Kosningar Íbúar sameinaðs sveitarfélags ganga að kjörborðinu í maí.
Kosningar Íbúar sameinaðs sveitarfélags ganga að kjörborðinu í maí. — Morgunblaðið/Guðlaugur J. Albertsson
Yfirkjörstjórn Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar hefur úrskurðað framboðslista Sjálfstæðisflokksins og óháðra (D-lista) og framboðslista Nýrrar sýnar (N-lista) löglega og gilda í komandi kosningum til sveitarstjórnar sameinaðs sveitarfélags Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Yfirkjörstjórn Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar hefur úrskurðað framboðslista Sjálfstæðisflokksins og óháðra (D-lista) og framboðslista Nýrrar sýnar (N-lista) löglega og gilda í komandi kosningum til sveitarstjórnar sameinaðs sveitarfélags Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar. Einhverjar mannabreytingar eru á listum beggja framboða sem buðu fram í sveitarstjórnarkosningunum 2022 og skipa bæjarstjórn Vesturbyggðar í dag en persónukjör var viðhaft í kosningum til sveitarstjórnar Tálknafjarðar. Kjósa á 4. maí nk.

Spennandi tímar

Friðbjörg Matthíasdóttir, framkvæmdastjóri á Bíldudal, er oddviti Sjálfstæðisflokksins og óháðra. Friðbjörg er ekki ókunnug sveitarstjórnarmálum en hún var bæjarfulltrúi í bæjarstjórn Vesturbyggðar á árunum 2010 til 2022 og snýr nú aftur eftir um tveggja ára hlé. Segir hún markmiðið hafa verið að setja saman lista, sem hafi tekist, en leitað hafi verið að mörgum þáttum til að búa til sem mesta breidd. „Ég er að koma til baka á mjög spennandi tíma. Þetta eru fyrstu kosningarnar eftir sameiningu og það verður mjög spennandi að sjá þetta allt koma heim og saman og láta nýtt sveitarfélag virka.“

Páll Vilhjálmsson, hafnarvörður á Patreksfirði, er oddviti Nýrrar sýnar. Hann kemur nýr inn á lista en hefur verið viðloðandi starfið undanfarnar tvennar kosningar og auk þess setið í fræðslu- og æskulýðsráði frá 2022. Nýtt fólk skipar efstu fjögur sæti listans, að sögn Páls, sem segir það þó með reynslubolta á bak við sig.

Snörp kosningabaráttan leggst vel í oddvitana tvo. Páll kveðst spenntur fyrir að takast á við verkefni sem þetta í fyrsta sinn undir sérstökum kringumstæðum en aðeins er kosið til tveggja ára. Segir hann Nýja sýn ætla að koma góðu efni til allra íbúa, mæta galvösk á framboðsfundi og hafa opna kosningaskrifstofu. Framboðið er ánægt með samkeppnina, að sögn Páls, sem segir mikilvægt að fólkið hafi val. „Það verður ærið verkefni að koma öllum hjólum af stað í nýju sveitarfélagi þannig að allir geti unað sáttir við.“

Friðbjörg segir ekki óvenjulegt að baráttan sé háð hratt og örugglega á lokasprettinum. Hún segir frambjóðendur vera að byrja að hittast og fara yfir hlutina – allir séu klárir í slaginn.

Munaði 18 atkvæðum

Mjótt var á munum í síðustu kosningum í Vesturbyggð en aðeins munaði 18 atkvæðum á framboðunum tveimur. Ný sýn hlaut fjóra menn í bæjarstjórn Vesturbyggðar en framboð Sjálfstæðiflokksins og óháðra þrjá. Kosningarnar fara fram 4. maí en atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst 5. apríl á skrifstofum sýslumannsembættanna og í sendiráðum erlendis.