Ingibjörg Sigurðardóttir fæddist og ólst upp í Krossanesi, Skagafirði, 29. ágúst 1945. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á Karmøy í Noregi 21. mars 2024.

Foreldrar Ingibjargar voru Sigurður Óskarsson bóndi, f. 6. júlí 1905, d. 10. ágúst 1995, og Ólöf Ragnheiður Jóhannsdóttir húsfreyja, f. 20. mars 1908, d. 3. apríl 1991. Systur hennar: Sigurlaug, f. 27. september 1935, og Sigríður, f. 5. apríl 1939.

Ingibjörg fluttist til Noregs 18 ára gömul og gekk í hjónaband þann 31. desember 1967 með Jan Christian Raabe, f. 22. ágúst 1947, d. 15. september 2016. Börn þeirra eru: 1) Anne Christin Raabe, f. 8. júlí 1968. Börn Anne með fyrrverandi eiginmanni, Per Gunnar Sandhåland, eru: a) Christian Sandhåland, f. 4. júní 1991, maki Jeanette Sandhåland, börn: i) Leon, f. 16. apríl 2020, og ii) Johan, f. 1. maí 2023, b) Fredric Sandhåland, f. 11. september 1995, maki Johanne Gustavsen. 2) Marit Raabe Stonghaugen, f. 19. maí 1970, gift Kjell Stonghaugen. Börn Maritar með fyrrverandi eiginmanni, Perry Johan Olsen: a) Anders Raabe Olsen, f. 19. ágúst 1995, maki Christine Iversen, barn: Magnus Raabe Iversen, f. 11. janúar 2024, b) Linn Karin Raabe Olsen, f. 14. október 1997, c) Sander Emil Raabe Olsen, f. 20. júlí 2002, maki Simen Sæverud Gåsland. Marit á eitt barn með Kjell Stonghaugen, Håvard Stonghaugen, f. 31. júlí 2009.

Ingibjörg kláraði sjúkraliðanám í Norgegi og bjó meðal annars í Ósló þar sem hún starfaði á læknavaktinni þar í borg. Árið 1970 fluttist hún með eiginmanni sínum og dætrum til Åkrehamn á Karmøy þar sem hún og bjó til æviloka. Þar starfaði hún sem sjúkraliði á hjúkrunarheimilinu í Kopervik.

Útförin fer fram frá Åkra kirke á Karmøy í dag, 3. apríl 2024, og hefst klukkan 13.

Ef þjóð minni gæti ég gefið

gjöf, þá væri hún sú,

afl sem aldrei brysti,

aflið á guðlega trú.

(Sigurður Óskarsson)

Svo orti Siggi í Krossanesi, faðir Ingibjargar, móðursystur minnar.

Þegar við minnumst Immu, eins og hún var jafnan kölluð, finnst mér þessi vísa eiga við. Hún treysti á sína guðlegu trú, það góða í mannlegu eðli.

Imma flutti ung tíl Noregs. Þar kynntist hún Jan, sem varð eiginmaður hennar. Þau bjuggu sér þar heimili en æskustöðvarnar í Krossanesi voru aldrei langt undan.

Eins og títt er um Skagfirðinga var Imma hestvön. Hún var lipur knapi og tók þátt í kappreiðum á Vallabökkunum, auk þess sem hún þurfti að nota hesta við bústörfin. Það voru engar dráttarvélar í Krossanesi á þeim tíma. Þá var enn nokkuð langt í nútímann.

Imma var nútímakona, hún vildi reyna eitthvað nýtt. Fór til Noregs, til að vinna og uppfylla ævintýraþrá sína. Hún flutti aldrei aftur heim. Átti góða og giftusamlega ævi með manni sínum og dætrunum Anne og Marit.

Fyrir hönd fjölskyldu Immu á Íslandi votta ég dætrum hennar og afkomendum mína dýpstu samúð.

Þetta jarðlíf okkar tekur enda

í eilífðinni þornar sérhvert tár.

Þá bið ég ljósið birtu þína að senda

svo bænir vorar mildi hjartans sár.

Sigurður Þorsteinsson.

Nú þegar ég kveð ástkæra móðursystur mína, Immu, er margs að minnast. Þótt hún hafi búið í Noregi frá árinu 1963, áður en ég fæddist, fyrst í Ósló og síðar á Karmey, hélt hún ávallt sterkum tengslum við Ísland og ræktaði fjölskyldu sína hér. Fyrstu áratugina kom hún reglulega til Íslands á sumrin og lengi vel annað hvert ár.

Það var mikið tilhlökkunarefni þegar Imma kom með dætur sínar, Anne og Marit, og ætíð færandi hendi.

Imma var glaðvær og mikill húmoristi og alltaf glatt á hjalla hvar sem hún kom, hlátur og gleði. Hún var músíkölsk, hafði yndi af tónlist og söng og gat gripið í gítarinn ef þannig lá á henni.

Imma kunni ógrynni af sögum og skemmti okkur löngum stundum með frásögnum af fyndnum uppákomum í lífi sínu og prakkarastrikum í æsku. Hún var sannur Skagfirðingur og bar sterkar taugar til heimahaganna. Sem barn og unglingur hafði hún til dæmis einstaklega gaman af hestamennsku eins og hún átti kyn til.

Þegar ég bjó í Noregi um skeið styrkti það fjölskylduböndin enn frekar og sambandið við frænkur mínar úti.

Imma var lífsglöð og trúuð og þrátt fyrir alvarleg veikindi síðasta áratuginn hafði hún sterkan lífsvilja fram á síðustu stundu og barðist hetjulega í veikindum sínum.

Samband Immu við systur sínar, Sigurlaugu móður mína og Sigríði, var sterkt og henni ómetanlegt. Sérstaklega eftir að eiginmaður hennar Jan Raabe lést árið 2016. Síðustu árin talaði hún daglega við systur sínar í síma. Vegna veikinda sinna átti hún þess ekki kost að heimsækja Ísland í yfir áratug.

Ég er þakklátur fyrir að hafa átt ástríka og góða frænku sem fylgdi mér í lífinu.

Dætrum hennar Anne og Marit og fjölskyldum sendi ég hugheilar samúðarkveðjur.

Ólafur Þór Þorsteinsson.