Skapandi Hjónin Kristófer Dignus og María Heba Þorkelsdóttir.
Skapandi Hjónin Kristófer Dignus og María Heba Þorkelsdóttir. — Morgunblaðið/Eggert
Framleiðslufyrirtækið Kontent hefur tryggt sér kvikmyndaréttinn að bókum Joachims B. Schmidt um Kalmann, sjálfskipaðan lögreglustjóra á Raufarhöfn. Segir í tilkynningu að Kontent stefni að framleiðslu sjónvarpsþáttaraðar upp úr fyrstu bókinni og að…

Framleiðslufyrirtækið Kontent hefur tryggt sér kvikmyndaréttinn að bókum Joachims B. Schmidt um Kalmann, sjálfskipaðan lögreglustjóra á Raufarhöfn. Segir í tilkynningu að Kontent stefni að framleiðslu sjónvarpsþáttaraðar upp úr fyrstu bókinni og að hún verði tekin upp á Raufarhöfn sem er sögusvið hennar. Kristófer Dignus kemur til með að leikstýra þáttaröðinni og skrifa handrit með eiginkonu sinni, leikkonunni Maríu Hebu Þorkelsdóttur. Í tilkynningu segir að Kalmann sé sérstæður, einfaldur og klókur í senn, sjái lífið í kringum sig öðrum augum en annað fólk og sé í nánu sambandi við náttúru og umhverfi. „En svo hverfur valdamesti maður þorpsins, sem hefur líf þess í hendi sér og virðist flæktur í vafasamt athæfi, Kalmann finnur stærðar blóðpoll við Heimskautsgerðið og allt fyllist af lögreglu og fjölmiðlamönnum sem spyrja óþægilegra spurninga,“ segir um efni bókarinnar. Joachim B. Schmidt fæddist í Sviss árið 1981 og hefur búið á Íslandi frá árinu 2007. Hann hefur áður sent frá sér þrjár skáldsögur.