Þorbjörg S. Gunnlaugsd.
Þorbjörg S. Gunnlaugsd.
Vonbrigði landsmanna þegar vextir voru ekki lækkaðir í kjölfar kjarasamninganna voru mikil. Tilfinningarnar eru hliðstæðar því þegar íslenska landsliðið tapar þýðingarmiklum leik. Eins og við höfum öll tapað

Vonbrigði landsmanna þegar vextir voru ekki lækkaðir í kjölfar kjarasamninganna voru mikil. Tilfinningarnar eru hliðstæðar því þegar íslenska landsliðið tapar þýðingarmiklum leik. Eins og við höfum öll tapað.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur lagði til 80 milljarða svo hægt væri að ná samningum en hefur ekki enn svarað hvert á að sækja þessa milljarða. Þess vegna bíður Seðlabankinn með vaxtalækkun.

Vaxtakostnaður heimila jókst í fyrra um 39 milljarða. Því er heilbrigt að forystumenn verkalýðshreyfingarinnar bendi á að stöðugleiki og fyrirsjáanleiki er risavaxið hagsmunamál fyrir fólkið í landinu. Finnbjörn Hermannsson forseti ASÍ segir nágranna okkar á Norðurlöndunum búa við þennan stöðugleika en Íslendinga búa við jójó-hagkerfi. Þetta muni ekki breytast fyrr en fólk getur reitt sig á stöðugan gjaldmiðil. Í huga forseta ASÍ er krónan stóra vandamálið.

Stöðugleiki nágranna okkar skilar því að þegar fólk kaupir íbúð getur það treyst því að vextir haldist svipaðir og afborganir líka. Þar eru ekki þessar jójó-sveiflur sem fylgja örgjaldmiðli okkar. Við heyrum gjarnan þá söguskýringu að þessar sveiflur séu kostur. En heimilisbókhald alls venjulegs fólks segir aðra sögu.

Frændur okkar í Færeyjum sem tengdust evru í gegnum danska krónu eru rólegir þegar vaxtaákvarðanir eru kynntar. Seðlabankastjóri er enginn sérstakur kvíðavaldur fólks í Færeyjum. Spennustig íslensku þjóðarinnar er töluvert annað þegar blaðamannafundir Seðlabankans hefjast.

Æsispennandi blaðamannafundirnir hafa hins vegar ekki áhrif á alla hér á landi. Um 250 íslensk fyrirtæki hafa yfirgefið krónuna eins og fram kom í svari viðskiptaráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi. Þegar vaxtaákvarðanir eru kynntar getur þessi hluti atvinnulífsins blessunarlega einbeitt sér að öðru. Þessum fyrirtækjum bjóðast betri lánskjör en heimilin og hinn hluti atvinnulífsins njóta. Stór hluti þjóðarframleiðslunnar hefur yfirgefið krónuna, heil 42% skv. svörum viðskiptaráðherra við fyrirspurn minni.

Næstum öllum kostnaði af vaxtahækkunum er þess vegna velt yfir á heimili með húsnæðislán, ekki síst ungt fólk og barnafjölskyldur. Þau taka reikninginn. Getur verið að ríkið borgi stóran hluta af kjarasamningum vinnumarkaðarins einmitt vegna þess hversu dýr þessi óstöðugleiki er fyrir almenning? Er ríkisstjórnin að bæta fólki fyrir jójó-hagkerfið?

Það á að hlusta þegar forystumenn í verkalýðshreyfingunni vilja ræða kostnaðinn af krónunni fyrir fólkið í landinu. Og þegar þeir benda á það skakka hagsmunamat að velja krónuna áfram fyrir heimilin þegar stór hluti atvinnulífsins hefur skiljanlega valið að fara annað. Stjórnmálaflokkar verða svo að svara hvaða réttlæti er fólgið í því að fólkið í landinu fái ekki líka að velja.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar. thorbjorg.s.gunnlaugsdottir@althingi.is

Höf.: Þorbjörg S. Gunnlaugsd.