkur tímabil þar sem við fórum saman í Kost og leituðum að rennilásapokum, þræddum pólskar búðir í leit að ákveðnum hárlit, fórum á tónleika og leikhús og það hefur alltaf verið fastur liður að kippa með Gold Coast í fríhöfninni. Það er skrýtið að hugsa til þess að stundirnar með þér verða ekki fleiri en ég er þó þakklát fyrir þær sem við fengum. Jón Ólafur minnist hlýju þinnar og hve áhugasöm þú varst í spjalli við hann. Hann fékk að skoða puntdótið og spyrja þig um lífið í gamla daga. Hann segir stoltur fá kisuömmu sinni sem átti þrjár kisur, hvorki meira né minna, prjónaði fallegar peysur og átti alltaf eitthvert gotterí á borðinu sem hann mátti fá af eins og hann vildi.

Elsku amma, þú sýndir mér sjálfstæði, ákveðni og staðfestu. Þú lést ekki vont veður aftra þér frá því að komast leiðar þinnar og vildir ekki biðja um aðstoð fyrr en undir það síðasta. Þú lést ekki bjóða þér hvað sem er og spurðir spurninga og vildir svör. Ég er þakklát fyrir að hafa haft þig í mínu lífi.

Heiðrún.

Þegar ég rifja upp minningar um elsku kisuömmu þá er svo margt sem kemur upp í hugann.

Sem barn og unglingur var ég á æfingum um helgar. Í minningunni fórum við mamma í heimsókn til ömmu nánast allar helgar eftir æfingu þar sem kaffi og alls konar kræsingar biðu okkar og við spjölluðum um lífið og tilveruna.

Sem barn var sérstaklega gaman að fara í heimsókn. Það var eins og að koma inn í einhvers konar ævintýraheim. Amma var nefnilega mikill fagurkeri og mikill safnari. Alls konar dót, tugir bangsa og styttur til að skoða og leika með og í hvert skipti sem ég kom í heimsókn tók ég eftir einhverju nýju. Amma var alltaf kölluð kisuamma og þótt ég hafi bara átt eina ömmu síðan ég var unglingur hét hún það alltaf í símanum mínum, bara til að vera alveg viss að þetta væri númerið hennar.

Hún átti kisur frá því ég man eftir mér og örugglega löngu fyrir það. Ég vissi nú aldrei almennilega hversu margar þær voru en þær voru sirka á bilinu tvær upp í tíu.

Eftir því sem ég varð eldri styrktist sambandið okkar enn meira og við áttum fleiri stundir bara við tvær. Amma var ótrúlega sjálfstæð og þoldi illa að biðja fólk um hjálp eða greiða. Hún keyrði ekki bíl og hún tók strætó í öllum veðrum út í búð og fannst það alls ekkert mál. Eftir að ég fékk bílpróf náði ég stundum að fá hana til að leyfa mér að skutla henni í búðina en þá var það með því skilyrði að fara á kaffihús á eftir. Þá sagði hún mér alls konar sögur og við ræddum heima og geima.

Fyrir ekki svo mörgum árum uppgötvuðum við sameiginlegan áhuga á ballettsýningum. Við skelltum okkur nokkrum sinnum á jólasýningar í Hörpunni og eru það ótrúlega dýrmætar minningar. Stundum fórum við út að borða fyrir sýningar og í eitt skiptið fórum við á Aktu Taktu, þar voru sko bestu borgararnir í bænum að hennar sögn. Á þeim tíma fannst mér það mjög fyndið að fara uppstrílaður á Aktu Taktu en það var ótrúlega gaman og við áttum dásamlega stund. Önnur minning um ömmu sem ég mun aldrei gleyma er eitt skiptið sem ég fór með henni í Kolaportið. Hana langaði svo ótrúlega mikið að gefa mér einhvern hlut og ég valdi mér DVD-mynd, Fast and the furious – Tokyo Drift. Ég er ekki viss um að hún hafi áttað sig á því hvaða mynd þetta væri eða um hvað en ég var svo ótrúlega ánægð og þakklát og horfði svo oft á hana. Myndin er enn þá til heima hjá foreldrum mínum og ég er ekki viss um að ég muni nokkurn tímann láta hana fara þó svo að ég eigi engan DVD-spilara lengur.

Kisuamma var ótrúleg að prjóna. Bestu gjafirnar voru hlýju peysurnar, vettlingarnir, ótrúlega fallegir kjólar á dóttur mína sem hún gerði án uppskriftar og svo allra bestu borðtuskurnar. Það var ótrúlegt að fylgjast með hraðanum á henni og hún talaði um að þetta tæki nú bara eina og eina kvöldstund yfir þætti. Það eru klárlega gjafir sem munu endast lengi, veita okkur hlýju og minna okkur á okkar bestu kisuömmu.

Hvíl í friði, elsku kisuamma, og takk fyrir allt.

Elín Björk Jónsdóttir.