[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óðinn Þór Ríkharðsson, landsliðsmaður í handknattleik, skoraði átta mörk fyrir Kadetten frá Sviss gegn þýska toppliðinu Füchse Berlín þegar liðin mættust í umspili Evrópudeildarinnar í handknattleik í Berlín í gærkvöld

Óðinn Þór Ríkharðsson, landsliðsmaður í handknattleik, skoraði átta mörk fyrir Kadetten frá Sviss gegn þýska toppliðinu Füchse Berlín þegar liðin mættust í umspili Evrópudeildarinnar í handknattleik í Berlín í gærkvöld. Það dugði þó skammt, Füchse vann leikinn 34:28 og einvígið með tíu mörkum samanlagt. Kadetten er úr leik en Füchse mætir Nantes frá Frakklandi, liði Viktors Gísla Hallgrímssonar, í átta liða úrslitum.

Tryggvi Þórisson og samherjar í sænska toppliðinu Sävehof unnu magnaðan sigur á þýska liðinu Hannover-Burgdorf, 34:25, í umspili Evrópudeildarinnar í handknattleik í gærkvöld. Þar með vann Sävehof einvígið með fimm marka mun samanlagt. Þetta eru söguleg úrslit því þetta er í fyrsta skipti í 21 ár sem sænskt karlalið slær þýskt út í Evrópukeppni í handbolta, eða síðan Redbergslid vann Lemgo í undanúrslitum Evrópukeppni bikarhafa vorið 2003. Sävehof mætir þar með öðru þýsku liði, Flensburg, í átta liða úrslitum.

Ýmir Örn Gíslason og félagar í Rhein-Neckar Löwen eru einnig komnir áfram eftir sigur á Nexe frá Króatíu, 31:29, og sex marka sigur samanlagt. Löwen mætir Sporting frá Portúgal, liði Orra Freys Þorkelssonar, í átta liða úrslitum. Fjórða viðureignin þar er á milli Dinamo Búkarest frá Rúmeníu og Skjern frá Danmörku.

Ollie Watkins, einn af markahæstu mönnum ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, missir af stórleik liðsins gegn Manchester City sem fram fer í Manchester í kvöld. Watkins glímir við meiðsli en gæti verið leikfær á ný strax um næstu helgi. Watkins er næstmarkahæstur í deildinni með 16 mörk, jafn Mohamed Salah hjá Liverpool og Dominic Solanke hjá Bournemouth, en Erling Haaland hjá City er markahæstur með 18. City og Aston Villa eru í þriðja og fjórða sæti deildarinnar.