Adolf Garðar Guðmundsson fæddist í Reykjavík 14. júní 1935. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Mörk 19. mars 2024.

Foreldrar Adolfs voru Magnea Ingibjörg Gísladóttir, f. 16. apríl 1903, d. 3. júní 1975, og Guðmundur Kristinn Símonarson, f. 22. ágúst 1897, d. 14. ágúst 1988. Systur Adolfs eru Hulda, f. 5. desember 1925, og Gyða f. 4. janúar 1933.

Eiginkona Adolfs var Erla Guðrún Þórðardóttir, f. 20. ágúst 1937, d. 23. júlí 2019. Foreldrar hennar voru Stefanía Jóhanna Steindórsdóttir, f. 18. júlí 1913, d. 24. september 1995, og Þórður Sigursveinn Aðalsteinsson, f. 28. september 1901, d. 10. maí 1982.

Börn Erlu Guðrúnar og Adolfs Garðars eru: 1) Margrét Unnur, f. 14. nóvember 1958, maki Leo Santos Shaw, f. 11. desember 1964. Synir þeirra eru: Ad, Frosti og Tex. 2) Stefanía, f. 27. ágúst 1960, maki Sigurður Halldórsson, f. 13. janúar 1963. Börn þeirra eru: Viktoría, Klara og Tómas. 3) Guðmundur Viðar, f. 2. september 1961, maki Lilja Sigurðardóttir, f. 9. maí 1965. 4) Garðar, f. 11. nóvember 1970, maki Eirný Þöll Þórólfsdóttir, f. 11. júlí 1973. Dætur þeirra eru: Katla, Hekla og Eyja. Barnabarnabarn Adolfs er Hrói.

Adolf ólst upp og gekk í skóla í Reykjavík. Hann var símvirki og vann allan sinn starfsferil, yfir 50 ár, hjá Símanum og forverum hans.

Hann var áhugasamur um íþróttir og var mikill keppnismaður. Ungur stundaði hann skíði og keppti fyrir KR. Hann var mjög virkur í badminton og keppti fyrir TBR auk þess sem hann tók virkan þátt í uppbyggingu TBR-hússins. Á efri árum spilaði hann golf sér til ánægju.

Adolf var virkur félagi í Akóges meðan hann hafði heilsu til og vann óeigingjarnt starf í þágu félagsins.

Útför Adolfs fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 3. apríl 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Í dag kveð ég elskulegan tengdaföður minn Adolf Garðar Guðmundsson. Adolf fæddist í Reykjavík 14. júní 1935, yngstur þriggja systkina. Hann gekk í skóla í Reykjavík og fór ungur að vinna hjá Pósti og síma þar sem hann vann allan sinn starfsferil sem símvirki, ríflega 50 ár. Hann var svo sannarlega Reykvíkingur og þekkti Reykjavík eins og handarbakið á sér, bæði vegna þess að þar var hann uppalinn og ekki síður vegna þess að hann kom að hönnun allra símalagna í Reykjavík í starfi sínu sem símvirki. Það var mjög skemmtilegt og fróðlegt að keyra með honum um Reykjavík, hann rataði um allt og var mjög fróður um sína borg.

Árið 1958 giftust þau Adolf og Erla Guðrún Þórðardóttir frá Akureyri. Þau eignuðust fjögur börn, Margréti Unni, Stefaníu, Guðmund Viðar og Garðar. Barnabörnin eru níu og eitt barnabarnabarn.

Dolli hafði mikinn áhuga á íþróttum og var mikill keppnismaður. Ungur stundaði hann skíði í Skálafelli og keppti fyrir KR. Margar sögurnar sagði hann mér af ferðum sínum í Skálafell en lítið var um skíðalyftur á þeim árum. Hann spilaði einnig badminton í TBR til fjölda ára með félögum sínum. Hann lék sér í golfi meðan heilsan leyfði og áttum við Guðmundur skemmtilegar stundir með honum á golfvellinum. Dolli var virkur félagi í Akóges þar sem hann átti sína vini sem hittust reglulega, fóru saman í ferðalög og skemmtu sér saman ásamt mökum sínum.

Ég var svo sannarlega heppin með tengdaforeldra, Erla og Dolli voru yndislegt fólk sem tók mér afskaplega vel þegar ég kynntist Guðmundi syni þeirra. Þau hugsuðu vel um fólkið sitt og voru einstaklega samhent hjón. Við Dolli vorum góðir vinir og höfðum bæði mikinn íþróttaáhuga og sátum oft við sjónvarpið að horfa á Íslendinga keppa á stórmótum.

Þau hjón voru fagurkerar og nutu þess að fegra umhverfi sitt bæði innan- og utanhúss. Þau áttu fallegt heimili og garðurinn við hús þeirra í Kópavogi er einstaklega fallegur og vel hirtur og þar nutu þau góðra sumardaga.

Þau ferðuðust mikið og fóru oft til sólríkra landa og nutu lífsins sérstaklega vel í sól og hita.

Það var Dolla mikið áfall þegar hann missti Erlu sína í júlí 2019, söknuður hans var mikill enda samfylgd þeirra löng og falleg.

Elsku Dolli, með þessum orðum kveð ég þig og þakka þér ljúfa samfylgd en það er erfitt að hugsa til þess að þú sért ekki lengur með okkur, ekki fleiri heimsóknir og heyra aldrei aftur skemmtilegu tilsvörin þín.

Lilja Sigurðardóttir.

