Bjarki Gylfason fæddist 14. ágúst 1988 á Selfossi. Hann lést á heimili sínu í faðmi fjölskyldunnar 20. mars 2024, eftir hetjulega baráttu við krabbamein.

Eftirlifandi eiginkona Bjarka er Guðrún Ásta Ólafsdóttir, f. 8. mars 1990, og saman áttu þau börnin Heiðrúnu, f. 10. október 2013, og Ólaf Þór, f. 15. september 2015. Foreldrar Bjarka eru Guðrún Jóna Valdimarsdóttir, f. 1961, maki Ole Olesen, f. 1956, og Gylfi Pétursson, f. 1957, maki Hafdís Arnardóttir, f. 1961. Bræður Bjarka eru: 1) Valdimar Gylfason, f. 1985, maki Tinna Björg Kristinsdóttir, f. 1985. Börn Valdimars og Tinnu eru Fannar Valberg, Guðrún Erna og Sindri Þór. 2) Heimir Gylfason, f. 1987. Sonur Heimis er Marinó Týr. Guðrún Ásta er dóttir Ólafs Barkar Þorvaldssonar, f. 1961, og Ragnheiðar Einarsdóttur, f. 1962. Systkini Guðrúnar Ástu eru: 1) Ásdís Ólafsdóttir, f. 1984, maki Carl Henrik Larsson, f. 1985. Börn Ásdísar og Carls eru Edda Heiður, Ari Henrik og ónefnt stúlkubarn. 2) Einar Lúðvík Ólafsson, f. 1992. 3) Signý Ólafsdóttir, f. 1996.

Bjarki ólst upp á Stokkseyri og bjó þar til rúmlega tvítugs. Á æskuárunum snerist lífið um fiskveiðar, fjöruferðir, íþróttir og tónlist, sem og útilegur með fjölskyldunni á sumrin og vélsleðaferðir á veturna. Veiðiáhuginn fylgdi honum alla tíð og aflaði hann sér skotvopnaleyfis þegar hann hafði aldur til sem hann nýtti í gæsa-, hreindýra- og rjúpnaveiðar. Bjarki spilaði bæði á gítar og trommur og voru ófáar hljómsveitaræfingar í bílskúrnum á Hásteinsveginum hjá þeim bræðrum. Bjarki kláraði grunnskólanám í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri. Þar á eftir lærði hann rafvirkjun í Fjölbrautaskóla Suðurlands og í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Að loknu sveinsprófi starfaði hann hjá Fossraf og síðar hjá Arbeidskraft Valdres í Noregi. Hann bætti við sig námi í rafmagnsiðnfræði frá Háskólanum í Reykjavík og starfaði sem rafmagnsiðnfræðingur hjá eigin fyrirtæki; Raunafli ehf., Öryggismiðstöðinni og VSB. Hann spilaði körfubolta lengst af með meistaraflokki Þórs Þorlákshöfn á árunum 2009-2012 og síðast með meistaraflokki Álftaness árin 2022-2023. Bjarki og Guðrún Ásta byggðu sér heimili í Garðabænum þar sem þau komu sér vel fyrir ásamt börnum sínum tveimur. Bjarki var mikil félagsvera og lagði sitt af mörkum í að skapa tækifæri til samvista með fjölskyldu og vinum. Kímni og væntumþykja einkenndu persónuleika hans og átti hann auðvelt með að gleðja þau sem á vegi hans urðu.

Útför Bjarka fer fram í Hallgrímskirkju í dag, 3. apríl 2024, klukkan 13.

Pabbi var góður maður og við erum svo heppin að hafa átt hann sem pabba. Hann kenndi okkur til dæmis að veiða og hjóla. Pabbi var skemmtilegast pabbi í heimi, góður og átti marga vini. Hann var góður í körfubolta en ekki mjög góður í að syngja. Okkur leið alltaf mjög vel með honum og hann var alltaf til í að gera það sem maður vildi, hann var alltaf til í allt. Hann var oft úti að veiða, hann veiddi til dæmis fiska, hreindýr, rjúpur og gæsir. Pabbi var besti pabbi í heimi. Takk fyrir allt.

