[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íbúafjölgun á Íslandi á síðustu tveimur árum er að langmestu leyti borin uppi af aðflutningi fólks með annað fæðingarland. Alls fjölgaði íbúum landsins um ríflega 18.800 manns milli ára 2022 og 2024 og fjölgaði þar af íslenskum ríkisborgurum um ríflega 2.400 manns

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Íbúafjölgun á Íslandi á síðustu tveimur árum er að langmestu leyti borin uppi af aðflutningi fólks með annað fæðingarland.

Alls fjölgaði íbúum landsins um ríflega 18.800 manns milli ára 2022 og 2024 og fjölgaði þar af íslenskum ríkisborgurum um ríflega 2.400 manns. Mest var fjölgunin meðal pólskra ríkisborgara en þeim fjölgaði um tæplega 3.700 manns. Næstir komu Úkraínumenn en þeim fjölgaði um ríflega 3.200.

Íslenskir ríkisborgarar voru í þriðja sæti en þeim fjölgaði sem áður segir um 2.400 manns. Rúmenskir ríkisborgarar voru í fjórða sæti en þeim fjölgaði um ríflega þúsund milli ára 2022 og 2024 og voru tæplega 3.000 í byrjun þessa árs.

Innflytjendur frá Venesúela voru í fimmta sæti en þeim fjölgaði um ríflega 820 á sama tímabili og voru tæplega 1.400 í byrjun þessa árs en fjölgunin milli ára er hér sýnd á grafi eftir helstu þjóðernum.

Íbúafjöldinn ofmetinn

Hagstofan birti nýverið endurmat á íbúafjölda landsins en niðurstaðan var að íbúar landsins hefðu verið 15.245 færri í byrjun þessa árs en eldri aðferð gaf til kynna.

Fram kom í greinargerð með tilkynningu um þetta endurmat Hagstofunnar að ný aðferð byggist á breiðari grunni opinberra gagna; skattagögnum og nemendagögnum auk þjóðskrár. Ofmat á íbúafjöldanum megi að mestu rekja til innflytjenda frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Samkvæmt hinum endurmetna íbúafjölda bjuggu 364.917 manns á Íslandi í byrjun árs 2022 en 383.726 manns í byrjun þessa árs. Þar af var 301.931 skráður með fæðingarland á Íslandi en 81.795 skráðir með annað fæðingarland.

Í áðurnefndri greinargerð er ofmat á íbúafjölda sundurliðað eftir ríkisfangi. Mest var íbúafjöldinn ofmetinn meðal íslenskra ríkisborgara eða um ríflega 4.100 manns. Næstir komu pólskir ríkisborgarar en fjöldi þeirra var ofmetinn um tæplega 2.900 manns. Rúmenskir ríkisborgarar voru í þriðja sæti en þeir voru oftaldir um tæplega 1.200 manns og í fjórða sæti voru Litháar sem voru oftaldir um ríflega 1.150 manns.

Næst voru lettneskir ríkisborgarar oftaldir um tæplega 800 manns og þýskir ríkisborgarar um ríflega 600 manns. Á lista yfir oftalda erlenda ríkisborgara eftir ríkisfangi voru þrjú ríki utan Evrópu. Bandaríkin voru í 15. sæti (111 manns), Filippseyjar í 16. sæti (97 manns) og Venesúela í 17. sæti (11 manns).

Höf.: Baldur Arnarson