Kristín Björnsdóttir.
Kristín Björnsdóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frumherjar í starfi Krabbameinsfélagsins lögðu grunn en huldukona að norðan gerði sér grein fyrir mikilvægi erfðagjafa.

Vilhjálmur Bjarnason

Margir einstaklingar hafa unnið mikilsverð störf án þess að nokkur viti um árangur starfanna.

Þannig er með eina huldukonu, Kristínu Björnsdóttur. Hún fæddist árið 1909 að Litlu-Giljá í Húnavatnssýslu en missir föður sinn á öðru ári, þegar hann verður úti. Móðir Kristínar flutti nokkrum árum síðar til Blönduóss með börnin.

Á Blönduósi fær Kristín sína formlegu menntun í Kvennaskólanum á Blönduósi. Aðeins 15 ára lýkur hún námi og kemst til Reykjavíkur og fer að vinna hjá Landssímanum.

Stórborgin Reykjavík var alls ekki nógu stór fyrir sveitastúlku úr Húnavatnssýslu. Hún fer til Englands til að læra ensku. Með því hefst alþjóðlegur ferill heimskonu. Oftast glæsilegur en um tíma dapurlegur, þegar hún situr í stríðsfangelsi í þrjú ár.

Kristín gætti barna í París og var um tíma heimiliskennari hjá Mussolini, kenndi Eddu dóttur hans ensku.

Í minningargrein sem Elín Pálmadóttir blaðamaður skrifaði um Kristínu að henni látinni segir:

„Kristín þekkti af eigin reynslu hörmungar styrjaldar og gaf þá skýringu síðar á því af hverju hún kom þar til liðs, að „sú göfuga stofnun hafði að stefnumáli allt sem ég trúði á“. Hún hafði þá setið í stríðsfangabúðum fasista í þorpi uppi í fjöllunum á Suður-Ítalíu í rúm þrjú ár og komist í maí 1945 til New York með fyrsta stóra bandaríska herflutningaskipinu sem flutti heim um sex þúsund hermenn og sex konur. Kristín hafði tekið loforð af hershöfðingjum innrásarliðs bandamanna að koma henni yfir Atlantshafið strax og auðið væri, en hún hjálpaði á móti í framsókninni við samskipti og túlkun á ítölsku, og bæði efndu þann samning. En síðustu mánuði stríðsins var hún með Rauða krossinum á vígstöðvunum.“

Kristín var „standandi án bakhjarls á eigin fótum í stórborgum heimsins, London, París og Róm“.

Að stríðinu loknu starfar Kristín um skamman tíma hjá IBM en fékk svo starf hjá göfugu stofnuninni, sem hún trúði á í fangelsinu, Sameinuðu þjóðunum. Þar dró hún íslenska fánann að húni þegar Ísland gerðist aðili árið 1946. Kristín var mikil málamanneskja; „…jafnvíg í samræðum á mörgum tungumálum, ensku, frönsku, ítölsku og dönsku.“ Kristín starfaði hjá Sameinuðu þjóðunum í 23 ár en þá flutti hún til Íslands. Hún var viðstödd þann fræga fund þegar Krjústsjof barði skó sínum í borð til að ná athygli fundarins.

Kristín og Vísindasjóður

Það kann að vera undarlegur formáli að stofnun Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins að segja af lífshlaupi konu úr Húnavatnssýslu. Samhengið er einfalt.

Kristín veiktist af krabbameini og lést árið 1994. Hún ákvað í erfðaskrá sinni að leggja helming eigna sinna, 66 milljónir, til rannsókna á krabbameinum, einkanlega krabbameinum barna. Þetta erfðafé er fjórðungur af stofnfé Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins árið 2015.

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur veitt styrki til krabbameinsrannsókna, sem nema um 450 milljónum. Vissulega er það ekki mikið í alþjóðlegu samhengi, en styrkir Vísindasjóðsins hafa skipt styrkþega verulegu máli varðandi aðgang þeirra að alþjóðlegum rannsóknarverkefnum.

Það er talið að tilfellum krabbameina muni fjölga um tæp 40% fram til ársins 2040, þrátt fyrir að verulegur árangur hafi náðst í forvörnum, með leit og skimun, og meðferð krabbameina. Þessi fjölgun stafar af öldrun og aldurssamsetningu þjóðarinnar.

Beiðni um skýrslu frá heilbrigðisráðherra

Nokkrir þingmenn lögðu fram beiðni um skýrslu um stöðu rannsókna í líf- og læknavísindum hjá Landspítalanum.

Eftirfarandi spurningar voru lagðar fyrir ráðherra:

„Við vinnslu skýrslunnar verði leitað svara við spurningum á borð við:

hvernig ráðgert er að sinna frumrannsóknum á krabbameinum á nýjum Landspítala í framhaldi af klínískum rannsóknum á sjúkrahúsinu

hvort fullnægjandi aðstaða hefur verið tryggð fyrir nýja dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á spítalanum

hvernig rannsóknum er sinnt utan sjúkrahúsa á opinberum rannsóknastofum og á hvaða rannsóknastofum

hvernig ráðherra sér fyrir sér að rannsóknum á sviði krabbameina verði sinnt í alþjóðlegu samstarfi.“

Í svari ráðherra, sem er „Skýrsla heilbrigðisráðherra um stöðu rannsókna í líf- og læknavísindum með áherslu á rannsóknir krabbameina, samkvæmt beiðni“, á 153. löggjafarþingi, er lítið um markmiðasetningu en vísað er til rannsókna á vegum Krabbameinsfélagsins og Vísindasjóðs félagsins:

„Rannsóknir á krabbameinum eru aðallega styrktar af samkeppnissjóðum þar sem uppbygging sameiginlegra rannsóknarinnviða og framhaldsnáms hefur verið í lykilhlutverki við eflingu þessara rannsókna. Rannsóknir hljóta einkum styrki frá Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs, rannsóknasjóðum stofnana auk sérhæfðra sjóða. Að auki hefur Göngum saman styrkt rannsóknir á brjóstakrabbameinum og þá hefur Blái naglinn jafnframt stutt við rannsóknir. Þá hefur stofnun Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins skipt miklu máli, en hann styrkir árlega rannsóknir á krabbameinum, jafnt grunnrannsóknir sem klínískar rannsóknir. Þar má sjá þverskurð þeirra krabbameinsrannsókna sem stundaðar eru á landinu.“

Á þessu vori mun Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins veita styrki sem skipta rannsóknarhópa máli og gera einstaklinga hæfari en áður til að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi. Metnaðarfull markið í krabbameinsrannsóknum eru alls ekki óraunhæf. Það hefur tekist að draga úr ótímabærum dauðsföllum af völdum hjarta- og æðasjúkdóma um tæp 80%. Rannsóknir eru fyrsta skrefið.

Frumkvæði konu

Frumherjar í starfi Krabbameinsfélagsins lögðu grunn en huldukona að norðan gerði sér grein fyrir mikilvægi erfðagjafa. Þess vegna er til Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins.

Höfundur var alþingismaður.

Höf.: Vilhjálmur Bjarnason