Víkingar verða Íslandsmeistarar karla í fótbolta annað árið í röð eftir harðan slag við Valsmenn. Breiðablik hafnar í þriðja sætinu og KR-ingar hreppa fjórða sætið og komast í Evrópukeppni, svo framarlega sem bikarmeistararnir 2024 enda ekki neðar í deildinni.
Þetta er niðurstaðan í hinni árlegu spá Morgunblaðsins og mbl.is fyrir Bestu deild karla en spáin um sæti fimm til tólf hefur birst í blaðinu undanfarna tvo daga.
Víkingar fengu 279 stig í spánni, aðeins þremur stigum meira en Valsmenn sem fengu 276 stig. Breiðablik fékk 249 stig í þriðja sætinu og KR 212 í því fjórða.
Víkingum var spáð efsta sætinu af 44 prósentum þátttakenda í spánni, Valsmenn voru með 40 prósent og Breiðablik í þriðja sæti með átta prósent.
Röð hinna liðanna var þessi: Stjarnan 185 stig, FH 181, KA 142, Fram 129, ÍA 118, Fylkir 63, Vestri 60 og HK 56 stig.
Víkingar mæta til leiks með mjög svipað lið og vann titilinn í fyrra. Þeir misstu besta mann Íslandsmótsins, Birni Snæ Ingason, til Halmstad en fengu Valdimar Þór Ingimundarson frá Sogndal og Jón Guðna Fjóluson frá Hammarby.
Gylfi Þór Sigurðsson styrkir lið Valsmanna verulega en auk hans fengu þeir Jónatan Inga Jónsson frá Sogndal og Bjarna Mark Duffield frá Start.
Blikar mæta með mikið breytt lið en þeir fengu m.a. Aron Bjarnason frá Sirius, Daniel Obbekjær frá Færeyjum og Benjamin Stokke frá Kristiansund.
KR-ingar náðu í þrjá leikmenn erlendis frá, Axel Andrésson frá Örebro, Alex Þór Hauksson frá Öster og Aron Sigurðarson frá Horsens.