Elsku afi okkar. Við minnumst yndislegra daga æskuáranna með þér og ömmu í Hljóðalindinni. Að fá að gista hjá ykkur var alltaf tilhlökkunarefni. Í fallega húsinu þar sem allt var tandurhreint á sínum stað með garðinum þar sem allt var í blóma og fíflabaninn var búinn að sjá til þess að grasið væri einungis grænt, þannig var þetta alltaf í minningunni. Þú sast inni í sjónvarpsherbergi að horfa á enska boltann að borða það sem við köllum afahnetur og amma sat inni í stofu og las bók. Þú gerðir allt svo fallega fyrir ömmu, á morgnana skarstu ávextina í pínulitla bita alveg eins og hún vildi hafa þá ofan í ab-mjólkina og ef það var helgi fengum við cocoa puffs … þið svoleiðis dekruðuð við okkur.

Á seinni árum fengum við barnabörnin svo að koma og hjálpa til við garðinn og spreyta okkur á fíflabananum og sláttuvélinni á meðan þú sast sólbrúnn og sæll að segja okkur til verka og amma að skoða tímarit á Costa del Hljóðalind í hlýjunni í garðinum, það var eins og það væri alltaf besta veðrið í garðinum ykkar á sumrin sem átti vel við þar sem þið bæði elskuðuð að skreppa til Spánar að sækja sólina og hlýjuna, við fengum svo að njóta góðs af því í garðinum ykkar.

Amma og afi lögðu ást og alúð í að bjóða okkur velkomin á heimili sitt, það voru alltaf dýrindis veislur í Hljóðalind og þið kunnuð svo vel að taka hverju tilefni hátíðlega og af virðingu með því að fara í fínasta pússið og leggja á borð fínasta stellið. Svo var alltaf mikið sport að fá að fara með afa inn í bílskúr meðan á veislunum stóð að grilla laxinn og kasta pílum. Maturinn var borinn fram af mikilli vandvirkni og ást, fjölskyldan á Laufásvegi mun seint gleyma því þegar sjö ára Klara sagði vælandi: „Mig langar að fara til ömmu og afa og fá almennilegt kjöt.“ Áramótin voru alltaf haldin í Hljóðalind með pomp og prakt og öllu tilheyrandi og við munum sakna þess sárt að geta ekki tekið á móti sérhverju nýju ári með þér elsku afi. Við munum halda áfram þessum hefðum og siðum og hugsa til ykkar, þið voruð sannar fyrirmyndir.

Þegar þú varst viðstaddur var alltaf mikið hlegið, þú hafðir svo létta lund og varst alltaf að grínast og tókst á móti lífinu og öllu sem því fylgir á léttu nótunum fram á síðasta dag. Guð varðveiti þig elsku afi.

Þín barnabörn,

Viktoría, Klara

og Tómas.

Ljúft er að láta hugann reika til baka og rifja upp minningar og samveruna við fráfall góðra samferðamanna við brottfall þeirra úr okkar tilveru hér á jörðu.

Svo hagar til að undirritaður hafði kynnst yndislegri stúlku, sem síðar varð eiginkona hans og lífsförunautur, systur Adolfs Garðars Guðmundssonar sem hér er kvaddur. Undirritaður var utanbæjarmaður kominn til náms í Reykjavík og átti því snemma góðar og ánægjulegar stundir á heimili Adolfs á Holtsgötu 12 hjá þá tilvonandi tengdaforeldrum mínum, þeim Guðmundi Kr. Símonarsyni og Magneu Gísladóttur, og systrum Adolfs, Huldu og Gyðu minni.

Adolf átti góð unglingsár á sínu góða heimili, dvaldi mörg sumur í sveit í Meiri-Tungu í Holtum en að lokinni venjulegri skólagöngu, þá aðeins 18 ára gamall, hóf hann símvirkjanám á gömlu Símstöðinni við Austurvöll og vann alla sína starfsævi farsællega hjá Landssíma Íslands.

Vegna starfa sinna hjá Símanum vann hann tímabundið á Ísafirði, en það varð til þess að straumhvörf urðu í lífi hans, því þar kynntist hann verðandi konu sinni, Erlu Guðrúnu Þórðardóttur, sem var nemandi við Húsmæðraskólann þar og varð síðar eiginkona hans og lífsförunautur.

Þau eignuðust fjögur börn.

Árið 1998, ef ég man rétt, veiktist Adolf mjög alvarlega og var haldið sofandi á spítala í tæpa þrjá mánuði en komst þó yfir þau veikindi þótt stundum stæði tæpt að hann hefði það af. Afleiðingarnar orsökuðu mikinn stirðleika í líkamanum, sem kröfðust mikilla æfinga og vinnu og hjálpaði sundið mikið upp á, sem hann stundaði af kappi alla tíð, sem og badminton eins og margir í okkar fjölskyldu.

Adolf gerðist dyggur félagi í félagi okkar beggja, Akóges, í 58 ár.

Að lokum viljum við Gyða mín og fjölskyldur okkar senda börnum Adolfs og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Megi góður Guð taka þér opnum örmum og blessa þig kæri vinur og mágur.

Haraldur Baldursson.

Kær félagi okkar og vinur, Adolf Guðmundsson, er látinn. Hann lést 19. mars síðastliðinn.

Adolf hafði verið félagi í Akóges í Reykjavík frá 1966 eða í um 58 ár. Hann var sannur heiðursmaður, frábær og góður félagi sem alltaf hafði eitthvað jákvætt og gott að leggja til allra mála. Adolf var ávallt reiðubúinn og lagði sig fram í öllu sem hann tók að sér fyrir félagið, enda gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir okkur á löngum ferli.

Við félagar söknum góðs drengs sem nú er horfinn frá okkur og þökkum fyrir ánægjuleg kynni og góða nærveru.

Aðstandendum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

F.h. Akóges í Reykjavík,

Hlynur Ólafsson.