Heiðrún Bjarkadóttir og Ólafur Þór Bjarkason.

Tilveran getur verið undarlegt ferðalag. Að setjast niður og skrifa nokkur minningarorð um yngsta son sinn, þrjátíu og fimm ára gamlan, er nokkuð sem foreldri vill ekki gera.

Fyrir rúmu ári greindist Bjarki minn með illvígt krabbamein, gríðarlega mikið áfall fyrir alla. Hann var mjög veikur en uppgjöf var ekki til í hans huga, hann náði sér ágætlega á strik, fór t.d. að æfa körfubolta með Álftanesi, alsæll. Hlutirnir breyttust því miður í október, meinið dreifði sér.

Bjarki var mjög vinmargur, lífsglaður orkubolti, grallari og mjög stríðinn, jákvæður og hjálpsamur, hvatvísin var ekki langt undan. Hann átti mörg áhugamál, t.d. skotveiði, stangveiði, fjallaferðir, ferðalög og margt fleira.

Sorg mín er óendanlega mikil, að þurfa að kveðja þig elsku strákurinn minn, en er líka svo þakklát fyrir svo margt, t.d. að hafa eignast ykkur strákana mína, fyrir barnabörnin mín og svo margt meira. Síðasta ár fórum við í nokkrar útilegur saman, sem var yndislegt. Brúðkaupshelgin ykkar stendur upp úr, svo skemmtilegt og fallegt útilegubrúðkaup í yndislegu veðri.

Nú er komið risastórt skarð í fjölskylduna mína sem verður ekki fyllt.

Mest af öllu elskaði Bjarki konuna sína, Guðrúnu Ástu, og börnin sín, Heiðrúnu og Ólaf Þór. Ykkar missir er mestur.

Við höldum áfram að grallarast í anda Bjarka okkar.

Sofðu rótt elsku Bjarki besti, ég sakna þín svo mikið, elska þig ofurmikið elsku strákurinn minn.

Ljúfi drottinn lýstu mér,

svo lífsins veg ég finni

láttu ætíð ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

(Gísli á Uppsölum)

Ástarkveðja!

Þín

mamma.

Hann kom inn í líf okkar eins og stormsveipur, stóri og sterki tengdasonurinn, hann Bjarki Gylfason.

Um hann eiga við þau bestu orð sem lýst geta einum manni. Heiðarlegur, hreinskiptinn, barngóður, hláturmildur, hrekklaus en skemmtilega stríðinn. Dugnaðarforkur og vanur að bjarga sér sjálfur en jafnframt einkar hjálpsamur og vinmargur eftir því.

Þau ungu hjónin reistu sér og börnum sínum hús samhliða námi og af litlum efnum, mest með eigin vinnu og lauk Bjarki jafnframt iðnnámi en síðar háskólanámi með fullu starfi án þess að fólk tæki svo sem sérstaklega mikið eftir því. Samt höfum við fáa séð nota jafnmikinn tíma með börnum sínum. Þessi trommuleikari með sinn harða tónlistarsmekk var sunnlenskt náttúrubarn og fróðleiksbrunnur um landið og dýrin sem kenndi börnum sínum og öðrum að lesa náttúruna.

En fyrst og fremst var Bjarki alltaf kátur og góður. Alltaf jákvæður með góða nærveru.

Svo kom krabbinn.

Þá kom í ljós hversu öflugur Bjarki var í raun. Hann hélt gleði sinni og sinnti með sínum hætti fjölskyldu sinni allt fram á síðasta dag með æðruleysi sem ekki verður með orðum lýst. Voru þau hjónin þá fyrst og fremst að hugsa um börnin sín tvö og undirbúa þau fyrir það sem koma skyldi. Eins gerðu margir, skyldir sem óskyldir, litlu fjölskyldunni ómetanlegt gagn. Það ber að þakka.

Bjarki kom fram í kynningarmyndbandi fyrir Kraft og brýndi unga veika karlmenn, sem væru margir hverjir lokaðir einstaklingar, að veita öðrum í sömu sporum stuðning, halda í vonina og gleðina og nýta það góða starf sem fer fram á vegum félagsins. Í anda Bjarka verða þau orð endurtekin hér.

