Klerkastjórnin missti á mánudag einn helsta yfirmann hryðjuverkaaðgerða sinna

Klerkastjórnin í Íran hefur haft uppi hótanir vegna sprengjuárásar Ísraelshers á mánudag á húsnæði Írans í Sýrlandi þar sem nokkrir féllu, þar með talinn yfirmaður sveita Íranshers í nokkrum ríkjum á svæðinu.

Íran kvartar undan því meðal annars að húsnæðið hafi verið sendiráð og í sama streng hafa ýmsir tekið. Það er þó umdeilanlegt, því að um var að ræða viðbyggingu, en hitt er síður umdeilanlegt að með þessu atviki afhjúpast enn og aftur þáttur klerkastjórnarinnar í ófriðarbálinu í Mið-Austurlöndum.

Mohammad Reza Zahedi, einn þeirra sem féllu í sprengjuárásinni, vann í það minnsta náið með Hesbollah-hryðjuverkasamtökunum í Sýrlandi og var jafnvel í raun stjórnandi þeirra enda með öll tök á birgðaflutningum til þeirra. Og það eru ekki litlir birgðaflutningar því að þessi samtök hafa haldið uppi linnulausum sprengjuárásum frá Sýrlandi á Ísrael mánuðum saman, eða frá því að félagar þeirra í Hamas-hryðjuverkasamtökunum unnu voðaverkin í Ísrael 7. október síðastliðinn. Talið er að Hesbollah hafi á þessu tímabili skotið meira en 3.500 sprengjum á Ísrael og eigi um 200.000 sprengjur eftir sem samtökin geti látið rigna yfir Ísrael.

Bent hefur verið á að víg Zahedi sé hið þýðingarmesta í baráttunni gegn ítökum Írans á svæðinu frá því að Bandaríkjamenn í janúar 2020 sprengdu Qassem Soleimani, þáverandi yfirmann stríðs- og hryðjuverkaaðgerða Írans í nágrannaríkjunum.

Eina leiðin til að ná friði á þessu svæði ófriðar sem Mið-Austurlönd því miður eru er að stöðva stuðning klerkastjórnarinnar í Íran við Hamas, Hesbollah, Húta og önnur hryðjuverkasamtök. Þetta er ekki auðvelt verk en núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa ekki hjálpað með linkind og fjárstuðningi. Vonandi taka þau sig á í þeim efnum og standa í það minnsta með Ísraelsmönnum sem nú heyja erfiða baráttu gegn hryðjuverkamönnum á mörgum vígstöðvum.