Óþarfi er að gera kröfu um lágmarksútgjöld þó að fegurðin verði að fá að njóta sín

Jón Gunnarsson og nokkrir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingu á myndlistarlögum sem felur í sér að afnema þá skyldu sem lögin leggja nú á herðar hins opinbera, að verja 1% af byggingarkostnaði hið minnsta til listaverka í byggingu og umhverfi hennar.

Í lögunum er engin undantekning frá þessari skyldu, að því er fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, og getur þetta framlag til listaverka því verið afar há fjárhæð. Í greinargerðinni er nefnt sem dæmi „að áætlaður heildarbyggingarkostnaður nýs Landspítala er 210 ma.kr. Í því tilviki er hinu opinbera skylt að fjárfesta í listaverkum fyrir spítalann fyrir að lágmarki 2,1 ma.kr. Að mati flutningsmanna er ekki unnt að réttlæta slík fjárútlát til listaverkakaupa fyrir eina byggingu.“

Þá er á það bent að kaup á listaverkum séu afar ólík öðrum fjárútlátum vegna nýbygginga; listaverkin hafi ekki áhrif á notkun byggingarinnar og gæði listaverkanna séu eingöngu byggð á huglægu mati og persónulegri skoðun.

Flutningsmenn telja að ekki sé hægt að láta eina reglu gilda um kaup á listaverkum fyrir allar opinberar byggingar og nefna að „til að mynda hýsa sumar opinberar byggingar starfsemi sem er með öllu opin almenningi sem eðlilegt er að skreyta með nokkrum fjölda listaverka. Aðrar opinberar byggingar eru þess eðlis að almenningi er þar bannaður aðgangur, svo sem fangelsi eða varnarmannvirki. Í slíkum byggingum er bersýnilega ekki jafn mikil þörf á listaverkum og í öðrum nýbyggingum. Þá getur byggingarkostnaður einstakra bygginga verið gríðarlega hár og hlaupið á hundruðum milljarða. Fyrir slíkar byggingar bæri hinu opinbera að kaupa listaverk fyrir nokkra milljarða.“

Þessar ábendingar eiga fullan rétt á sér, en eins og flutningsmenn benda einnig á er ekki með breytingunni verið að afnema skyldu til að fegra nýbyggingar með listaverkum. Aðeins er verið að leggja til að krafa um lágmarksfjárútlát verði afnumin.