Sem fyrr bað Bjarki ekki um mikið og kvartaði lítt. Þó má nefna að nokkrum dögum fyrir andlát sitt stóð þessi mikli íþróttamaður í öllu sínu veldi í síðasta sinn fyrirvaralaust upp úr rúminu á spítalanum án þess að eiga að geta það, gekk ákveðið fram á gang með allar snúrurnar hangandi á sér og sagðist ætla heim í sitt rúm. Þegar þangað var komið mátti sjá hann fella tár í hljóði.

Nú er hann farinn, gleðigjafinn. Sem kom með krafti en kvaddi ljúflega. Hann skilur eftir sig tvö góð börn og bjartar og gleðiríkar minningar hjá þeim sem á vegi hans urðu.

Gott ævistarf það.

Ragnheiður Einarsdóttir og Ólafur Börkur

Þorvaldsson.

Elsku Bjarki var nýorðinn 16 ára þegar ég hitti hann fyrst. Hann kom mér fyrir sjónir sem hávaxinn og hláturmildur glókollur. Með glaðlegu fasi og prakkaralegu brosi smitaði hann fólk í kringum sig af jákvæðri orku. Þannig var hann alltaf. Hann hafði alltaf nóg fyrir stafni og sinnti áhugamálum sínum af miklu kappi. Hann var vinmargur, enda alltaf til í að gera eitthvað skemmtilegt og var sjaldan dauð stund í kringum hann. Ef hún kom upp, þá gerði hann eitthvað í því; t.d. að standa á höndum, já, eða læra eitthvað nýtt. Hann var fróðleiksfús og aflaði sér upplýsinga til að verða vísari. Svo ræddi hann um hlutina af einlægni og hafði gaman af ef úr urðu rökræður og djúpar samræður. Ég lærði margt af honum. Bestur fannst mér hann þegar hann fór í hlutverk sáttasemjara og stillti til friðar hjá börnunum okkar þegar orkan hafði tekið öll völd. Hann sýndi þeim skilning og ræddi við þau af yfirvegun, virðingu og festu. Fyrir þeim var hann örugg höfn. Með stóra hlýja faðmi sínum baðaði hann þau í kærleika og gaf þeim hluta af sér – hluta af jákvæðu orkunni sinni.

Elsku Bjarki, þú varst sönn fyrirmynd fyrir okkur öll og nær þakklæti mitt til þín lengra en augað eygir. Blessuð sé minning þín.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

(Bubbi Morthens)

Þín mágkona,

Tinna Björg.

Haustið 2010 fékk ég Guðrúnu Ástu, systur mína, í heimsókn til Stokkhólms þar sem ég var við nám. Við systurnar nutum stórborgarinnar í fagurlitum haustskrúða og fannst mér að systir mín væri örlítið hamingjusamari en áður. Það var góð ástæða fyrir því. Já, ástin! Á Íslandi beið hennar nýi kærastinn, Bjarki Gylfason. Það var í þessari heimsókn sem ég var formlega kynnt fyrir þessum tilvonandi mági mínum í gegnum veraldarvefinn. Ég og Guðrún Ásta systir, við matarborðið í pínulitlu stúdentaíbúðinni minni, og Bjarki hinum megin hafsins, á Stokkseyri. Mér leist þegar vel á nýja kærastann, sem virtist vingjarnlegur, hress og afslappaður.

Þessi fyrsta tilfinning reyndist með tímanum vera hárrétt og meira til. Bjarki var yndislegur maður.

