Páskafrí Rólyndisbragur er á helstu stofnunum þessa vikuna.
Páskafrí Rólyndisbragur er á helstu stofnunum þessa vikuna. — Morgunblaðið/Eggert
Enda þótt fundir ríkisstjórnarinnar séu að jafnaði haldnir á þriðjudögum og föstudögum virðist sem páskarnir hafi sett strik í þann reikning að þessu sinni, en enginn ríkisstjórnarfundur var haldinn í gær, þriðjudag

Enda þótt fundir ríkisstjórnarinnar séu að jafnaði haldnir á þriðjudögum og föstudögum virðist sem páskarnir hafi sett strik í þann reikning að þessu sinni, en enginn ríkisstjórnarfundur var haldinn í gær, þriðjudag. Lára Björg Björnsdóttir aðstoðarmaður forsætisráðherra staðfesti í samtali við Morgunblaðið að ríkisstjórnarfundur yrði hins vegar haldinn á föstudaginn.

Fundir í borgarstjórn Reykjavíkur eru alla jafna haldnir fyrsta og þriðja þriðjudag hvers mánaðar, en að þessu sinni bregður svo við að borgarstjórnarfundir verða annan og fjórða þriðjudag þessa mánaðar, skv. fundadagatali borgarstjórnar.

Þá er rólyndisbragur yfir æðstu dómstólum landsins, en skrifstofur bæði Landsréttar og Hæstaréttar eru með skertan afgreiðslutíma og ekki finnanlegar áformaðar dómsuppkvaðningar skv. vefjum dómstólanna þessa vikuna. Þar segir hins vegar að afgreiðslutímar skrifstofa beggja verði kl. 9-12 frá og með 25. mars til og með 5. apríl.

Alþingi er einnig í fríi, en næsti fundur hefur verið boðaður 8. apríl nk. Þá eru heldur ekki áformaðir nefndafundir þessa vikuna.