Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Gert er ráð fyrir því að fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025 til 2029 verði lögð fram á Alþingi um miðja næstu viku, en áður hafði verið gert ráð fyrir því að hún kæmi fram í þessari viku. Þetta segir Birgir Ármannsson forseti Alþingis í samtali við Morgunblaðið.
Segir Birgir að þau boð hafi borist frá fjármálaráðuneytinu að ekki myndi nást að leggja hana fram í þessari viku, en vinna við hana hefði tafist.
Gangi þessi áform eftir er stefnt að því að fjármálaáætlunin verði tekin til umræðu strax í byrjun þarnæstu viku, jafnvel mánudaginn 15. apríl. Þrír fundir Alþingis eru á dagskrá þá vikuna, þ.e. mánudag, þriðjudag og miðvikudag, en nefndarfundir hina dagana.