Jóhanna vill láta byggja upp hvata tengda fjárfestingum í netöryggi.
Jóhanna vill láta byggja upp hvata tengda fjárfestingum í netöryggi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Áhugavert verður að fylgjast með starfi Defend Iceland en þetta unga netöryggisfyrirtæki hlaut á dögunum veglegan Evrópustyrk til að þróa svokallaða villuveiðigátt fyrir Ísland og þannig styrkja stafrænar varnir þjóðarinnar

Áhugavert verður að fylgjast með starfi Defend Iceland en þetta unga netöryggisfyrirtæki hlaut á dögunum veglegan Evrópustyrk til að þróa svokallaða villuveiðigátt fyrir Ísland og þannig styrkja stafrænar varnir þjóðarinnar. Jóhanna Vigdís greip tækifærið þegar henni bauðst að koma inn í stofnteymi félagsins enda netöryggismál spennandi svið þar sem þróunin er leifturhröð.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Það má eiginlega segja að helstu áskoranir okkar í Defend Iceland felist í þeim mikla fjölda tölvuárása sem íslensk fyrirtæki og stofnanir verða fyrir. Þekking á mikilvægi forvirkra öryggisráðstafana gegn tölvuárásarhópum þarf að aukast hratt til að vera í takt við þessa hröðu fjölgun árása.

Við komum inn á netöryggismarkað sem kannski hefur að einhverju leyti staðnað, með nýja vöru sem hefur þegar sannað gildi sitt hjá okkar fyrstu viðskiptavinum og með það markmið að auka áfallaþol samfélagsins.

Í villuveiðigátt Defend Iceland blöndum við saman nýjustu aðferðum og tólum hakkara í þeim tilgangi að finna öryggisveikleika í net-, tölvu- og hugbúnaðarkerfum fyrirtækja og stöðva þannig tölvuárásir áður en þær eru gerðar og geta valdið skaða. Við þekkjum öll þær alvarlegu árásir sem íslensk fyrirtæki og stofnanir hafa orðið fyrir undanfarið en færri vita hversu miklum skaða þessar árásir valda, hvort sem um er að ræða missi gagna eða kostnað við endurheimt kerfa.

Hver var síðasta ráðstefnan sem þú sóttir?

UT-messan í byrjun febrúar var líklega áhugaverðasta ráðstefna sem ég hef sótt lengi. Þar hlustaði ég til dæmis á vinnufélaga mína flytja hressandi fyrirlestra; Hörn Valdimarsdóttur sem talaði um notkun samskiptablekkinga (e. social engineering) til að fá aðgang að persónuupplýsingum fólks, t.d. lykilorðum, og tilhneigingu okkar sem manneskja til að treysta þeim sem eru fallegir og viðkunnanlegir; og Theódór Gíslason, sem sýndi fram á það hversu algengar hugbúnaðarvillur eru í kerfum fyrirtækja og stofnana, hvernig þær eru hakkaðar og hversu alvarlegar afleiðingar það getur haft.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Með því að ögra sjálfri mér og læra eitthvað nýtt. Í fyrra skráði ég mig til dæmis í nokkra kúrsa í frönsku í Háskóla Íslands og puðaði við að læra franska málfræði og las L´Etranger eftir Camus á frummálinu. Ég verð seint talin frábær í frönsku en nú get ég í það minnsta lesið hana og skil talað mál að einhverju leyti (a.m.k. ef fólk talar mjög hægt!). Þegar upp er staðið læri ég þó mest af því að tala við fólk sem er með mikla reynslu, hvort sem er stjórnendareynslu eða í lífinu almennt, það er besta námið.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Fyrirtæki í nýsköpun þurfa að búa við eins mikinn stöðugleika og mögulegt er. Styrkjaumhverfið í kringum Tækniþróunarsjóð (Sproti/Vöxtur) er gríðarlega jákvætt til að koma nýsköpunarfyrirtækjum af stað og endurgreiðsla vegna rannsókna og þróunar skiptir miklu máli í kjölfarið. Gallinn er að við erum ekki að mennta fólk í netöryggi og hugbúnaðaröryggi, það er ekki partur af grunnnámi og þó að flottir áfangar séu kenndir í netöryggi þá eru þeir valkvæðir. Þetta gerir það að verkum að við erum stöðugt að framleiða fleiri og fleiri öryggisveikleika.

Annað sem við verðum að fara að skoða fyrir alvöru er að byggja upp hvata tengda fjárfestingum í netöryggi, það er einfaldlega hægt að lama samfélagið með netárásum og eins og staðan er í dag er Ísland berskjaldað. Það á ekki bara við um einstök fyrirtæki og stofnanir heldur krítíska innviði sem við getum ekki lifað án.

Nám og störf:

Nám: B.A. í bókmenntum frá Háskóla Íslands 1998; M.Sc. í menningarfræði frá Edinborgarháskóla 2003; MBA frá Háskólanum í Reykjavík 2005; AMP frá IESE Business School í Barselóna 2015.

Störf: Markaðsstjóri Borgarleikhússins og síðar markaðsstjóri Deloitte. Forstöðumaður fjárfestatengsla og markaðsmála hjá Straumi fjárfestingarbanka 2005 til 2008; framkvæmdastjóri Listahátíðar í Reykjavík 2008 til 2011; framkvæmdastjóri Háskólans í Reykjavík 2011 til 2018; framkvæmdastjóri Almannaróms, miðstöðvar máltækni 2018 til 2023; stjórnandi viðskiptaþróunar, sölu og markaðsmála hjá Defend Iceland frá 2024.

Áhugamál: Ég hef mjög gaman af alls kyns brasi og sem betur fer deilir maðurinn minn því áhugamáli. Núna erum við á kafi í framkvæmdum, erum að gera upp hús sem við flytjum inn í um miðjan maí og lítur enn út eins og hamfarasvæði. Við ferðumst nokkuð mikið og það er alltaf gaman að uppgötva nýja staði og upplifa ný ævintýri með fjölskyldunni, hvort sem það er á íslensku hálendi eða í fjarlægari löndum. Svo finnst mér fátt meira afslappandi en að vesenast í mold og gróðri, hvort sem það er að rækta matjurtir eða reyta arfa. Þegar ég fer úr framkvæmdahamnum finnst mér voðalega notalegt að lesa, fara í leikhús, elda góðan mat og halda matarboð fyrir skemmtilegt fólk.

Fjölskylduhagir: Er gift Riaan Dreyer, framkvæmdastjóra hjá Íslandsbanka, og eigum við börnin Líbu, Emil, Nicholu og Sebastiaan, og hundinn Lottu.