Árin liðu og alltaf var nóg um að vera hjá Bjarka og Guðrúnu Ástu. Þau menntuðu sig, eignuðust börnin sín tvö, byggðu hús og áttu einnig hund og kanínu. Sjálf bjó ég áfram í Stokkhólmi og bý þar enn, með manni og börnum. Við fjölskyldan komum reglulega í heimsókn til Íslands og voru samverustundirnar með fjölskyldu Guðrúnar Ástu og Bjarka margar, innilegar og góðar. Börnin okkar eru einnig miklir vinir. Við dvöldum oft saman í sumarbústaðnum í Grímsnesi, fórum í ævintýraferðir, í fjöruna á Stokkseyri, á kajak, sund, golf og spiluðum fram á nótt. Börnin elskuðu Bjarka enda var hann hrífandi kátur, hjartahlýr og veitti þeim athygli. Hann hafði einstaklega þægilega og lifandi nærveru. Það var alltaf gott og gaman að umgangast Bjarka sem tók sjálfan sig og lífið ekki of alvarlega.

En það var einmitt alvara lífsins sem varpaði skugga á fjölskylduna litlu fyrir rúmu ári þegar Bjarki veiktist skyndilega. Hann mætti því stóra verkefni af aðdáunarverðu æðruleysi og jákvæðni. Þrátt fyrir það varð að lokum ekki lengur við ráðið og hinn lífsglaði Bjarki þurfti að kveðja. Sorg margra er djúp og sár.

Elsku Bjarki. Minningin um smitandi lífsgleði þína og hlýju lýsir það tóm er þú áður stóðst. Söknuðurinn kennir okkur að elska dýpra og hlæja innilegar. Að lifa óhrædd og lifandi eins og þú gerðir, Bjarki!

Ég lofa að umvefja fólkið þitt kærleika og gleði í þína minningu.

Ásdís Ólafsdóttir.

Bjarki kom inn í líf mitt fyrir tæpum 14 árum þegar hann og Guðrún Ásta systir mín fóru að vera saman. Með tímanum varð samband okkar Bjarka meira eins og systkinasamband og passaði hann upp á mig eins og litla systur.

Bjarki kunni svo margt og vissi ótrúlegustu hluti. Þess vegna hringdi ég yfirleitt fyrst í hann ef eitthvað kom upp á. Hann var tilbúinn að aðstoða mig með hvað sem er. Ég veit til dæmis ekki hversu oft hann reddaði mér með rafmagnslausan bíl, en á tímabili var það algengt hjá mér að gleyma að slökkva ljósin á bílnum og sama hvað, Bjarki var alltaf mættur strax á staðinn og aldrei var hann pirraður á þessu veseni í mér. „Þetta er ekkert mál Signý mín, ég kem og græja þetta“ var algengt svar.

Bjarki var einstaklega lífsglaður að eðlisfari. Það var einfaldlega skemmtilegra þegar Bjarki var á staðnum. Hann hafði sérstakt lag á að segja skemmtilega frá enda var hann minnugur og hafði gert margt og lent í ýmsum ævintýrum.Hann var vinmargur enda traustur og góður vinur. Ég sé núna hversu marga hann hafði djúpstæð áhrif á. Á síðari árum urðum við mjög nánir vinir. Við vörðum miklum tíma saman og voru gæðastundirnar margar. Síðastliðið ár var ótrúlegt að fylgjast með Bjarka takast á við erfið veikindi. Gerði hann það af miklu æðruleysi, með lífsgleðina og húmorinn að vopni, allt til síðasta dags.

Skarðið er stórt sem Bjarki skilur eftir sig og mikið á ég eftir að sakna hans. Ég veit samt og finn að hann er hjá okkur og passar upp á okkur. Ég mun minnast þín elsku Bjarki minn, svo lengi sem ég lifi. Ég mun hugsa til þín þegar ég keyri um Ísland eða hjóla um Heiðmörk, í útilegum og í kalda pottinum, þegar ég hlusta á lögin þín, þegar ég horfi til fjalla eða veð í kaldri á og einna helst þegar ég fylgist með Heiðrúnu og Ólafi Þór.

Takk fyrir allar dýrmætu stundirnar elsku „bróðir“.

Þangað til næst,

Signý Ólafsdóttir.

Það eru fáir sem hafa slíka útgeislun og lífsgleði eins og Bjarki samstarfsmaður okkar og vinur hafði. Bjarki starfaði með okkur á VSB verkfræðistofu í tæp sjö ár. Hann var rafvirki og rafmagnsiðnfræðingur og sinnti starfi sínu af áhuga og krafti. Hann var lausnamiðaður og úrræðagóður og gekk öruggur í verkin sem hann fékk á sitt borð.

