Sagan Tim Harford er með áhugavert hlaðvarp.
Sagan Tim Harford er með áhugavert hlaðvarp. — Ljósmynd/Timharford.com
Metsöluhöfundurinn Tim Harford er líklega mörgum lesendum kunnugur fyrir ritröð sína The Undercover Economist þar sem hann útskýrir á mannamáli margvíslega hluti sem viðkoma hagfræði og því hvað smyr eða stöðvar tannhjól mannlegrar tilveru hér á…

Lára Fanney Gylfadóttir

Metsöluhöfundurinn Tim Harford er líklega mörgum lesendum kunnugur fyrir ritröð sína The Undercover Economist þar sem hann útskýrir á mannamáli margvíslega hluti sem viðkoma hagfræði og því hvað smyr eða stöðvar tannhjól mannlegrar tilveru hér á jörð, sama hvar borið er niður.

Færri vita kannski af hlaðvarpi hans, Cautionary Tales with Tim Harford, sem gefa mætti heitið Víti til varnaðar með Tim Harford á íslensku, og er að finna á efnisveitum á borð við Spotify og Youtube. Í þáttunum er fjallað um ýmis óhöpp og hræðileg atvik og atburði í mannkynssögunni, stórmenni og óþokka, uppfinningar frá ýmsum tímum, stríðsbrölt og margt fleira athyglisvert, allt sett fram í stuttri frásögn með grípandi hljóðmynd sem sogar hlustandann inn í atburðarásina.

Tim brýtur svo málin til mergjar og útskýrir samhengi allra atvikanna sem leiddu til þess atburðar sem fjallað er um hverju sinni. Hver gerði hvað og hver hefði betur sleppt því að gera nokkuð? Oft liggur það ekki í augum uppi þegar skelfileg slys eða atburðir eiga sér stað en Tim leiðir okkur í allan sannleikann um orsök og afleiðingu svo læra megi af – sem víti til varnaðar.