Smiðjan við Vonarstræti Byggingin er loks sýnileg öllum. Óhætt er að segja að hún setji mikinn svip á miðborgina.
Smiðjan við Vonarstræti Byggingin er loks sýnileg öllum. Óhætt er að segja að hún setji mikinn svip á miðborgina. — Morgunblaðið/sisi
Öryggisgirðingar við Smiðju, nýja skrifstofubyggingu Alþingis, hafa verið fjarlægðar. Húsið blasir nú við almenningi. Það eru mikil tíðindi þegar ný stórbygging rís í hjarta höfuðborgarinnar. Húsið stendur á horni Vonarstrætis og Tjarnargötu og setur mikinn svip á Kvosina

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Öryggisgirðingar við Smiðju, nýja skrifstofubyggingu Alþingis, hafa verið fjarlægðar. Húsið blasir nú við almenningi. Það eru mikil tíðindi þegar ný stórbygging rís í hjarta höfuðborgarinnar.

Húsið stendur á horni Vonarstrætis og Tjarnargötu og setur mikinn svip á Kvosina. Húsið er, að meðtöldum bílakjallara, um 6.500 fermetrar að stærð. Byggingarkostnaður var rúmir sex milljarðar króna.

Húsið er klætt sex steintegundum: Reykjavíkurgrágrýti (sem kemur úr grunni nýja Landspítalans), Grindavíkurgrágrýti, hraungrýti, blágrýti, líparít og gabbró.

Fyrir framan húsið, við Vonarstræti, verður svokölluð Landnámsgryfja en dýpi hennar markast af hæð jarðvegsins við landnám.

Framkvæmdasýsla ríkisins, f.h. Alþingis, bauð til opinnar hönnunarsamkeppni um nýja byggingu á Alþingisreit árið 2016. Niðurstaða dómnefndar var tilkynnt í desember sama ár. Alls bárust 22 tillögur og hlutu Arkitektar Studio Granda; Margrét Harðardóttir og Steve Christer, fyrstu verðlaun.

Framkvæmdir hófust 2020

Fyrsta skóflustungan að nýbyggingu Alþingis var tekin 4. febrúar 2020 og markaði hún formlegt upphaf framkvæmda við bygginguna. Alþingismenn og starfsmenn þingsins fluttu í nýja húsið í byrjun árs 2024.

Efnt var til nafnasamkeppni um heiti á húsið og varð nafnið Smiðja fyrir valinu. Höfundur tillögunnar var Gísli Hrannar Sverrisson.

Forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, gerði grein fyrir vali dómnefndar og sagði m.a. að nafnið Smiðja væri bæði stutt og þjált og hefði tengingu við starfsemi fyrri alda á Alþingisreitnum, sem og fyrirhugaða starfsemi í húsinu. Þá kallist Smiðja vel á við Skála en bæði heitin hafi augljósa skírskotun í húsakost fyrri alda.

Við fornleifarannsóknir á Alþingisreit á árunum 2008-2010 og 2012-2013 hafi komið í ljós mannvistarleifar frá upphafi Íslandsbyggðar til nútíma. Meðal þess sem fannst voru ummerki um járnvinnslu. Í Smiðjunni séu öll tæki og tól til að skila góðu dagsverki, landi og lýð til heilla.