Á kaffistofunni hafði Bjarki alltaf eitthvað til málanna að leggja og var mikill sögumaður. Við heyrðum margar skemmtilegar sögur af æskubrekum á Stokkseyri og víðar. Áhugamálin voru ótal mörg og í stöðugri þróun, það var erfitt annað en að smitast af áhuganum þegar hann sagði frá því nýjasta. Ávallt opinn fyrir því að prófa eitthvað nýtt. Stundum fannst manni eins og Bjarki hefði fleiri klukkustundir í sólarhringnum en við hin og að hann keyrði á ótakmarkaðri orku.

Það var gott að spyrja hann ráða. Utan vinnu var Bjarki vinur allra og alltaf tilbúinn að leggja sitt af mörkum til að leysa úr málum annarra. Hann var alltaf tilbúinn að deila reynslu sinni, segja frá, kenna og leiðbeina. Hvort sem það tengdist húsbyggingum, bílabrasi eða hvers kyns veiði. Það verður erfitt að venjast því að geta ekki leitað til hans. Bjarki var góður ferðafélagi og fylgdi okkur í mörg skemmtileg VSB-ferðalög og -veiðiferðir, og Guðrún Ásta með honum þegar svo bar við.

Hann var hreinskiptinn og opinn um hvað var að gerast í lífi sínu hverju sinni, hvort sem það sneri að baráttu hans við veikindi síðustu ár eða upplifunum sem hann hafði átt.

Við munum minnast Bjarka sem einstakrar persónu og samstarfsmanns. Hans verður sárt saknað. Guðrún Ásta, innilegar samúðarkveðjur til þín og barnanna.

Hjörtur Sigurðsson,

framkvæmdastjóri

VSB verkfræðistofu.

Elsku besti Bjarki.

Lífsglaði, þrjóski og hvatvísi Bjarki. Minningar um þennan magnaða mann sem hafði áhrif á okkur öll mun lifa með okkur um ókomna tíð.

Útilegurnar, veiðiferðirnar, fjallakofinn, Suðurengið og endalaust bras á elsku eyrinni. Orkan í einum manni og hugmyndaflugið. Hugmyndirnar voru misskynsamlegar en þær voru iðulega framkvæmdar strax, án þess að velta þeim of mikið fyrir sér. Á ferðalögunum mátti ekki sjá læk nema þar þyrfti að veiða eða vaða. Þú bjóst líka yfir einstökum sannfæringarkrafti sem olli því að við vorum alltaf með. Þessar minningar eru ómetanlegar og munum við varðveita þær vel.

Hvatvísin og uppátækjasemin fylgdi þér sem betur fer alla tíð, það var alltaf verið að plana hvernig hægt væri að koma inn veiðiferð(um) í annars mjög svo annasama dagskrá. Meiri „do-er“ er erfitt að hugsa sér, eiginleiki sem svo gott er að búa yfir. Brúðkaupshelgin var svo yndisleg í alla staði, þú í stullunum með gítarinn í hendi, úti í læk að vaða og við lækjarbakkann að ganga í það heilaga með Guðrúnu Ástu þinni.

Elsku Bjarki okkar. Það er ólýsanlega óréttlátt og sárt að þú hafir ekki fengið lengri tíma með öllum ástvinum þínum. Öll verkefni heimsins verða svo agnarsmá í samanburði við það sem þú fékkst í hendurnar. Við eigum ekki til orð yfir hvað þú og fjölskylda þín stóðuð ykkur vel í veikindum þínum. Krafturinn, hugrekkið og æðruleysið. Það er gott að vita af þér með ömmu og afa í Suðurenginu, þið afi skellið ykkur í veiði, meðferðis verður gin og blár ópal.

Anna Ír, Birkir
og Jón Vignir.

