Sýning á verkum Johns Zurier og Kees Visser verður opnuð í galleríinu Berg Contemporary í dag, 5. apríl, og ber hún titilinn Where We Are, eða Þar sem við erum. Um verk þeirra segir m.a. í texta eftir Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur: „Er tímaflakk mögulegt í málverki? Situr fortíðin alltaf eftir í núinu? Málverk Kees Visser og Johns Zurier kallast á að mörgu leyti. Þeir mála abstrakt litaflæmismálverk, sem samanstanda af mörgum lögum. Þó er skýr munur á verkum hvors fyrir sig og aðferðir listamannanna ólíkar.“
John og Kees eru sagðir sammála um að þeir hugsi ekki beinlínis þegar þeir máli og hvorugur leggi áherslu á sjálfstjáningu. „Þeir nota innsæið, líkamsminnið og endurtekninguna. Þeir vita hvað þeir eru að gera, án þess að hugsa um það. Þeir þekkja leiðina, sína eigin leið, þeir hafa stikað hana sjálfir. Kees með aðferð sem hann hefur þróað gegnum listferil sinn, John í leit að síhverfandi augnablikum með pensilstrokum sem ganga aftur,“ skrifar Halla. Nánar á bergcontemporary.is.