Við skólann Ættingjar barna í Viertola-skólanum í Vantaa í Finnlandi bíða frétta utan við skólann í gærmorgun.
Við skólann Ættingjar barna í Viertola-skólanum í Vantaa í Finnlandi bíða frétta utan við skólann í gærmorgun. — AFP/Markku Ulander
Tólf ára gamalt barn lét lífið og tvö önnur 12 ára gömul börn særðust alvarlega þegar jafnaldri þeirra hóf skothríð á skólafélaga sína í grunnskóla í Vantaa norður af Helsinki, höfuðborg Finnlands, í gærmorgun

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Tólf ára gamalt barn lét lífið og tvö önnur 12 ára gömul börn særðust alvarlega þegar jafnaldri þeirra hóf skothríð á skólafélaga sína í grunnskóla í Vantaa norður af Helsinki, höfuðborg Finnlands, í gærmorgun. Lögregla telur að fórnarlömbin og hinn grunaði hafi verið í sama bekk í skólanum.

Lögreglan hefur ekki gefið upp kyn barnanna en finnskir fjölmiðlar segja að drengur hafi framið árásina. Hann var handtekinn í Siltamäki-hverfi í norðurhluta Helsinki á ellefta tímanum í gærmorgun og var þá enn með skotvopnið. Lögregla sagði að um hefði verið að ræða skammbyssu sem væri í eigu náins ættingja. Byssan er skráð og eigandinn er með leyfi fyrir henni.

Lögregla segir að barnið hafi játað á sig árásina en formlegar yfirheyrslur fóru ekki fram í gær. Drengurinn er ekki sakhæfur vegna aldurs og því er ekki hægt að krefjast gæsluvarðhalds yfir honum. Hann hefur ekki áður komist í kast við lögin og ekki er vitað til þess að hann hafi nein tengsl við glæpasamtök eða tjáð sig áður um fyrirætlun sína.

Foreldrar barna í skólanum sögðu finnskum fjölmiðlum að skotárásin hefði verið framin í skólastofu í Viertola-skólanum. Um 800 börn á aldrinum sjö til 15 ára sækja skólann og starfsfólk er um 90 talsins. Lögreglan var kölluð á staðinn klukkan 9:08 að staðartíma, eða klukkan 7:08 að íslenskum tíma. Dagblaðið Iltalehti talaði við sjónarvott sem sagðist hafa heyrt skothvelli í skólanum skömmu eftir klukkan 9 í gærmorgun og síðan hefðu heyrst skelfingaróp og börn hlaupið út úr skólabyggingunni. Fyrstu lögreglumennirnir komu á vettvang klukkan 9:17 og fyrstu sjúkrabílarnir klukkan 9:23.

Vantaa, sem er um 18 km norður af Helsinki, er fjórða stærsta borg Finnlands. Þar búa um 240 þúsund manns.

Átakanlegt

Alexander Stubb, sem nýlega var kjörinn forseti Finnlands, sagði í færslu á X að þessi atburður væri mikið áfall. Vottaði hann ættingjum barnsins sem lést dýpstu samúð sína.

Petteri Orpo forsætisráðherra Finnlands, Mari Rantanen innanríkisráðherra og Anna-Maja Henriksson menntamálaráðherra héldu blaðamannafund síðdegis í gær. Að sögn Hufvudstadsbladet sagði Orpo að skotárásin væri átakanleg. „Ég vil segja við öll finnsk börn og ungmenni að stjórnvöld og starfsmenn skóla vinna á hverjum degi að því að tryggja að ekkert þessu líkt gerist,“ sagði Orpo. „Síðar getum við dregið fleiri ályktanir, en skólinn verður að vera öruggur staður fyrir alla.“

Að sögn finnskra fjölmiðla barðist Henriksson við grátinn á fundinum. „Þetta átti að vera venjulegur skóladagur en annað kom í ljós. Eitt barn kemur aldrei heim úr skólanum og tvö eru alvarlega sár,“ sagði hún.

Ráðherrarnir voru ítrekað spurðir hvernig það gæti gerst að tólf ára gömul börn hefðu aðgang að skotvopnum. Hendriksson sagði ljóst að grípa yrði til frekari fyrirbyggjandi aðgerða. Mikil vinna væri unnin í skólum, meðal annars við öryggisáætlanir og viðbrögð við ófyrirséðum atburðum.

Rantanen sagði, að flaggað yrði í hálfa stöng við allar ríkisstofnanir í dag og hvatti hún landsmenn til að gera slíkt hið sama. Mínútu þögn verður við upphaf fundar í finnska þinginu í dag. Starfsfólk skóla er hvatt til að ræða við börn um málið

1,5 milljónir skotvopna

Í Finnlandi voru gerðar tvær mannskæðar skotárásir í skóla á árunum 2007 og 2008. Árið 2007 skaut 18 ára nemandi sex nemendur, skólahjúkrunarfræðing og kennara í framhaldsskóla í bænum Jokela norður af Helsinki og svipti sig síðan lífi. Árið eftir skaut annar nemandi níu nemendur og kennara með hálfsjálfvirkum riffli til bana í fjölbrautaskóla í bænum Kauhajoki í norðvesturhluta landsins og svipti sig síðan lífi. Fjöldi hótana um skotárásir hefur síðan borist til skóla í Finnlandi.

Skotárásirnar leiddu til þess að byssulöggjöfin var hert árið 2010 og 20 ára aldurstakmark sett fyrir byssueign auk þess sem umsækjendum var gert að gangast undir próf.

Löng hefð er í Finnlandi fyrir skotvopnaeign og skotveiðum. Alls hafa um 430 þúsund Finnar byssuleyfi samkvæmt tölum, sem finnsk stjórnvöld hafa gefið upp. Engin takmörk eru á fjölda byssna sem hægt er að eiga og finnska innanríkisráðuneytið segir að meira en 1,5 milljónir skotvopna séu í umferð. Um 5,6 milljónir manna búa í Finnlandi.