Í litlu sjávarplássi ólumst við upp saman og áttum sameiginlegar minningar um skemmtileg bernskuár. Gamanmál, leyndarmál, vandamál og ótal önnur mál vorum við sammála um að varðveita Bjarki minn. Og þessar minningar fylgja okkur vinunum sem eftir erum allt til æviloka, Bjarki minn.

Takk Bjarki minn fyrir að hafa verið hreinn og beinn alla tíð. Þín verður sárt saknað af öllum og í dag fer ég í fjöruna og horfi á sjóinn og sest í sandinn sem var ætíð okkar leikvöllur og hugsa til þín.

Takk fyrir allt og allt og fljúgðu hátt.

Fjölskyldu og ástvinum Bjarka votta ég mína dýpstu samúð.

Birgir (Biggi).

Það var erfitt að kveðja Bjarka og vita að það væri í síðasta skipti sem ég kveddi hann en þannig var staðan orðin eftir mikla baráttu hans við krabbameinið. Baráttu sem einkenndist af jákvæðni, óhefðbundnum lækningum og húmor. Bjarki var skemmtilegur og fyndinn, handlaginn, ævintýramaður og mikill veiðimaður, hann var líka þrjóskari en flestir aðrir. Ég er glöð að eiga góðar stundir með Bjarka til að minnast eins og þegar hann var kynntur fyrir fjölskyldunni í fyrsta skiptið og braut kökuhníf sem Ransý og Börkur höfðu fengið í brúðkaupsgjöf, hann var einfaldlega of sterkur. En það sem stendur upp úr verður alltaf minningin um bestu helgi í manna minnum, brúðkaupshelgina síðasta sumar og allt skipulagið sem fylgdi henni. Bjarki á gítarnum, með stelpunum mínum að leika við Nemó og grilla sykurpúða og svo margt fleira. Ég verð ævinlega þakklát fyrir að hafa fengið að vera hluti af þessari helgi og frábæra klaninu sem fylgir Bjarka og Guðrúnu Ástu.

Vertu ekki grátinn við gröfina mína

góði, ég sef ekki þar.

Ég er í leikandi ljúfum vindum,

ég leiftra sem snjórinn á tindum.

Ég er haustsins regn sem fellur á fold

og fræið í hlýrri mold.

Í morgunsins kyrrð er vakna þú vilt,

ég er vængjatak fuglanna hljótt og stillt.

Ég er árblik dags um óttubil

og alstirndur himinn að nóttu til.

Gráttu ekki við gröfina hér –

gáðu – ég dó ei – ég lifi í þér.

(Þýð. Ásgerður Ingimarsdóttir)

Elsku hjartans Guðrúnu Ástu, Heiðrúnu, Ólafi, Signýju, Gylfa, Gunnu, Ole, Valla, Heimi og Rúnu sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur í sorginni.

Ykkar

Hrafnhildur H.

Það er ekki nema aðeins meira en ár síðan leiðir okkar Bjarka lágu saman í gegnum áhuga okkar á veiði og hundasportinu.

Eitt ár er kannski ekki langur tími en ef mælt væri í veiðiferðunum, göngutúrunum, rjúpnaleitunum, samverustundunum, uppátækjunum og öllum ævintýrunum þá gefur eitt ár alls ekki rétta mynd.

Ástríða Bjarka fyrir veiðimennskunni skein af honum, enda var ekkert skemmtilegra en að fara á veiðar með honum.

Bjarka hafði lengi dreymt um að fá sér veiðihund og auðvitað lét hann verða af því. Nemó mætti til leiks og urðu þeir mátar perluvinir. Bjarki lagði sig allan fram í hundaþjálfuninni sem skilaði af sér góðum og flottum veiðihundi.

Eins og Bjarka var einum lagið þá tæklaði hann allt á svo aðdáunarverðan hátt.

Vandamálin voru einungis til þess að leysa þau.

Þakklæti er mér efst í huga, fyrir Bjarka og hans vináttu. Með mikinn trega í brjósti kveð ég Bjarka en minningarnar lifa áfram.

Elsku Guðrúnu Ástu, Heiðrúnu, Ólafi og öðrum aðstandendum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Erla Sigríður

Sævarsdóttir.